Rússibaninn hefur stöðvast. Sagan sögð.

Í lok janúar ræddum við Haukur það fyrir alvöru að flytja okkur í bæinn aftur. Það er nefnilega svo, að þrátt fyrir það hvað okkur hefur liðið vel hérna á Selfossi og líkað vel að vera í litlu samfélagi, þá fylgja því líka ókostir og aðal ókosturinn er fjárans Hellisheiðin. Fólk sem alltaf hefur búið hér segist nú ekki láta það trufla sig.  Það er hinsvegar öðruvísi að hafa vaxið með staðnum,  unnið hér og eignast í gegnum tíðina vini,  heldur en vera aðkomumaður sem er hálf utanveltu hvað varðar bæjarlífið og er ekki með á nótunum með innfæddum þegar verið er að tala um  menn og málefni.  Okkar vinir eru allir í Reykjavík, að ekki sé nú talað um dansinn sem við söknum mjög.  Maður yngist ekki og það vex manni alltaf meira og meira í augum að böðlast yfir þessa Hellisheiði og heim aftur að nóttu til  hvernig sem viðrar, þegar hitta á vini, fara í leikhús eða að dansa.  

Úr því við Haukur vorum farin að ræða þetta af alvöru og vorum bæði  sammála, þá var auðvitað ekkert annað að gera en drífa í hlutunum.  Ég vildi nú strax láta systur mína vita hvað við værum að hugsa um að gera og eftir það fór rússibaninn á fulla ferð með okkur innanborðs og hann er í raun búinn að vera á fleygiferð í rúman hálfan mánuð.  Ég ætla nú ekki að endurtaka þá sögu, heldur koma með framhaldið. Ég fékk sem sagt strax tilboð í eignina hérna, áður en ég svo mikið sem var búin að fá fasteignasala til að selja fyrir mig.  Síðan gerðum við tilboð í bænum, ég í íbúðina og Haukur ætlar að kaupa bílskúrinn. Í morgun  kom svo í ljós að við fengum íbúðina, eftir nokkur tilboð fram og til baka. Það er virkilega stressandi að standa í svona tilboðsgerð og ég fékk skammir fyrir það hvað ég var með miklar áhyggjur af öllum hinum í þessu ferli, það ku ekki eiga að hugsa þannig í viðskiptum. Ég hafði áhyggjur af þeim sem keyptu af mér og hvað yrði hjá þeim ef þau yrðu ekki búin að selja sitt þegar kæmi að því að borga. Svo þurfti ég auðvitað  líka að hafa áhyggjur af unga fólkinu sem við kaupum af, því ég bauð lægra en uppsett verð og kannski yrðu þau þá í vandræðum með að greiða af því sem þau eru búin að festa sér. Já, það er endalaust hægt að velta svona hlutum fyrir sér og þetta er nú það sem ég kalla rússibanaferð því maður á í raun engan möguleika á að stökkva af þegar ferðin er hafin. Ekki það að ég  sjái eftir að ætla í bæinn, það er bara þetta leiðinda ferli að settu marki sem var að gera út af við mig.   Ég vona bara að allir geti staðið sáttir með pálmann í höndunum þegar fer að vora og allir komnir á sinn stað. Ég er sem sé búin að kaupa íbúð og Haukur búinn að kaupa bílskúr, því bílskúrslaus vildi hann ekki vera. Hann hefur þá alla vega flóttaleið þegar kerlingin verður eitthvað geðill, ha,ha. 

Hér eru myndirnar af og úr húsinu
eins og þær voru í auglýsingunni. Ég skipti svo um myndir
þegar við verðum komin inn með okkar dót. Við verðum á 3. hæð.

Ég er farin að hlakka til því nú tekur öðruvísi spenningur við.

Við erum sem sé á förum frá Selfossi áður en varir og ætlum að setjast að í Salahverfi í Kópavogi, nánar tiltekið í Fensölum, nokkrum skrefum ofan við  Sundlaugina (Versölum) og líkamsræktar og íþróttamiðstöðina – eins gott fyrir líkamsræktarfólkið. Í næsta nágrenni þegar farið er eftir göngustígnum er svo heilsugæsla, Nettobúð og apotek.  Íbúðin verður laus  um miðjan marz svo við þurfum aldeilis að taka til hendinni þegar við  verðum búin að safna kröftum í sólinni í suðurhöfum.

Ef einhvern sárlangar til að hjálpa okkur við flutninga seinni partinn í marz þá gefi sá sami sig fram.  Við skulum ekki setja ströng inntökuskilyrði, ha.ha, glætan að einhvern langi í slíkt job.

