Piparkökur og skreyttur bær.

Við mæðgurnar skelltum okkur í piparkökubaksturinn um síðustu helgi. Sigurrós kom austur á laugardaginn og gisti eina nótt. Við ákváðum bara að vera ekkert að bíða með þetta. Það er svo erfitt að finna helgar sem öllum henta. Við vildum líka að krakkarnir yrðu með en þau eru alltaf aðra hvora helgi hjá pabba sínum. Katrín hans Kjartans var með okkur líka. Þetta var voða skemmtilegt hjá okkur og við bökuðum helling af piparkökum. Krakkarnir voru voða dugleg. Ég verð nú samt að játa að restin af deiginu sem Oddur var með var orðið frekar ókræsilegt í lokin eftir að detta nokkrum sinnum í gólfið og vera notað fyrir bolta og hann var líka búinn að finna út að það væri hægt að nota þetta eins og leir. Sem betur fer hvarf þessi kúla áður en slys hlaust af. Ég held að þær kökur sem við erum með eigi að teljast sæmilega ómengaðar.  Nú er bara tilhlökkun að hittast aftur einhverntímann fyrir jólin og baka laufabrauðið. það verður að vera komið nær jólum fyrir það því nú hefur maður enga góða kalda geymslu til þess að geyma það í svo best er að vera ekki að geyma það of lengi. 


Annað kvöld verður frænkukvöld hérna í Sóltúninu. Selma sér um það að þessu sinni en það verður hjá Eddu svona til þess að við vekjum engin börn. Já, það heyrist nú í okkur frænkunum þegar við hittumst. Það er mikið talað og mikið hlegið. Þetta eru sem sagt við Edda og dætur okkar og Rut hennar Dússýjar heitinnar og hennar dætur og dóttir Þórs. Svo bætast ömmustelpurnar hver af annari við eftir því sem þær hafa aldur til. Það er alltaf svo gaman þegar við hittumst. Við reynum að hafa þetta tvisvar á ári fast. Föndrum alltaf eitthvað fyrir jólin og hittumst svo kringum páska og föndrum þá líka svona ef við erum í þannig stuði.


Veðrið er nú búið að vera alveg himneskt og mislitu jólaskreytingarnar sem Árborg hefur komið upp njóta sín vel með hvítan snjóinn sem bakgrunn. Já það er að verða ótrúlega jólalegt og ekki komin aðventa ennþá. Ég er víst búin að fara eitthvað í þá sálma áður og ætla ekkert að fara að æsa mig aftur út af því hvað jólin eru að færast framar og framar í dagatalinu. Samkvæmt framanrituðu hef ég nefnilega hvílíkt smitast af þessu og þegar blessaður snjórinn var kominn þá bara komst maður í jólaskapið -Þrátt fyrir að ekki væri komin aðventa 🙂 – nú bara bíð ég eftir að geta farið að setja upp jólaljósin.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar