Á fullri ferð í rússibananum.

Ekki átti ég nú von á því að hlutirnir gengju svona hratt og fyrirhafnarlítið fyrir sig við söluna á Sóltúninu þó ég vissi í hjarta mínu að ég að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að fallega húsið mitt seldist ekki fljótt.  En ég átti ekki von á að vera búin að selja áður en ég væri svo mikið sem búin að fá mér fasteignasala til að selja fyrir mig.

Hjónin, sem komu strax og skoðuðu hérna eftir að þau fréttu að við  hyggðumst flytja, hafa nú gert bindandi tilboð svo nú er allt á fullu að leita að einhverju heppilegu húsnæði, helst í Salahverfinu eða þar í kring í Kópavoginum.  Við höfum verið með nokkrar  eignir í sigtinu og verið að þrengja hringinn svo vonandi líður ekki á löngu þar til ég get sagt ykkur nýtt heimilisfang. Þórunn, sem stendur í sömu sporum og ég,  talar um það í blogginu sínu að  svona ferli sé hálfgert leikrit.  Ég er nú stödd í leikhléi milli sýninga og bíð fram á sunnudagskvöld eftir því að vita hvort tilboði mínu hafi verið tekið og mér verði boðið aðalhlutverkið á nýjum stað.

Ég vona að þessi rússibanaferð taki fljótt enda og ég geti komist almennilega niður á jörðina aftur með nýtt heimilisfang  og  ró komist á svo ég geti farið að snúa mér að því  að finna kassa og pakka. Það verður nú auðveldara í þetta sinn að taka sig upp eftir aðeins 5 ár hérna, en síðast voru árin 23 sem ég hafði verið á sama stað. Það er því mikið búið að grisja af dóti og allt ætti að verða minna í sniðum. 

Við hlökkum mikið til að eiga það í vændum að komist í gömlu dansana a.m.k. á hverju sunnudagskvöldi og jafnvel oftar. Við söknum þess allra mest að vera hætt að komast til að dansa, þá meina ég alvöru dansiböll,  en ég vil ekki gera lítið úr því að einu sinni í viku höfum við farið í línudans hjá eldriborgurum hérna á Selfossi og haft mjög gaman af, en um aðra dansleiki fyrir fullorðna er ekki að ræða hér og okkur er svo illa við, ef við förum á ball í Reykjavík, að þurfa að keyra aftur austur að nóttu til, hvernig sem færð og veður er.

——————————

Nú bara þeytist ég á rússibananum fram á sunnudagskvöld og vonandi stoppar hann þá því annars byrjar annar hringur eftir helgi.

Njótið helgarinnar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Á fullri ferð í rússibananum.

  1. Svanfríður says:

    Elsku Ragna mín, ég veit ekki hvað ég á að segja nema til hamingju með söluna. Mér finnst þó að ég skynji smá kvíða en kannski er það vitleysa í mér. En vittu til, allt mun fara vel og þið finnið fallegt heimili þar sem þið munuð verja góðum tíma. Mér finnst alveg frábært hvað þú /þið eruð sækin en þannig á maður að vera því annars er lífið bara leiðinlegt og einsleitt.
    Hafið það gott og ég vona að rússíbananum ljúki fljótlega.Góðar kveðjur og knús, Svanfríður

  2. þórunn says:

    Hraðferð
    Sæl Ragna mín, þetta eru góðar fréttir frá þér, til hamingju með söluna það er enginn vafi að þið fáið góða íbúð í bænum. Ég hlakka til að heimsækja ykkur þar, næst þegar við komum. Ég skil vel að hugurinn sé á rússíbanaferð, það gengur hægar hjá mér enda aðrar aðstæður. Gangi ykkur vel, kveðja frá okkur Palla, Þórunn

  3. Ragna says:

    Enginn kvíði.
    Þakka þér umhyggjuna Svanfríður mín. Ég er ekkert kvíðin og sé alls ekki eftir því að hafa farið út í þetta. Það er bara þetta hraða ferli og spennutímabil inn á milli vegna tilboðsgerðar og þess háttar sem er svolítið stressandi og verður fínt að klára. Ég þarf sem fyrst að vita hvert heimilisfang mitt verður og þá verð ég alveg pollróleg.

  4. Húsakaup..
    hljóta alltaf að senda viðkomandi í smá rússíbanaferð, en ég veit að lendingin verður væg og þið njótið ykkar í taktföstu lífi…og dansi. Væri til í að syngja á gömludansaballi með ykkur á gólfinu. Kveðja í kotið.

Skildu eftir svar