Ég kveð ykkur í bili

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

26 Responses to Rússibaninn hefur stöðvast. Sagan sögð.

  1. Það er gott að búa í Kópavogi
    Eins og maðurinn sagði. Velkomin í hópinn!

  2. Sigurrós says:

    Til hamingju með þetta allt saman, mamma 🙂 Hlökkum til að fá ykkur í Kópavoginn!

  3. Linda says:

    Innilegar hamingjuóskir með íbúðina elsku Ragna og Haukur.. búin að skoða myndirnar og líst bara asskoti vel á.. Svo björt og rúmgóð..

    Það verður gaman að sjá myndirnar þegar þú hefur puntað með þínu dóti og gert hana heimilislega eins og þér einni er lagið..

    Til hamingju aftur með þessa glæsilegu eign..

    Bestu kveðjur,
    Linda

  4. þórunn says:

    Falleg íbúð
    Elsku Ragna og Haukur, innilega til hamingju með þessa fallegu íbúð, bjartar stofur, flott eldhús, rúmgott bað og góð herbergi að auki. Mér sýnist útsýnið fallegt og eins og þú segir, öll þjónusta í göngufæri. Þetta verður frábært hjá ykkur.
    Já gott fyrir Hauk að hafa bílskúr. Gangi ykkur vel að pakka og flytja, ég væri til í að hjálpa ef ég væri þarna í nágenninu….
    Kveðja frá okkur Palla,
    Þórunn

  5. Gurrý says:

    Til lukku!
    Þetta eru aldeilis fréttir en hjartanlega til hamingju með þessa ákvörðun og megi þetta fallega heimili verða eins glæsilegt og það sem ég sótti heim á Selfossi. Hver veit nema maður skreppi í flutningaleiðangur einn góðan veðurdag í mars. Bestu kveðjur, Gurrý

  6. Svanfríður says:

    Til hamingju með íbúðina og Haukur, með bílskúrinn. Þetta er falleg og björt íbúð og ég hlakka til að fylgjast með ykkur á nýjum stað. Ætli þú hafir nokkuð tíma fyrir bloggið þegar þú ert komin í bæinn? Ég vona það nú samt, Svanfríður.

  7. Dóra says:

    Hæ og innilega til hamingju með þetta allt saman , falleg íbúð. Það er leitt að þið séuð á förum frá Selfossi en vona að ykkur vegni ykkur vel í Kópavognum. kv Dóra frænka

  8. Björk says:

    Til hamingju
    Innilegar hamingjuóskir með nýju íbúðina, þetta gekk alveg ótrúlega fljótt og vel fyrir sig hjá ykkur og mér sýnist að þetta sé mjög fín íbúð. Enda átti maður ekki von á öðru þar sem þið eruð að selja alveg ótrúlega skemtilegt raðhús.
    Það verður skemmtilegt fyrir þig að komast nær henni nöfnu okkar og að geta fylgst betur með henni.
    Og nú verður sko örugglega ekki slakað á í dansinum hjá ykkur. Innilegar hamingjuóskir enn og aftur. Kveðja Björk

  9. Jóna Kristinsdóttir says:

    Til hamingju
    Sæl Ragna mín og innilega til hamingju með kaupin og ákvörðunina að flytja í bæinn. Nú förum við að sjá meira af þér og hlakka til að hitta þig aftur í réttu bæjarfélagi ha ha.

  10. afi says:

    Föst í feninu
    Þetta er frábært og til hamingju með þetta allt saman. Það er ekkert smá mál að standa í svona hlutum. Gott að allt gengur upp.

  11. Helga Þorsteinsdóttir says:

    Innilega til hamingju með nýju íbúðina og hvað þetta hefur allt gengið fljótt og vel eftir að ákvörðun var tekin. Gangi ykkur allt í haginn.
    Bestu kveðjur frá Hvolsvelli
    Helga

  12. Linda Pé says:

    Til hamingju
    Til hamingju með nýju íbúðina og velkomin aftur á höfuðborgarsvæðið.

  13. glæsilegt!
    Innilega til hamingju með nýju íbúðina, spennandi tímar framundan. Kær kveðja.

