Að kvöldi þrettándans.

Þá eru enn ein blessuð jólin á enda, þessi hátíð sem svo sannarlega lýsir upp skammdegið hjá okkur og fyllir okkur notalegheitum á allan hátt. Jólaskrautið er nú allt komið í kassa uppi í hillu, búið að þrífa og á morgun er bara venjulegur dagur. Ég hef ábyggilega sagt það áður, að eins og  mér finnst skemmtilegt að setja upp jólaskrautið og njóta þess yfir jólin, þá er viss léttir þegar allt er aftur komið upp í hillu og hversdagsleikinn tekur við.

Okkur Hauki var boðið í dýrindis kvöldverð í Grundartjörninni  í kvöld. Það var borðað snemma því hér á Selfossi tíðkast það að kveðja jólin með pompi og prakt á þrettándakvöldi með blysför jólasveina og annarra bæjarbúa að stórum bálkesti sem jólasveinarnir þrettán kveikja síðan í með blysum sínum.  Guðbjörg var heima með Ragnar Fannberg en við Haukur, ásamt Magnúsi Má, Karlottu og Oddi ömmustubb röltum upp í  Gestsskóg þar sem ekki leið á löngu þar til jólasveinarnir tendruðu bálið.

Hér ganga þeir frá blysum sínum jólasveinarnir þrettán
eftir að hafa tendrað bálið í bálkestinum.

jolalok1jpg.jpg

Krakkarnir fengu stjörnuljós, hér er Oddur með sitt.
jolalok2.jpg

Síðan var stórkostleg flugeldasýning sem gaf
sýningunni á menningarnótt ekkert eftir og hvað eftir annað
sprungu svo stórar bombur að himinhvolfið fylltist af ljósadýrð.

 jolalok3.jpg

Veðrið í kvöld var eins yndislegt og hægt var að óska sér, logn og heiðskírt.

Það er þrennt hérna í Árborg sem ég vil helst ekki missa af, en það er brennan á þrettándakvöld, morgunverðurinn sem öllum bæjarbúum er boðið í að vorinu og kvöldvakan með varðeldinum og sléttusöngnum í ágúst.  Þetta eru allt atburðir sem nánast allir ferðafærir bæjarbúar taka þátt í.  Það eru t.d. svona uppákomur, sem gera það eftirsóknarvert að búa utan Reykjavíkur. Hér tvístrast fólk ekki til allra átta heldur fara allir á sama staðinn þegar eitthvað stendur til.  Húrra fyrir því.

Jólin sjálf voru nú svolítið öðruvísi en venjulega. Ég fékk eins og fleiri einhverja fjárans kvefpest með tilheyrandi svefnleysi og hreyfði mig því minna út úr húsi en venjan er á þessum tíma, svo var nú veðrið ekki til að hrópa húrra fyrir svo fólk var almennt minna á ferðinni.   Á gamlárskvöld sátum við Haukur t.d. bara tvö heima í Sóltúninu því ég treysti mér ekki í mat til Guðbjargar og alls ekki í bæinn. En nú  horfir þetta allt til betri vegar og vonandi verður allt kvef úr sögunni fljótlega.

Ég vona að ég standi mig í að vera dugleg að blogga á þessu nýja ári þó ég spyrji sjálfa mig oft að því hvað ég sé eiginlega að gera með þessu bloggi mínu, sem hvorki sé fugl né fiskur. það er oft þegar ég sé blogg  vitsmunafólksins,  þeirra sem tjá sig um politík og dægurmál  og fara mikinn, sem svona hugsun hellist yfir mig. Þá sé ég nefnilega hversu fátæklegt þetta pár mitt um allt og ekkert úr lífi hversdagskonunnar er. Það sem hinsvegar heldur mér gangandi er þessi góði bloggvinahópur sem ég vil ekki fyrir nokkurn mun missa úr lífi mínu. þess vegna ætla ég að halda áfram að hitta ykkur á þessum vettvangi áfram hvort sem það er gáfulegt eða ekki sem hér ratar á skjáinn.

