Halló, halló þá er ég nú komin aftur sólbrún og sæt –

aðallega þó sólbrún því hitt hefur nú lítið lagast. En það er ekki hægt annað en vera sæl og glöð með ferð í slíka Paradís sem Tenerife er. Reyndar var ég svo lasin þegar við fórum og var í viku að jafna mig úti og síðan var Haukur svo slappur fyrstu dagana, að við vorum alvarlega að spá í að komast heim eftir viku í staðinn fyrir að verða í þrjár. Sem betur fer þraukuðum við þessa fyrstu viku og nutum síðan til fullnustu seinni tveggja viknanna. Mikið vildi ég að allir íslendingar ættu þess kost að komast þarna út í smá vetrarfrí til þess að lífga upp á sál og líkama.

Nú erum við sem sagt komin heim og mikið annríki bíður okkar því  núna eftir helgina þá fáum við afhenta íbúðina í Kópavoginum  og þá er ekkert annað en að skella sér í flutningsgírinn.  Ég á eftir að finna út hvernig við getum best staðið að þessu, hvort við ættum að taka gám eða fá sendibíl. Ég var að reyna að  finna út úr þessu í dag en þegar ég reyndi að ná í sendibílstjórann sem við höfum stundum notfært okkur hérna á Selfossi þá var hann bara með símsvara á og ég er logandi hrædd um að hann hafi farið í burtu í frí því venjulega hringir hann fljótlega þegar maður skilur eftir skilaboð en nú hefur ekkert heyrst frá honum.  Ég var nefnilega að átta mig á því að páskarnir eru alveg að koma svo á þessum tíma fara svo margir í burtu.  Ég finn vonandi lausn á þessu eftir helgina svo við þurfum ekki að draga búslóðina á sleða suður í  Kópavoginn.

 Nú er bara að halda áfram að pakka niður og gera klárt.  Það síðasta sem ég geri verður þó að taka tölvuna úr sambandi. Ekki veit ég þó hversu mikið ég kem til með að pára í bloggið mitt  en ef ég hef mögulega tíma þá langar mig til þess að kíkja í heimsókn til ykkar bloggvinir og skilja kannski eftir kveðju við og við.
Það var svo leiðinlegt að nota tölvurnar þarna á hótelinu á Tenerife.  Það var ekki hægt að hafa stóran staf þegar maður vildi, hvort sem það var eftir punkt eða annað. Tölvan hafði sjálfstæðan vilja og gerði suma stafi stóra og fyrir aðra var bara skilin eftir eyða sem maður varð að skipta út fyrir lítinn staf. Ég hef aldrei kynnst slíku, kannski eitthvað Spænskt fyrirbæri.

Nú er best að koma sér í rúmið því á morgun þarf að taka til hendinni og á sunnudaginn förum við í eins árs afmælið hennar elsku litlu nöfnu minnar sem með réttu á afmæli á mánudaginn, daginn sem við fáum íbúðina afhenta. Skemmtileg tilviljun.

Góða nótt og dreymi ykkur vel og njótið helgarinnar með hækkandi sól.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Halló, halló þá er ég nú komin aftur sólbrún og sæt –

  1. þórunn says:

    Velkomin heim
    Velkomin heim, elsku Ragna og Haukur. Mikið er gott að heyra hvað þið komið hress og falleg að sunnan. Frábært að geta safnað orku fyrir flutningana. Það gengur örugglega allt vel hjá ykkur og þið verðið komin á nýja heimilið ykkar áður en þið vitið af. Bestu kveðjur frá okkur Palla,
    Þórunn

  2. Svanfríður says:

    Velkomin heim og í netheima. Mikið hef ég saknað þín en yndislegt að heyra að þið hafið notið ykkar á Tenerife, þannig á það líka að vera.
    Gangi ykkur vel í flutningunum, ég er viss um að allt á eftir að ganga hratt og vel fyrir sig. Það er ekkert annað í boði þegar valkyrja sem þú ert, tekur til hendinni.
    Góðar kveðjur, Svanfríður

  3. gott…
    að vera búin að fá þig heim, hressa, brúna og sæta. Til hamingju með flutningana og gangi ykkur vel. Kveðja í kotið.

Skildu eftir svar