GLEÐILEG JÓL.

Nú er allt að verða tilbúið til þess að taka við hátíðinni sem í hönd fer. Þegar ekið er um göturnar, hvort sem er hér í Árborg eða í borginni, þá þekur nú ljósadýrð hús og garða sem aldrei fyrr og jólaverslunin hefur aldrei verið blómlegri segja spekingarnir í fjölmiðlunum.  Stóru ísskáparnir eru nú úttroðnir af mat, bæði þessum venjulega og fínu steikunum sem auglýstar voru á sextán þúsund krónur kílóið og seldust  upp á augabragði. Já svona er nú velmegunin orðin mikil hjá litlu þjóðinni okkar. Einhver gullsmiðurinn sagði í viðtali, að þeir gullsmiðirnir yrðu að vera með mun dýrari og flottari skartgripi nú en áður og með stærri demöntum því fólk hefði orðið mun meiri peninga milli handanna og krafan um dýrari vörur væri meiri. í kvöld var rætt við úrsmið í sjónvarpsfréttatímanum og hann sagði að Rolex úr sem kostuðu 2,3 milljónir hefðu selst upp fyrir jólin.  Í sama fréttatíma var talað við MS sjúkling sem hafði 40.000 til ráðstöfunar í jólamánuðinum.

Þetta hefur einnig smitast til jólasveinanna sem gefa í skóinn og það er spurning hvort það séu komnir nýir jólasveinar á kreik, sem fara til barna þeirra sem eiga mikla peninga.  Börnin undrast, þegar þau mæta í skólann og ræða við skólasystkinin um það sem jólasveinninn gaf þeim í skóinn, að sum góðu börnin hafa kannski fengið flottan blýant eða  hárspennu á meðan önnur hafa fengið leikjatölvur eða annað álíka. Þeim finnst það líka svo einkennileg heppni hjá þeim sem fá svona flottar gjafir að það skuli alltaf koma jólasveinar til þeirra, sem gefa svona flott í skóinn. 
Já það er erfitt fyrir saklausar barnssálir að skilja slíkt misræmi og amma á heldur ekki skýringar á því athæfi sumra  jólasveina að mismuna börnum á þennan hátt.

Svo er aftur á móti spurning hvort þeim börnum líður nokkuð betur sem fá til sín jólasveinana sem gefa stóru gjafirnar á hverjum degi í desember. Það er nefnilega alveg eins auðvelt að gleðjast yfir smáu, vitandi að það er frá þessum köllum í fjöllunum sem koma á hverri nóttu með einhverjar smágjafir til góðu barnanna og svo fá þau stærri pakka á sjálfum jólunum.

Mér finnst gott að börnin viti, hvað við sem getum haldið Gleðileg jól og höfum bæði góðan mat og gjafir eigum gott, því ekki eru allir svo lánsamir að geta slíkt. Það eiga margir um sárt að binda. Margir dvelja á sjúkrahúsum um jól, bæði börn og fullorðnir og svo eru margir sem  myndu vilja gera vel við sína en hafa af ýmsum ástæðum engin tök á slíku. Sumir hafa misst atvinnuna og sumir eru sjúkir eða hafa misst maka. Ástæðurnar eru miklu fleiri og víða er aumt í búi  þrátt fyrir það að auglýsingarnar um allsnægtirnar glymja jafnt hjá ríkum og fátækum og sumi börn fá mandarínu í skóinn á meðan aðrir fá stóra og dýra hluti. Svona er bara Ísland í dag.

Við skulum hugsa til þeirra sem ekki hafa það eins gott og við sjálf og muna að vera þakklát og auðmjúk nú þegar jólahátíðin gengur í garð.  Jólin koma jafnt hjá ríkum og fátækum og allir eiga jafnan aðgang að innihaldi jólanna hverjar svo sem umbúðirnar eru.

Lifið heil og njótið hátíðarinnar og hvers annars.

jolakv07.jpg

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

9 Responses to GLEÐILEG JÓL.

  1. Svanfríður says:

    Elsku Ragna mín-þú skrifar sannleikann-jólin koma, hvað sem verður,allavega á mínu heimili og fyrir það er ég þakklát.
    Ég óska þér gleðilegra jóla Ragna mín og langar að segja þér að mér finnst þú vera yndisleg kona og ég er himinánægð að hafa kynnst þér, þú glæðir lífið í gegnum bloggið.
    Jólakveðjur einnig til Hauks, Svanfríður.

  2. Guðlaug Hestnes says:

    Hátíð.
    Óska þér og þínum innilegrar jólahátíðar, og takk fyrir kynnin.

  3. Linda says:

    Elsku Ragna, ég óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári..

    Ég þakka fyrir hlý orð á síðunni minni elsku Ragna..

    Hlýjar jólakveðjur yfir hafið,
    Linda

  4. Sigrún í Mosó says:

    Sendi þér mínar bestu óskir um gleðileg jól með þökk fyrir skemmtileg skrif.
    Jólakveðja
    Sigrún

  5. Borghildur says:

    Sæl Ragna, vildi endilega kommenta á þennan frábæra pistil hjá þér. Þetta er mjög umhugsunarverð lesning. Þetta er eitthvað sem hefði þurft að senda á foreldra grunnskólabarna núna fyrir hátíðirnar. Ég er hreinlega ekki viss um að allir foreldrar (og þá sérstaklega þeir fjáðu) hugsi mikið út í þetta. : l
    Kv. Bogga

  6. jens says:

    Ragna og Haukur,ég óska ykkur gleði og gæfuríkra jóla og nýs árs.Takk fyrir góðar stundir á líðandi ári.

  7. þórunn says:

    Hátíðarstund
    Elsku Ragna, takk fyrir þennan þarfa og sanna pistil, það væri betra ef allir hugsuðu svona.
    Við Palli sendum okkar bestu kveðjur til ykkar Hauks, með ósk um að þið eigið gleðilega hátíð og góða daga framundan.

    Þórunn

  8. Anna Sigga says:

    Gleðileg jól!
    Bestu kveðjur til þín og þinna. Jólakveðjur úr Drápuhlíðinni.

  9. Eva says:

    Jólakveðja
    Elsku Ragna mín. Bestu jólakveðjur til þín og þinna frá okkur í Hlíðunum. Megir þú borða, sofa, lesa gleðjast og knúsa pabba minn öll jólin.

Skildu eftir svar