Rögnur

Ég var að velta því fyrir mér hvað ég hitti orðið oft nöfnur mínar.  Árum saman þá varla hitti ég aðra Rögnu og þegar ég sagði til nafns var ég oft spurð " Já en hvað heitirðu? heitir þú Ragnheiður eða Ragnhildur?  Ragna var einfaldlega talið gælunafn.

Nú er ég alltaf að rekast á Rögnur. Það er Ragna, mamma hans Magnúsar Más tengdasonar míns. Svo býr Ragna hérna í íbúðinni á móti mér. Þjónustufullltrúinn í bankanum heitir Ragna, meira að segja Ragna Kristín. Svo varð enn ein Ragnan á vegi mínum í vikunni.  Svo eru það auðvitað barnabörnin Ragnar og Ragna.

Ég man alltaf þegar ég byrjaði í barnaskóla og við áttum að segja til nafns í fyrsta tíma svo kennarinn gæti lært nöfnin okkar.  Þegar röðin kom að mér svaraði ég  að ég héti Ragna Kristín en það ætti að kalla mig Diddu. Það sagði kennarinn að kæmi ekki til greina því enginn yrði kallaður gælunöfnum.  Ég þurfti því í fyrsta skipti á ævinni að læra að kannast við nafnið Ragna, en fram að því hafði ég aldrei verið kölluð annað en Didda, en það var stytting úr Kristínar-nafninu mínu.

Það tók mig nokkurn tíma að heita allt í einu öðru nafni. En það var bót í máli að þegar ég kom heim úr skólanum þá varð ég aftur bara Didda.  Þegar ég fór síðan út á vinnumarkaðinn varð Rögnunafnið allsráðandi og í dag þykir mér auðvitað vænt um það líka en það var oft nokkuð ruglingslegt að nota ýmist Rögnunafnið eða Diddunafnið og sérstaklega verð ég að passa mig þegar ég skrifa jólakortin að ruglast ekki því sumir þekkja ekki þessa Rögnu og aðrir þekkja ekki þessa Diddu. Svona er nú það.

í dag  eru svo nöfnin orðin mun fleiri og þykir mér auðvitað vænst um þau sem hafa bættst á mig í seinni tíð.  Nöfn eins og mamma, amma og tengdó eru nöfn sem mér þykir sérstaklega vænt um.  En Diddu nafnið er mér alltaf jafn hjartfólgið því það minnir mig á æskuna og fjölskyldan og besta vinkona mín kalla mig ennþá Diddu og það er svo notalegt.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Rögnur

  1. Svanfríður says:

    Skemmtilegur pistill hjá þér Ragna. Nöfn eru nefnilega skemmtileg að spá í og einnig náttúrulega svo mikill partur af hver við erum. Heima á Íslandi er ég Svanfríður, hér er ég Swany og meira að segja Swany Getchell!!! Allt önnur manneskja í rauninni. Aðrir þekkja mig undir Eygló en þeir eru orðnir fáir. Sama er með mömmu og svo pabba en ég læt mömmu segja það ef hún vill.
    En aftur, takk fyrir skemmtilegan pistil. p.s mér finnst Didda hæfa þér vel, það nafn er eitthvað svo vinalegt sem og þú ert.

  2. Rögnur og Diddur!
    Mér finnst Ragna gott nafn. Móðursystir mín hét Ragna og var aldrei kölluð annað. Mér finnst aftur á móti Diddu nafnið vera þú! Kær kveðja í bæinn.

Skildu eftir svar