Fyrir 100 árum.

Já það eru 100 ár í dag síðan hann pabbi minn Jón Pálsson fæddist í Reykjavík.  Daginn mun hafa borið upp á Sumardaginn fyrsta og upp frá því var Sumardagurinn fyrsti sá dagur sem haldið var upp á afmælið hans. 

Áður en lengra er haldið þá er hér mynd af Jóni Pálssyni.

jnplsson3.jpg

Hann pabbi var um margt merkilegur maður sem vann brautryðjendastarf í æskulýðsmálum hér á landi. Það áttu margir eftir að kannast við nafnið hans m.a. fyrir Tómstundaþátt barna og unglinga í ríkisútvarpinu, en hann sá um þann þátt í 15 ár.  Í  þættinum aðstoðaði  hann margt ungmennið, bæði í Reykjavík og úti á landi, sem langaði til þess að vita hvernig búa mætti til góðar gjafir handa vinum og vandamönnum.  Á þessum tíma þurfti að vera hugmyndaríkur og finna efnið sem átti að nota í nánasta umhverfi hvers og eins, því samgöngur við verslanir voru ekki eins aðgengilegar og í dag og ekki var hlaupið í föndurbúðirnar enda þær ekki til á þeim tíma. Það má því segja að það hafi verið svona naglasúpuaðferð sem kennd var, "nota það sem hendi er næst og fást ekki um það sem ekki fæst". Hann átti það þó oft til að  fara sjálfur á stúfana og kaupa efni eða verkfæri og senda ungu hlustendum þáttarins sem bjuggu úti á landi og bráðvantaði eitthvað ákveðið til þess að geta útbúið afmælis eða jólagjafir handa mömmu eða pabba.

Tvo hluti hef ég í fórum mínum frá þessum tíma. Fyrri hluturinn sem ég birti mynd af er sýnishorn af litlu skríni úr kúskeljum sem pabbi útbjó sjálfur. Hann útbjó gjarnan sjálfur sýnishorn til þess að sjá hvernig best væri að lýsa handbragðinu í útvarpi svo hlustandinn skildi vel hvernig fara ætti að. 

tomstund1.jpg

Hinn hlutinn fékk hann sendan sem gjöf frá þakklátum hlustanda. Þetta er búið til úr eldspýtustokkum og það er fallega bródedrað í efnið sem þetta er klætt með. Ég vona að myndirnar komi vel út.

tomstund2.jpg

Í beinu framhaldi af Tómstundaþætti barna og unglinga var hann einn af stofnendum Æskulýðsráðs Reykjavíkur og kom á fót alls konar klúbbastarfsemi þar sem unglingar gátu komið og tekið þátt í ýmiss konar tómstundaiðju og fundið sér áhugamál. Honum var það mikið í mun að unglingar fengju einhver uppbyggjandi verkefni til þess að fást við svo þau vendust ekki á það eitt að hanga í sjoppum utan skólatíma eða slæpast í reiðileysi.

Æskulýðsráð kom á fót Frímerkjaklúbb, Vélhjólaklúbbnum Eldingu, þar sem strákar gátu komið með  skellinöðrurnar sínar. Þeir fengu þar smá viðgerðaraðstöðu með leiðbeinanda auk þess að hafa aðstöðu til þess að spjalla saman og ræða um fararskjótana sína.  Þetta var mjög vinsæll klúbbur. Svo var Ljósmyndakúbburinn vinsæll, þar sem hægt var að framkalla myndir og stækka. Allt var þetta undir handleiðslu leiðbeinenda. Svo var allt föndrið, lampagerð, leðurvinna, bein og horn og svo margt, margt fleira. Seinna var síðan gert út skólaskip og sjálfsagt hefur einhver skipstjórinn í dag farið þar í sinn fyrsta róður.  Sjálf var ég unglingur á þessum tíma og naut góðs af þessu starfi á svo margan hátt.

Mér þótti svo óendanlega vænt um hann pabba minn, allt frá því
  ég kom í þennan heim og þar til hann dó, eftir löng og erfið veikindi
 árið 1979, aðeins mánuði eftir að hún Sigurrós  fæddist,  

 Ég var alveg rosalega mikil pabbastelpa og vildi helst
vera með honum í öllu  sem hann gerði. Á unglingsárunum þótti
mér hann þó stundum vera full strangur, en það skildi ég svo vel
seinna þegar ég varð sjálf uppalandi.

Hann kenndi mér að bjarga mér með allt það nauðsynlegasta
sem þarf að gera á hverju heimili, eins og að veggfóðra, mála,
tengja rafmagn, nota borvél, negla upp myndir og fleira gagnlegt.

Pabbi vildi aldrei gera mikið úr afmælinu sínu og gjafir vildi hann alls ekki fá, en það var samt alltaf afmæliskaffi og með því á Sumardaginn fyrsta á Kambsvegi 17 og pönnukökur mátti ekki vanta þann dag.
Í dag hugsa ég til hans pabba míns með hlýhug og þakklæti og á morgun Sumardaginn fyrsta verða að sjálfsögðu pönnukökur og kaffi í Fensölunum í tilefni dagsins.

——————————-

Gleðilegt sumar
Kærar þakkir fyrir veturinn.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Fyrir 100 árum.

  1. Hulla says:

    😀
    Innilegar hamingjuóskir með sumarið og hann pabba þinn 🙂
    Pabbar eru gull.
    Vona að þið eigið yndislegan dag og gott veður.
    Ástarkveðjur héðan úr sveitinni.

  2. þórunn says:

    Ótal minningar
    Það er rétt hjá þér Ragna mín að pabbi þinn var eftirminnilegur maður, sem barn og unglingur ég var límd við útvarpstækið þegar Tómstundaþátturinn var á dagskrá. Og yngsti bróðir minn byrjaði sinn ljósmyndaferil í Tómstundaklúbbnum og er mikill áhugamaður um ljósmyndun og hefur alla tíð starfað á því sviði. Heimurinn væri betri ef við hefðum fleiri menn eins og hann pabba þinn. Blessuð sé minning hanns.
    Gleðilegt sumar.
    Þórunn

  3. þórunn says:

    Ég ætlaði líka að segja að ég man ennþá ljúfu röddina hanns pabba þíns og svo finnst mér þetta mjög fallegir hlutir sem þú sýnir á myndunum og alveg dæmigerðir fyrir það sem hann var að kenna.
    Gleðilegt sumar Ragna mín og Haukur,
    Þórunn

  4. afi says:

    Man þá tíma.
    Já afi man vel eftir útvarpsþáttum föður þíns. Oft var reynt að gera ýmsa hluti sem nefndir voru í þessum þáttum. Man t.d. eftir fótaþurrkum úr gosflöskutöppum. Gleðilegt sumar. Töfratrén seldust upp á skömmum tíma í Garðheimum þetta vorið. Enda fallegir runnar.

Skildu eftir svar