Já svona fór um sjóferð þá.

Jæja krakkar mínir,  ég sé að ég hef talað um að birta úrlausnina. Úrlausn í svona máli kemur auðvitað ekkert fljúgandi svona eins og litlu fuglarnir koma á pallinn. Nei, þetta tekur sinn tíma og það er gott og blessað því ekkert liggur á.

Svona til að fyrirbyggja allan missilning strax, þá á Svanfríður ekki kollgátuna þegar hún talar um barneignir, en mikið svakalega hefði nú verið gaman ef það gæti gengið upp. Ég er ekki heldur að fara að setja upp fyrirtæki ég hef hvorki taugar né metnað í slík.  Ekki er ég að flytja til Portúgal í litla gula húsið hennar Þórunnar eins og Guðlaug Hestnes stingur uppá.

Mergurinn málsins er samt sá, að ég og auðvitað Haukur líka ætlum að flytja búferlum, þrátt fyrir yndislega fallega húsið mitt , fallega garðinn og allt það.  Okkur langar til þess að hafa meiri samskipti við fólkið sem við skildum eftir á höfuðborgarsvæðinu og geta dansað, helst á hverjum degi eins og við áformuðum að gera í ellinni.  Hér er bara ekki um slíkt að ræða. Við fórum reyndar á dansnámskeið fyrir jól þar sem við vorum gamla fólkið með nokkrum kornungum pörum.  Það var þó ekkert slæmt því við spjöruðum okkur bara vel, en eftir jólin þýddi ekki að skrá sig því við ætlum að skreppa í sólina fljótlega og þá hefðum við misst svo mikið úr. Við höfum verið í línudansi hjá eldri borgurum einu sinni í viku í 45 mín ásamt systur minni og mági og þar með er allt upp talið. Það er bara eitt gömludansaball hér á haustin og annað á vorin og búið.  Við vorum búin að ákveða að láta ekki vegalengdina til Reykjavíkur stoppa okkur í að skreppa þegar eitthvað væri á döfinni í bænum en eins og veturinn var í fyrra og öll ósköpin undanfarið þá hefur allt farið fram hjá manni. Nú er Haukur með íbúðina sína í bænum í útleigu svo það er ekki um annað að ræða en keyra alltaf austur aftur hvort sem er að nóttu eða degi, ef maður fer í bæinn. Það minnkar og minnkar kjarkurinn með aldrinum og ég skammast mín ekkert fyrir að segja að ég bara þori ekki að keyra á milli, kannski um nótt eftir ball, þegar það er hálka og stormur að ekki sé nú minnst á snjóinn. 

Nú hafa systkini Hauks verið að hætta að vinna eitt af öðru og Haukur myndi gjarnan vilja hafa meiri samskipti við þau og svo á hann tvær dætur og fjölskyldur í bænum líka og samskiptin eru orðin svo sorglega lítil eftir að við fluttum austur.  Sama er að segja um það sem að mér snýr. Ég á líka fólk sem mig langar til að umgangast á Reykjavíkursvæðinu og nú eru vinkonurnar flestar hættar að vinna og ég er ekki ánægð með það að þurfa að sleppa saumaklúbbnum vegna ófærðar.   Svo á ég auðvitað líka dóttur og fjölskyldu í bænum og helst vildi ég taka með mér Grundartjarnarfjölskylduna og hafa líka í borginni.  Það verður alveg nýtt að vera ekki nálægt þeim því ég hef verið nálæg barnabörnunum mínum sem eru hérna alveg síðan þau fæddust. Hvílíkur lúxus – ekki eru allar ömmur svona heppnar.

Ég ætla ekki til Reykjavíkur því okkur langar ekkert til þess.  Mest langar okkur að setjast að í góðu fjöllbýli með lyftu, helst á 6. til 9. hæð svo við getum haft útsýni,  í nýrri hverfunum í Kópavogi, eða jafnvel í Hafnarfirði,  þar sem stutt er í þjónustu.