Ég bið ykkur vel að lifa kæru vinir.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Að kvöldi þrettándans.

  1. Sigurrós says:

    Það stendur hvergi í bloggreglum að nauðsynlegt sé að blogga um stjórnmál og annað slíkt til að teljast „merkilegur“ bloggari. Bloggið þitt er svo sannarlega merkilegt og skemmtilegt, mamma, og það sést á stórum lesendahópnum 🙂 Haltu endilega áfram! 🙂

  2. Gleðilegt nýtt ár…
    ég tek undir orð fyrri ritara, hver tilgangur hvers og eins bloggs hefur að gera, er hvers og eins að ákveða! ég kíki annað slagið inn til þín annað hvort frá svanfríði eða guðlaugu og finn mig alltaf í góðri heimsókn á íslandi er ég stoppa við hjá þér…
    mitt blogg hófst bara í svona „allt í gamni“ formi en hefur svo reynst vera tengill minn við mitt fólk og mína vini og það allra besta er að það hjálpar mér að halda minni tungu á réttu brautinni. við valkyrjur út um allan heim eigum nefnilega eftir að varðveita íslenska málið þar sem við erum í fjarlægðinni að missa af öllum breytingum sem málið er að verða fyrir nú í alþjóðastefnu landans. ef bloggið gerir ekki annað en að passa upp á málfræðina, þá er það hið besta mál….
    endilega haltu þínu striki

  3. Svanfríður says:

    Bloggin þín hafa margt fram yfir önnur blogg því þú ert svo hlý í skrifum þínum.
    Kærar kveðjur,Svanfríður

  4. Linda says:

    Ég finn mig oft í sömu stöðu í sambandi við hvort ég eigi að halda áfram að hripa niður þessar litlu og ómerkilegu færslur sem eiga að kallast blogg.. Finnst ég einmitt ekki hafa neitt að segja og hafa liðið nokkrar vikurnar á milli færslna.. Ekki það að ég hafi ekkert haft að segja, heldur var lífið bara svo óréttlátt, að mér fannst, og vildi ég því ekki skrifa um endilaus leiðindi og þunga og fannst því þögnin betri kostur..

    Þú, Ragna mín, skrifar af svo miklum innileik og hlýju að það er ekki annað hægt en líða vel eftir heimsóknirnar, svo það væri stórt skarð rist í hópinn ef þú myndir hætta skrifunum þínum..

    Svo, eins og Stella segir, þá er engin stöðluð uppskrift um það hvernig blogg eiga að vera skrifuð eða um hvað þau eiga að vera, þetta er þín síða og þú átt að skrifa það sem þig langar til að skrifa..
    svo (í eigingirni minni) vona ég að ég eigi eftir að lesa fullt, fullt af færslum á nýja árinu..

    Hlýjar kveðjur til þín..

  5. Gott..
    Gleðilegt ár og allt það mín kæra. Bloggið þitt er sko miklu betra heldur en þessir pólitískutískupennar senda frá sér. Trúðu mér! Kveðja í kotið

  6. Ragna says:

    Þakka ykkur elskurnar mínar fyrir góða uppörvun. Ég segi bara að lélegt sé betra en ekkert og held mínu striki á ykkar ábyrgð, ha,ha.

  7. þórunn says:

    Enga minnimáttarkennd
    Kæra Ragna, þú átt alls ekki að bera þitt blogg saman við einn eða neinn, það sem gerir bloggheima svo yndislega er að þar eru svo margar raddir í gangi, sem betur fer engin eins. Það kemur ekki annað til greina en þú haldir áfram að láta þína rödd kvaka, þetta væri ekki svona skemmtilegt nema af því hver syngur með sínu nefi.
    Höldum áfram að hittast á netinu,
    kveðja ur kotinu
    Þórunn

Skildu eftir svar