Smá kveðja úr stressheimum.

Það er lítið sem ég hef tíma til að kíkja til ykkar kæru bloggvinir. Við vorum í allan dag að undirbúa málningu, líma límbönd á alla kanta, taka nagla úr veggjum og sparsla. Haukur málaði loftin í gær og á morgun getum við vonandi sett fyrstu málningarumferðina á svefnherbergið og stofuna svo verður bara að koma í ljós hvað við komumst með þetta áfram því á fostudag verðum við hér á Selfossi að aftengja vélar og þ.h. og gera stóru hlutina klára til að fara með sendibílnum sem kemur hér klukkan 10 á laugardagsmorgun að taka alla stóru hlutina. Við ætlum svo að klára í rólegheitunum að taka úr skápum og fara með rest og gera hreint í dymbilvikunni og fram til 1. apríl þegar við skilum af okkur.  Við erum búin að fara með bókakassa og fleira í hverri ferð sem við höfum farið í bæinn svo að þeir sem hjálpa okkur þurfi ekki að fara ótal ferðir með kassadót – við sjáum um það sjálf. 

Við erum bara tvö í málningarstússinu, því þrátt fyrir góðan vilja þeirra sem standa okkur næst hittist bara þannig á að fólk er ekki á lausu að deginum, en við viljum mála í dagsbirtunni. En við  eigum von á liðsauka við sjálfan flutninginn á laugardag og skipuleggjum það þannig að eitt lið sér um að hlaða bílinn hér og annað lið bíður ferskt í Kópavoginum til þess að taka á móti og bera hlutina upp í íbúðina þar.

En  eitt get ég sagt ykkur. Þetta er mjög spennandi og ég hlakka mikið til þegar við getum farið að koma okkur fyrir á nýja staðnum. Útsýnið er svo stórkostlegt að maður gæti bara staðið við gluggann og gleymt sér. Veðurguðirnir hafa líka verið okkur svo einstaklega hliðhollir þessa daga og verða vonandi fram yfir helgi. Það eru svo mikil rólegheit í húsinu að við höldum að við séu þar ein því við höfum ekkert lífsmark heyrt eða séð fyrir utan það að Haukur rakst á einn íbúa neðri hæðarinnar sem var að koma heim í kvöld.

Jæja það þýðir ekki að hanga í tölvunni , betra að reyna að hvíla sig því við ætlum snemma af stað í fyrramálið.

Ja hérna, hvað eru svona gamlingjar eiginlega að hugsa 🙂

Bið að heilsa ykkur öllum þangað til næst og þakka ykkur fyrir kommentin.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Smá kveðja úr stressheimum.

  1. gaman
    Þetta er allt svo vel skipulagt, þannig ganga hlutirnir vel. Hlakka til að heyra meira. Kveðja í bæinn

  2. þórunn says:

    Flutningar
    Takk fyrir að segja frá hvað þið eruð að gera, það er svo gaman að vera með ykkur í huganum. Þetta er virkilega spennandi og gott að þið kunnið strax vel við ykkur þarna. Gangi ykkur vel á laugardaginn, þetta verður allt komið á sinn stað áður en við er litið. Það er gott að eiga góða að.
    Kveðja úr kotinu, Þórunn og Palli

  3. Hulla says:

    Það þýðir víst lítið að væla yfir að geta ekki hjálpað til 🙁
    Gangi ykkur bara voðalega vel og ég hringi í kvöld eða á morgunn, vona að sé ekki búið að aftengja símann 🙂

  4. Linda says:

    Mikið hlakka ég til að sjá myndir af breytingunum.. sjá fyrir og eftir myndir..

    Gangi ykkur rosalega vel með framhaldið..

    Bestu kveðjur í bæði kotin ykkar,
    Linda

Skildu eftir svar