Í kyrrðinni á jóladagsmorgun.

Hafið þið ekki fundið miklu kyrrðina sem er yfir öllu á jóladagsmorgnum? 
Þrátt fyrir það að við fórum seint að sofa á aðfangadagskvöld þá vaknaði ég mjög snemma á jóladag. Ég fór fram og kveikti á öllum jólaljósunum og jólatrénu ásamt nokkrum kertum. Svo settist ég niður inni í stofu og lét hugann reika til liðinna jóla, ekki bara til síðustu jóla heldur jóla í gegnum tíðina. 

jol07.jpg

Þegar maður er orðinn svona gamall, kominn á sjötugsaldurinn, þá eru það auðvitað bernskujólin sem alltaf koma fyrst upp í hugann.  Ég fór að hugsa um það þegar við fórum að heimsækja hana elstu systur mína  sem þá var komin með sína fjölskyldu.  Mér er alltaf minnisstætt úr þessum ferðum á jóladag, hvað ég var heilluð af jólatrésseríunni þeirra, en hún var með glærum kertum og þegar hún hitnaði þá birtust alla vega litar loftbólur sem dönsuðu þarna inni í kertunum. Svona hafði ég aldrei augum litið.  Síðan reikar hugurinn áfram um minningar frá bernskunni.

Svo koma minningar um fyrstu jólin eftir að ég fór úr foreldrahúsum.  Þá bjuggum við Oddur heitinn nýtrúlofuð, 17 og 18 ára gömul, í einu herbergi með smá eldhúskrók sem við höfðum tjaldað af í einu horninu.  Eldhúsinnréttingin var úr ölkössum sem við höfðum málað og raðað saman svo við fengum skápapláss og gátum látið hraðsuðuketil og annað nauðsynlegt standa á. Þrátt fyrir þessi fátæklegu húsakynni þá skreyttum við hátt og lágt og vorum með lítið jólatré á borði í einu horninu. Þessi jól fengum við foreldrana í kaffi og það er til mynd af okkur þar sem við sitjum sitt hvorumegin við jólatréð, með stjörnur í augum  og höldumst í hendur. Já það þurfti ekki mikið til að vera hamingjusamur og sæll með sitt.

Ég minnist líka jólanna þegar við fórum austur á Heiði í 70 ára afmæli Odds Oddssonar afa Odds míns. Sú afmælisveisla er mér mjög minnisstæð og gömlu karlarnir úr sveitinni urðu enn skemmtilegri en þeir voru vanir að vera þegar þeir voru búnir að fá nokkrum sinnum sopa úr flottu flöskunni með dansparinu innaní.  Það var mikil upplifun fyrir borgarstelpuna að kynnast því hvernig afmælisveislurnar gengu fyrir sig í sveitinni.
Það vandaðist hinsvegar málið þegar við ætluðum heim því þá vorum við orðin veðurteppt í sveitinni því það hafði kyngt svo niður snjó. Það var reyndar farið að snjóa þegar við fórum með rútunni austur en svo hélt snjókoman látlaust áfram. Ég man ekki lengur með hvaða farartæki við komumst loks heim aftur en í borginni var líka allt ófært og vinna lá niðri á mörgum stöðum því fólk komst ekki til vinnu sinnar. Mig minnir að þetta hafi verið árið 1968.

Svo halda minningarnar áfram að gera vart við sig á meðan ég horfi á jólaljósin.

Það hafa orðið margar breytingar á jólahaldinu hjá mér í gegnum tíðina þó aðalumgjörðin sé alltaf sú sama.  Nú er Oddur ekki lengur til staðar og hvorki mamma, pabbi né tengdapabbi. Elsta systir mín og mágur hafa líka yfirgefið þennan heim en öll lifa þau áfram í minningunni.  Forsjónin sér síðan til  þess að þegar ástvinir eru teknir frá manni, þá komi aðrir góðir í staðinn og fyrir það er ég þakklát. Nú á ég aftur góðan mann og honum fylgja fjölskyldur þriggja dætra hanns, svo eru dæturnar okkar Odds heitins og síðan hafa tengdasynir og barnabörn bættst í hópinn.

Svo hvarflar hugurinn áfram að hverjum jólum eftir önnur og um þau öll á ég svo góðar minningar og ég horfi í kringum mig  þar sem ég sit ein í stofunni minni eldsnemma á jóladagsmorgun og hugsa um hvað hamingjan hefur í raun verið mér hliðholl, grætt sár þegar á hefur þurft að halda og veitt mér ríkulega af gæðum sínum.

