Á næstu grösum.

Nú erum við smám saman að kynnast betur umhverfinu hér og líkar vel. Haukur byrjaði fyrir nokkrum dögum í líkamsrækt í Nautulus sem er á efri hæði  í sundlauginni hérna  í Versölum. Í morgun fór ég svo í minn fyrsta tíma. Ég átti pantaða leiðsögn og mætti því á tilsettum tíma. Það var hins vegar eingöngu á þrjóskunni sem ég mætti í dag, því ég hef nefnilega verið að drepast neðst í bakinu og niður í löpp.  Ég var að hugsa um að snúa við á leiðinni en ákvað að haltra á staðinn og sjá hvort ég gæti ekki lært á einhver af tækjunum.

Ungi maðurinn sem tók á móti mér var svo einstaklega elskulegur og fór um mig silkihönskum þennan fyrsta tíma.  Hann lét mig sleppa göngubrettinu  en kenndi mér á nokkur tæki og það var alveg furða hvað þetta gekk vel. 
Sá lúxus fylgir því að eiga kort í líkamsrækt hér (60+ greiða aðeins tæp 22 þús á ári), að það er innifalið að fara í sundlaugina sem er með heitum pottum, öllum tegundum af vatnsnuddi, gufubað já, öllu því sem sundlaug getur boðið uppá.  Við erum ákveðin í því að nota okkur þetta til hins ítrasta og ég vona að ég verði orðin það góð á mánudaginn að ég geti líka hitað upp á göngubrettinu.   Svo spillir ekki að þetta er nánast í bakgarðinum hjá okkur og tekur innan við 5 mínútur að ganga á staðinn.  Svo finnst Hauki ekki lakara að hann er búinn að hitta þarna flesta sem voru með honum á vaktinni hjá Alcan.

Það næsta sem mig langar til að kynnast er strætókerfið hérna. Ekki það að við höfum tvo bíla hérna fyrir utan og Haukur hefur lítið gefið út á það að fara að rúnta í strætó . Ég er bara svo ferlega forvitin að vita hvaða leið og hvert strætisvagninn fer, sem stoppar hérna við innaksturinn í litlu lokuðu götuna okkar.  Ég er alveg ákveðin í því að fara í einn rúnt með strætónum einhvern daginn og svala þannig forvitni minni.

Ég hef nú þegar skráð mig á heilsugæsluna og fékk bækling um þá þjónustu sem er í boði fyrir utan læknishjálp. Þar má nefna Næringarráðgjöf, Heilsueflingu kvenna, sem er fyrir konur á aldrinum 40 – 69 ára,  þar sem leitað er eftir einkennum og áhættuþáttum ýmissa sjúkdóma sem mikilvægt er að greina snemma. Síðan er allt mögulegt í boði fyrir konur sem ganga með börn, en Guð forði mér frá því að þurfa á slíkri þjónustu að halda. Svo er ýmislegt fleira í boði.  Allt það sem ég hef nefnt í dag er í 5 – 7 mínútna göngufæri frá okkur.

Ég held ég trúi því bara alveg þegar hann Gunnar Birgisson segir sinni dimmu röddu, 

"Það er gott að búa í Kópavogi"

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Á næstu grösum.

  1. Jói says:

    Leið 2
    Mér sýnist að það sé leið 2 sem stoppar þarna hjá þér, með henni kemstu í Smáralind, Kringluna, Skeifuna, Orkuhúsið, Hátún og Hlemm.

    Sjá leið 2 (pdf skjal) hjá Straeto.is.

  2. þórunn says:

    Kópavogur
    Það er engin spurning, það er gott að búa í Kópavogi og ykkar hverfi virðist vera alveg einstaklega gott. Mikið eigið þið gott að hafa þessa fínu sundlaug og líkamsrækt svona nálægt, ef það er eitthvað sem ég sakna frá Íslandi þá eru það heitu sundlaugarnar.
    Bestu kveðjur
    Þórunn

  3. Hljómar vel
    Eiginlega algjör lúxus. Þetta með strætóferðina er flott. Maður verður að kunna á kerfið. Líði ykkur vel.

Skildu eftir svar