  14. Magnea Gísladóttir says:

    Velkomin í bæinn
    Sæl Ragna mín.
    Gaman að lesa bloggið þitt. Það má segja að það sé í nógu að snúast hjá ykkur skötuhjúunum. En það er gott að þetta er um garð gengið og þið getið farið að hlakka til að komast hinum megin við Hellisheiðina. Íbúðin er alveg einstaklega falleg og örugglega gott að búa í Kópavoginum og óska ég ykkur til hamingju með þetta. Af því að þú hefur áhyggjur af öllu möguleg langar mig að benda þér á eina litla bók sem ég er alltaf með á náttborðinu mínu sem heitir “ Ég er innra með þér“ og er eftir írskan höfund sem heitir Caddy og fæst í Pennanum. Í bókinni er að finna boðskap fyrir hvern dag, hvernig maður tekst á við daginn og hvernig maður getur breytt því sem maður vill breyta. Mæli með henni. En annars er allt fínt af okkur fjölsk. að frétta. Allir hraustir og glaðir. Ég er svo ánægð í vinnunni minni hjá Spron og hef ég aldrei kynnst öðrum eins vinnustað. Hér er manni sko umbunað fyrir vel unnin störf. Ég er bara búin að vinna hér í 1 ár og gengur mér mjög vel í að afla nýrra viðsk.vina. Fæ alltaf klapp á bakið og hrós þegar við á og svo eru alltaf verkefni í gangi og ef maður nær ákv. árangri er manni veglega umbunað fyrir. Ég er td. búin að fá 2 utanl.ferðir, önnur ferðin var farin til Boston í vor og hin ferðin verður 15-19 febr. til Barcelona svo er ég búin að fá nokkur Kringlukort og gjfabréf út að borða á Argentínu. Það er svo mikil reisn yfir öllu sem er gert hér og mikil virðing borin fyrir starafsfólki og þakklæti. Ég er alveg á réttri hillu. Nú er ég í nýju útibúi í Borgartúni með æðislegu starfsfólki. Egill minn er hjá Íbúðarlánasjóði og svo er hann í Mastersnámi við Kennó. Halldór er búinn að viðurkenna að Egill hafi haft rétt fyrir sér allan tímann en hefur ekki séð sóma sinn í að biðjast hann afsökunar. En mikið er ég fegin að þessi Björn Ingi hefur fengið makleg málagjöld svo og Framsóknarflokkurinn, þetta fólk fær enga samúð frá mér. Anton minn er ofsalega duglegur í skólanum og metnaðargjarn, fær 8.5 – 10 í öllum greinum (veit ekki hvaðan hann hefur þetta). Hann stefnir á Vesló. Hann tók þátt í Nema hvað sem er spurningakeppni grunnskólanna og lent í 4 sæti. Svo er hann alltaf í markinu í fótboltanum hjá Þrótti og finnst það alveg ómissandi. Hann er ekki byrjaður að reykja né drekka en við erum alltaf á tánum og spjöllum mikið um þetta við hann. Alex minner líka mjög líflegur og duglegur strákur, með munninn fyrir neðan nefið og á alltaf síðasta orðið, maður er stundum alveg mát. Hann er á fullu í fótbolta (var að hætta í fimleikum) og svo spilar hann á gítar eins og engill, er að læra á klassískan og svo horfir hann mikið á sjónvarp og stundum í tölvunni. María mín er algjör ljúflingur og þekkir muninn á réttu og röngu og er róleg og yfirveguð. Stendur sig mjög vel í skólanum, er vinsæl og trygg vinkona. Hún æfir fimleika 6 sinnum í viku (hefur átt við svolítil meiðsli í vetur) og er að læra á píanó. Þannig að ég hef ekki yfir neinu að kvarta við orðin sátt við Guð og menn. Jæja Ragna mín ég held þetta sé orðið gott hjá mér í bili. Hafðu það ætíð sem allra best og gangi ykkur vel í flutningunum. Við þurfum að fara að hittast Avon ladies þegar þú ert alkomin i bæinn, ekki spurning það er alveg kominn tími á það. Bestu kveðjur, Magnea

  15. Hrafnhildur says:

    elsku Ragna innilega til hamingju með þessa ákvörðun ég skil þig mjög vel með Hellisheiðina og alla þessa umferð sem er austur fyrir fjall. Gangi ykkur allt í haginn og hafið það gott.
    Kveðja Hrafnhildur

  16. Hrefna Friðriksdóttir says:

    Sæl Ragna mín
    Innilega til hamingju með stóru ákvarðanirnar. Íbúðin lítur rosalega vel út. Hlakka til að hitta „the ladies“.
    Hrefna.

  17. Stefa says:

    Innilega til haminu Haukur og Ragna. Verið velkomin í bæinn aftur 😀 Mikið eru þetta skemmtilegar fréttir. Ég veit ekki betur en það sé mögulega hægt að leggja hönd á plóginn við flutningana.