Ég bið ykkur vel að lifa kæru vinir
og njótið minninganna því þær eru  fjársjóður lífsins.

Svo lýk ég pistlinum með þessari fallelgu mynd sem hann Haukur minn gaf mér.

img_6621.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

11 Responses to Í kyrrðinni á jóladagsmorgun.

  1. Sigurrós says:

    Sit hér í Kópavoginum og tárast yfir fallegri færslunni. Takk fyrir að leyfa okkur að rifja upp gamla tíma með þér, elsku mamma mín.

  2. Svanfríður says:

    Já það eru orð að sönnu, við eigum að vera þakklát fyrir það sem við höfum og mér heyrist þú svo sannarlega vera það.
    Það er fallegt hjá þér, mjög jólalegt og friðsælt.
    Þú ert góð kona og átt allt gott skilið. Gleðilega hátíð áfram. Svanfríður.

  3. afi says:

    Ævintýri.
    Jól, ró og friður. Minningarnar hrannast upp eins og snjóskaflar.
    Á köldum vetrarkvöldum er gott að orna sér við ljúfar minningar.
    Hafðu þökk fyrir þessa fallegu frásögn. Og fyrir það fá að njóta ævintýranna með þér.

  4. Jólafriður..
    og friður í sálu. Fallegur pistill Ragna mín, takk fyrir.

  5. Dóra says:

    Sæl Didda mín og gleðileg jól öllsömul.
    Langaði bara að segja þér að jólaserían með vatnsbólunum sem að amma og afi voru með á jólatrénu eru hluti að jólunum í minni fjölskyldu þar sem að mamma og pabbi eru alltaf með hana á jólatrénu hjá sér, alltaf einhvað svo skemmtileg og það er sko búið að gera við hana mörgu sinnum en hún stendur alltaf fyrir sínu.
    Gaman að lesa bloggið þitt ,
    Bestu nýárskveðjur Dóra og fjölsk.

  6. Linda says:

    Þetta var yndisleg frásögn elsku Ragna.. svo hlý og innileg..
    Minningarnar eru einmitt það sem við ornum okkur við..Þú virðist eiga nóg af þeim til að hlýja þér við fyrir alla lífstíð..

    Bestu kveðjur frá Groton

  7. þórunn says:

    Gleðilegt nýtt ár
    Elsku Ragna, þetta var fallegur pistill hjá þér, það er gott að staldra við og hugsa til baka um allar góðu minningarnar. En svo er líka gott að lifa fyrir líðandi stund og þakka fyrir allt það góða sem manni hefur hlotnast.
    Við sendum ykkur Hauki góðar óskir um gott nýtt ár með gleði og góðri heilsu. Innilegar þakkir fyrir vináttu á liðnum árum,
    Þórunn og Palli

  8. Ragna says:

    Takk, Takk
    Kæru vinir þakka ykkur kærlega fyrir allar góðu kveðjurnar ykkar. Það er svo gaman að sjá hverjir koma hér í heimsókn.

  9. Stefa says:

    Það er ekki hægt annað en sitja með tárin í augunum við þessa fallegu færslu Ragna mín. Þú átt svo allt gott skilið og að þú skulir vera svona þakklát fyrir það sýnir bara hversu yndisleg manneskja þú ert.

    Takk fyrir samveruna á liðnum árum.
    Kveðja,
    Stefa

  10. Birna Þorsteins says:

    Gleðilegt ár
    Gleðilegt ár Ragna mín til þín og fjölskyldunnar.
    Það var gaman að lesa um afmælisveisluna hans afa, hún er mér alveg afskaplega minnisstæð. Þú getur ímyndað þér hvort þetta kvöld hefur ekki verið mikið ævintýri fyrir 9 ára sveitastelpuna, þetta var árið 1964.
    Oddur afi var fæddur 28.des 1894.
    Kærar kveðjur af Skeiðunum, Birna.

  11. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Birna mín. Já þetta hefur verið 1964. Mig minnti að þetta hefði verið árið sem við fluttum í Hraunbæinn en þetta hefur verið árið sem við fluttum í Golfskálann á Öskjuhlíðinni 1964, árið sem við giftum okkur.

Skildu eftir svar