Hugleiðingar eldsnemma að morgni.

Á morgnanna þegar ég vakna allt of snemma, þá er gott að lúra með MP3 spilarann sinn og hlusta á útvarpið. Hlusta ég þá yfirleitt fyrst á endurtekið efni á Útvarpi Sögu og síðan eftir klukkan sjö á lestur úr leiðurum blaðanna á RUV. Oft kemur það þá auðvitað fyrir að ég dotta á milli sem er svo sem hið besta mál, nema hvað þá missi ég stundum af því úr hvaða blöðum er verið að lesa. Það gerðist nú einmitt í morgun þegar talað var um að fólk ætti að passa sig á innheimtufyrirtækjum sem mökuðu krókinn og högnuðust á eymd þeirra sem í góðri trú nýttu sér góðærið en hafa síðan ekki getað borgað skuldir sínar.  Orðalagið var kannski ekki nákvæmlega þetta en innihaldið vissulega. 

Ég er auðvitað sammála því að enginn eigi að hagnast á eymd annarra. Hinsvegar finnst mér mikið vanta uppá að fólki sé gert skylt að taka ábyrgð á sjálfu sér og sínum gerðum og hætta að lifa um efni fram.  Maður verður einfaldlega að sætta sig við það að geta ekki eignast þá hluti sem maður hefur ekki efni á. Það er ekki hægt að kenna neinum um nema manni sjálfum ef maður tekur stór neyslulán bara af því að þau eru í boði og mann langar svo rosalega í eitthvað sem maður hefur engan veginn efni á, en þetta hljóti að reddast þegar að skuldadögunum kemur.  Svo kemur að skuldadögunum og þeir sem upphaflega áttu peningana vilja nú fá sitt til baka eins og umsamið var.  Æ,  þá er bara minna en enginn peningur til. Það var nefnilega einhvern veginn aldrei neitt umfram til þess að leggja til hliðar til að borga lánið með og svo hafði líka bættst við svo hár VISA reikningur eftir grand utanlandsferðina og sérsmíðuðu innréttingarnar í nýja stóra einbýlishúsið urðu margfalt dýrari þegar upp var staðið en upphaflega var ráðgert – en þær eru samt rosalega flottar.

Hvað gerist nú. Jú,  þeir sem ekki fá útistandandi skuld sína greidda eftir að hafa ítrekað sent úr rukkunarbréf leita nú á náðir innheimtufyrirtækja sem eru þá orðin vondi kallinn af því þau taka gjald fyrir innheimtuþjónustuna. Þau eru þó aðeins millistig upp í það að senda kröfur í lögfræðilega innheimtu sem fylgir mun meiri kostnaður.  Ég kynntist þeirri hlið mála þegar ég vann á lögmannsskrifstofum í mörg ár.

Nú vil ég ekki setja alla skuldara undir einn hatt. Það eru nefnilega ekki allir sem inn á borð innheimtufyrirtækjanna koma, þangað komnir fyrir flottræfilshátt og margir þar sem eru hjálpar þurfi. En þeir eru bara svo skelfilega margir sem vísvitandi lifa langt um efni fram og geta ekki neitað sér um neitt þó enginn peningur sé til og kvarta síðan yfir því þegar kemur að skuldadögunum. Þá eru allir svo vondir að vera að ganga eftir greiðslum.

Í minni barnæsku var mér kennt að sætta mig við að geta ekki eignast það sem ekki var til peningur fyrir og það var sko oft sem ekki var til peningur. Sumir gætu það sem aðrir gátu ekki. Þannig sætti maður sig við að t.d. enginn bíll var til á heimilinu og fötin mín voru heimasaumuð þó skólavinkonan, sem átti efnaða foreldra væri í fötum sem keypt voru í útlöndum.  Það vantaði hinsvegar aldrei upp á ást og umhyggju enda kostaði hún ekki peninga og aldrei hef ég liðið fyrir þetta viðhorf. Svo var ég svo heppin á unga aldri að eignast lífsförunaut sem ólst upp við sömu aðstæður og hafði sömu viðhorf. Við vissum hvað við gátum og gátum ekki og fórum eftir því.

Ég ætlaði nú ekki út í neitt persónulegt,  en það skýrir kannski viðhorf mitt til þessara mála og dómhörku mína,  að mér var kennt að kaupa ekki það sem ég ætti ekki fyrir nema ég vissi upp á hár að ég gæti greitt af afborgunum ef um þær væri að ræða. Ég yrði sjálf að vera ábyrg fyrir mínum fjárfestingum.  Þessu hef ég alltaf fylgt og þvi aldrei lent í vanskilum á ævinni.

Nú bíð ég bara eftir skömmum fyrir að vera ekki skilningsríkari en ég er í þessum málum. 

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Hugleiðingar eldsnemma að morgni.

  1. Jói says:

    Verðtrygging
    Það er nú ekki komið að skuldadögum í Betrabóli enda vel farið með peninga hér. Hins vegar vil ég minna á að skuldir eru verðtryggðar en launin ekki, ólíkt því sem núverandi ráðamenn kynntust en þeirra skuldir brunnu uppi í verðbólgu og því sáralítið sem þeir þurftu að borga sjálfir af sínum lánum. Þess í stað erum við föst með lán sem aldrei klárast.

  2. Ragna says:

    Þekki verðtrygginguna
    Lánin okkar voru líka verðtryggð en launin ekki og það var gott þegar það var allt uppgreitt. Reyndar voru lánin þá yfirleitt til 25 ára en ekki 40 ára eins og nú.
    Ég hef hvorki áhyggjur af dætrum eða tengdasonum því ég veit að þar er allt í góðu standi.
    Gott uppeldi skilar sér nefnilega, ha,ha.

  3. þórunn says:

    Timburmenn
    Þetta ástand vil ég kalla timburmenn eftir að hafa lifað um efni fram. Ekki það að ég finni ekki til með unga fólkinu sem í dag er fast í því slæma ástandi að þurfa að taka verðtryggð lán en fá enga verðtryggingu á launin sín, það er virkilega erfitt ástand. En að hlusta á fólk skella allri ábyrgð á bankana fyrir að lána svona mikið, hvað voru menn að hugsa þegar þeir tóku lán fyrir stóru jeppunum eða utanlandsferðunum? Ég sé Ragna mín að við ólumst upp við svipaðar aðstæður og ég er þakklát fyrir það að hafa lært nægjusemi og að eiga helst fyrir hlutunum sem ég hef keypt.
    Vonandi lagast þínir „timburmenn“ fljótt eftir flutningana, nú er bara að njóta lífsins og láta sér líða vel.
    Kveðja úr kotinu í suðri
    Þórunn

Skildu eftir svar