Ég er ekki búin að setja í sölu en samt eru ein hjón hérna úr nágrenninu, sem fréttu af þessu búin að skoða hjá mér og eru spennt að fá húsið. Þau settu strax í sölu hjá sér og svo er bara að sjá til hvað gerist.  Það er best að flana ekki að neinu, en ákvörðunin okkar um flutning stendur og við flytjum í bæinn þó tímasetning sé enn á reiki og íbúð í bænum ekki fundin.

Það eru margir hissa á að við tímum að fara úr þessu húsi og í blokk, en það er alltaf spurning hvað maður á að bindast sterkum böndum við dauða hluti.  Ég kýs að auka frekar  félagsskapinn við lifandi fólk,  því heimilið mitt er þar sem hjarta mitt slær. það hefur alltaf verið þannig, sama hvert húsnæðið hefur verið.

Ég ætla nú ekki að hafa þetta lengra því þá nennir enginn að lesa þetta svo hér set ég punktinn. 

Góða helgi kæru vinir

Kraftur tilfininganna er orka –
Gagnslaus þar til hún er tekin í brúk.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Já svona fór um sjóferð þá.

  1. þórunn says:

    Í sömu sporum
    Ragna mín, ég skil þig svo vel og finnst þið taka rétta ákvörðun í þessu máli. Það hefði nú verið gaman að fá ykkur í gula húsið ef við flytjum í nágrennið. Ég er sammála þér með að tengjast ekki um of, dauðum hlutum heldur lifa lífinu lifandi. Gangi ykkur vel, þetta kemur allt með kalda vatninu.
    Kveðja frá okkur Palla
    Þórunn

  2. Linda says:

    Jah, það er ekkert annað.. En mikið líst mér vel á þessa ákvörðun ykkar.. Ég geri mér vel grein fyrir að það er alltaf erfitt að flytja og þá sérstaklega frá fjölskyldunni, en ég sé að þið hafið virkilega hugleitt alla kanta og tekið ákvörðun eftir vel umhugsað mál.. Ég óska ykkur innilega til hamingju með ákvörðunina og vona að þið þurfið ekki að bíða lengi..

    Bestu kveðjur elsku Ragna..

  3. Hulla says:

    🙂
    Hlakka til að heyra af næsta skrefi.
    Búin að skoða Austurkot og komin á bleikt ský. Hahahaha.
    Góða helgi til ykkar pabba.

  4. Svanfríður says:

    Fjölskyldan er dýrmætust, eignir koma þar fyrir aftan einhversstaðar. Til hamingju með þessa ákvörðun, mér líst vel á hana. Gott skyldfólk mitt flutti úr einbýlishúsi þar sem þau höfðu búið í rúm 30 ár, alið upp öll sín börn þar og tekið á móti okkur ættingjunum í tonnatali. Þau fluttu í nýju fjölbýlishúsin í Kópavoginum fyrir nokkrum árum síðan og veistu-það er alveg jafn gott að koma þar inn og var þegar þau bjuggu í einbýlishúsinu. Þannig að með sómafólk eins og ykkur, þá hef ég ekki nokkrar áhyggjur. Hlakka til að fylgjast með. Góða helgi, Svanfríður

  5. húsið..
    er þar sem hjartað er. Látið drauminn rætast, njótið lífsins og dansið fallega saman. Þorrakveðja.

  6. afi says:

    Draumaíbúð.
    Kannski hentar það betur að færa að færa ykkur um set. Hvað sem þið gerið, gangi ykkur allt að óskum. Auðvitað verður eftirsjá eftir fallega húsinu á Selfossi, en það kemur bara annað í staðinn. Hver segir að það verði ekki líka fallegt heimili?
    Það er alltaf erfitt að flytja.
    Gangi ykkur vel.

  7. K says:

    Ég ráðlegg Hafnarfjörðinn ef þú ert ekki búin að kaupa 🙂
    Kolla Valtýs

  8. Ragna says:

    Er einhver ástæða fyrir Hafnarfirðinum frekar en Kópavoginum Kolla mín?
    Nú er nefnilega síðasti sjens að skipta um skoðun.

Skildu eftir svar