    Bestu kveðjur,
    Stefa

  18. Sivva says:

    Til hamingju!!!!
    Elsku Ragna mín, mikið er ég rosalega fegin að heyra að þú sért að koma til ,,byggða“ 😉 Þú ert að flytja í flott hverfi, bróðir minn býr þarna í Lómasölu rétt fyrir ofan þig og þau eru ákaflega sæl með staðsetninguna. Innilega til hamingju með þetta hjá ykkur skötuhjúunum. Nú þarftu ekki að láta Hellisheiðarófærðina ráða för þinni og það get ég vel skilið að hafi stundum sett strik í reikninginn. Enn og aftur til hamingju og ég er alveg til í að koma og hjálpa til í flutningnum hérna megin Hellisheiðarinnar – hringdu bara. Er orðin ansi vön bæði af mínum eigin flutningum og svo við að hjálpa vinum og vandamönnum í svona stússi.
    Knús
    Sivva

  19. Magnús og Ragna says:

    Sæl Ragna mín og hjartanlega til hamingju með þessa glæsilegu íbúð sem virðist vera björt með ákaflega fallegu útsýni. Hittumst heil á Tenerife.

  20. Ragna says:

    Mikið er ég glöð yfir þessum góðu viðbrögðum frá ykkur. Það er svo gott að fá samhljóm með því sem maður er að gera.
    Þakka ykkur kærlega fyrir.

  21. Vilborg says:

    Sæl Didda.
    Til hamingju með nýju íbúðina. Mér fannst nú reyndar svo gott að vita af ykkur mömmu í sömu lengjunni – ákveðin öryggistilfinning, en þetta verður kannski til þess að ég kíki oftar til þín, því þegar maður kemur „heim“ þá heimsækir maður engan annan en mömmu og pabba. Hef allavega oft verið skömmuð af vinkonu minni á Selfossi fyrir þetta. En, íbúðin er flott og vonandi á ykkkur eftir að líða vel í henni.
    Kv.Vilborg

  22. Ólöf says:

    velkomin í nágrennið
    ja hérna, þetta eru aldeilis fréttir – en við fyrrum Sóltúnsbúar skiljum vel þennan rússíbana sem þú lýsir. Ekki söknum við Hellisheiðarinnar. Og nú verðum við nágrannar á ný – a.m.k. í sama hverfi – það er örstutt úr Blásölum í Fensali – Verið velkomin í Salahverfið – hlökkum til að sjá ykkur í nágrenninu. Og endilega hóið ef þið þurfið hjálp við að bera eitthvað upp!
    kveðja, Ólöf, Bjössi, Margrét Júlía og Birna Kristín

  23. Sigrún says:

    Innilega til hamingju með þetta allt saman. Hlutirnar gerast ansi hratt á þínum bæ:)
    Kveðja,
    Sigrún í Mosó

  24. Röggsöm 🙂
    Sæl bæði tvö. Það er ekki lognmollunni fyrir að fara á ykkar bæ 🙂 enda gott því lognmolla er leiðinlegt fyrirbæri. Það verður gaman að fá ykkur aftur í bæinn, við hittumst kannski oftar, hver veit. Ég skil rökin ykkar að ýmsu leiti, verð að viðurkenna að hafa öfundað ykkur af veru ykkar þarna eystra. Þið verðið með margfalda orku eftir sólina í suðurlöndum er vorar og áður en þið vitið verða flutningar að baki. Þetta viðist allra glæsilegasta íbúð og ég hlakka til að koma í heimsókn.
    Kveðja Ásta Steingerður.

  25. Erna frænka says:

    Til hamingju
    Vid óskum ykkur hjartanlega til hamingju og vonum ad gódir, dansandi GLADIR dagar séu framundan hjá ykkur. Kærar kvedjur Erna & co.

  26. Viðar Már says:

    Til hamingju.
    Kæra vinkona!

    Ég óska þér innilega til hamingju með fasteignaviðskiptin og vona að þau verði ykkur Hauki til heilla. Þú þarft örugglega ekki að hafa áhyggjur af þeim, sem taka við þinni fasteign á Selfossi. Þeir munu aldrei hafa átt kost á neinu, sem er eins vel um gengið og allt eins og það á að vera. Það má svo bæta því við að Hildur Ýr, dóttir mín, mun flytja í byrjun marz í nágrennið, þ.e. í Fannahvarf.

    Kær kveðja til ykkar beggja,
    Viðar Már.

Skildu eftir svar