Og það snjóar og snjóar, og snjóar, og snjóar og það snjóar, og þ…

Ég veit ekki hvað það rúmast mikill snjór þarna uppi í himinhvolfinu  en hérna niðri er komið meira en nóg.   Það er svo mikill snjórinn í kringum okkur hérna í Sóltúninu að það nálgast það sumstaðar að ná upp að þakbrún. Það er ennþá alveg fullur pallurinn af snjó og nær 2/3 upp á alla glugga, bæði í stofu og eldhúsi. 

Ég átti að koma í bæinn á morgun til þess að gera kaupsamning en ég þorði ekki að lofa að ég kæmist til þess,  því allar leiðir frá Selfossi voru lokaðar í dag. Því var frestað þangað til á mánudaginn og ég ætla rétt að vona að það verði fært á milli þá því ég ætla sko að vera búin að  klára þetta fyrir ferðalagið út. Kaupsamningurinn fyrir Sóltúnið var gerður í gær svo það er allt klárt á þeim endanum.

Svo hefur maður alla fingur í kross og óskar að heilsan verði komin í lag og það verði fært til Keflavíkur á miðvikudaginn. Vonandi gengur þetta nú allt upp því við erum búin að hlakka svo mikið til að komast í betra loftslag.

Það er alltaf eitthvað sem maður vill hafa með sér þegar maður flytur milli staða. Þegar ég kom hingað þá sá ég svo eftir sjúkraþjálfaranum mínum í bænum. Þegar ég flyt aftur í bæinn þá á ég eftir að sjá mikið eftir heimilislæninum mínum hérna því betra aðgengi að lækni hef ég aldrei haft og  hef þó verið nokkuð góðu vön.  Það þarf ekki annað en að senda honum E-mail þá svarar hann yfirleitt innan 15 mínútna eða hringir.  Hann reddaði mér þannig í snatri morgun sterku fúkkalyfi, en það eru bara 3 töflur sem á að taka og svo taka sterarnir við í 5 daga og lengur ef þörf verður á. Ég ætti því að vera búin að ná þessu úr mér  á svona vikutíma.  Ég vona bara að ég verði ekki handtekin þó ég hafi nokkrar steratöflur með mér til sólarlandsins. Þið lofið að segja engum.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Og það snjóar og snjóar, og snjóar, og snjóar og það snjóar, og þ…

  1. Kanarí!
    Vonandi batnar þér pestin mín kæra, og mikið samgleðst ég ykkur að komast í hitann. Kær kveðja.

  2. Ragna says:

    Ekki er það nú Kanarí þó það sé að sumu leyti rétt heldur förum við til blómaeyjunnar Tenerife. Ég á samt erfitt með að ímynda mér að ég leggi af stað þangað eftir rúma fjóra daga því ég er að kafna í kvefi og ekki alveg að sjá ferðalagið fyrir mér. Reyni þó að vera bjartsýn milli hóstakastanna og snýtinganna.

  3. Kolla Valtýs says:

    Heillaóskir –
    Didda min kæra,
    Ég lagði nú hamingjuóskir í belginn 4. febrúar þegar a.m.k. 25 manns voru komnir á listann. En þegar ég fór að leita að belgorðum mínum seinna fann ég þau hvergi. Kannske var ekki pláss fyrir mig. Alla vega, ég „skoðaði“ íbúðina þína í bak og fyrir og finnst hún alveg ljómandi.
    Vona að þeir skafi heiðina fyrir þig svo þú komist til Tenerife. Slappaðu þar af og skemmtu þér vel. Vona að ég setji þetta á réttan stað í þetta skiptið!

    Kær kveðja Kolla

  4. Svanfríður says:

    Segir ekki einhversstaðar að gott sé að láta einhvern kyssa úr sér kvefið? Ekki held ég að Hauki þyki það neitt sérlega leiðinlegt.
    Ég virkilega,lygalaust, fæ vatn í munninn að lesa um rababarasultuna þína. Hana vantar þegar ég er með falskan héra eða kjötbollur.
    Gangi þér vel og vonandi losnar þú við kvefið áður en Tenerife heilsar.
    Góðar kveðjur,Svanfríður.

  5. Ragna says:

    Ég get sannfært þig um eitt Svanfríður mín. Hann Haukur myndi líklega ekki vinna sér það til lífs að eiga að kyssa úr mér kvefið að þessu sinni. það er nefnilega ekki bara hóstinn heldur er hausinn á mér fullur af ógeði líka. Það er sama hvað ég snýti mér mikið og oft, framleiðslan minnkar ekkert. Þetta er eins og með snjóinn sem kemur látlaust úr himinhvolfinu.

  6. Illa að mér..
    Kanarí, Tenerife! Ok, er á sömu slóðum!

  7. afi says:

    Allt að ganga upp.
    Þetta reddast allt saman. Spáin er góð og og lyfin gera eflaust sitt gagn. Sólin bjargar því sem eftir verður. Góða ferð og hafið það gott á sólarströndum.

Skildu eftir svar