Fallegur dagurinn í gær – Tilviljanirnar..

Já það var fallegur dagurinn sem hún tengdamamma blessuð fékk til þess að kveðja endanlega þennan heim. Veðrið var fallegt þó það væri svalt, athöfnin í Háteigskirkju var falleg og söngurinn.  Eftir athöfnina  voru veitingar í safnaðarheimilinu og það var, eins og alltaf,  gaman að heilsa upp á marga góða vini sem höfðu komið til að kveðja.

Nánustu aðstandendur óku síðan í líkfylgd austur að Keldum á Rangárvöllum þar sem hún hvílir nú við hlið foreldra sinna og annarra ættmenna.  Þegar við ókum austur þá var alveg heiðskírt svo sólin lýsti snæviþakin austurfjöllin og Heklan skartaði sínum hvíta kufli frá toppi til táar  svo og Þríhyrningur og Eyjafjöllin. Á túni Landgræðslunnar, nokkru áður en við komum að Gunnarsholti , voru hvítar áftir í hópum. Ég hef aldrei séð svo margar hvítar álftir sitja saman á túni.

Í sambandi við tilviljanir.  þá var ég að hugsa um það, þar sem ég sat í kirkjunni, hvað það væri sérstakt að Háteigskirkja varð  fyrir valinu fyrir kveðjuathöfnina, en upphaflega átti að velja Áskirkju sem var upptekin þennan dag.  Ég mundi nefnilega svo ljóslifandi eftir því þegar hún Guðbjörg mín var skírð,  einmitt í Háteigskirkju og amma hennar og alnafna hélt henni undir skírn.
Það er nú ekki það eina sem er sérstakt við fráfall hennar tengdamömmu. Hún lést á afmælisdegi Guðbjargar minnar þann 20. mars þrátt fyrir það að búist hafi verið við láti hennar daglega í nokkra daga.  Síðan var kistulagningin fyrir tilviljun á afmælisdegi Ragnars Fannbergs sonar Guðbjargar minnar og útförin í gær fór fram á  85 ára afmælisdegi Ingu systur tengdamömmu.

Svo var Ingunn mágkona mín hérna í tvær vikur og á bókað far aftur til Bandaríkjanna þann 1. apríl. Hún var búin að ákveða þessa heimsókn nokkuð löngu áður en tengdamamma fór endanlega á sjúkrahús. Hún hafði mikið hugsað um að flýta þá ferðinni en John, hennar maður,  taldi að hún ætti að halda sig við upphaflega ferðaáætlun.  Ingunn kom svo til landsins daginn eftir að tengdamamma var flutt á Líknardeildina á Landakoti og þar náði hún að sitja hjá henni og vera með henni síðustu vikuna og að fylgja henni síðan alla leið í gær.

———————–

Ég hef nú alltaf trúað því að öllu okkar lífi sé að mestu stjórnað, þó vissulega getum við mannanna börn haft ýmis áhrif bæði til góðs og ills með hegðun okkar og gerðum.  Þetta er bara nokkuð sem ég hef svo oft fundið.  Þessi tilfinning hefur líka hjálpað mér á erfiðum stundum. Þegar ég get ekki haft áhrif á atburðarrás sjálf og stend ráðþrota, Þá hefur mér fundist gott að hugsa sem svo, að þetta sé eitthvað sem mér sé ætlað að komast í gegnum og  nú geri ég mitt besta. Stundum sér maður ekki strax tilganginn í ýmsu sem fyrir kemur, en ég held einhvernveginn að allt hafi tilgang og stundum skilur maður samhengið löngu síðar.

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa trú á tilganginn í lífinu og á tilviljanirnar svokölluðu og vona að ég glati því aldrei.

Þetta voru nú bara vangaveltur sem komu upp í hugann á þessum tímamótum. Í dag skín sólin og það er svo fallegt að horfa út um gluggana.

Góða helgi kæru vinir,

Njótum lífsins og tilverunnar
og gerum það besta úr því sem við höfum stjórn á.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Fallegur dagurinn í gær – Tilviljanirnar..

  1. Unnsteinn says:

    tilviljun
    Það var líka alveg magnað, að hann Atli minn var eitthvað að keyra um á laugardegi, eða sunnudegi eftir að amma var jarðsett. Stillti hann á Bygljuna af bara engum sérstökum ástæðum, og setti á Simma og Jóa. (Þess má geta að Atli hlustar mjög sjaldan á Bylgjuna) Nema hvað þeir Simmi og Jói hringdu í mömmu Simma, spjölluðu við hana og svo þegar hún var að enda samtalið segir hún að hún vilji enda samtalið á fallegu ljóði sem hún las í minningargrein á föstdaginn. Það var einmitt ljóðið við lagið sem var sungið í tvísöngnum í jarðarförinni. Þetta er náttúrulega alveg ótrúleg tilviljun. Greinilegt að sumir séu að minna á sig?

  2. Ragna says:

    Já Unnsterinn minn, hún hefur verið að minna á sig á ýmsan hátt undanfarið.

Skildu eftir svar