Bara úr einu í annað.

Ég get orðið svo urrandi reið þegar ég lendi í því að skrifa langa færslu, reka mig svo óvart í eitthvað á tölvuborðinu og allt er horfið sem ég hafði skrifað. Þessu lenti ég í fyrr í kvöld og til að ná mér niður þá skellti ég aftur tölvunni, fór fram og skellti síðan á eftir mér hurðinni. Ekki veit ég hverjum ég var að refsa með þessu því það var engum nema sjálfri mér til að dreifa að taka við skömmunum. En stundum verður maður bara að koma sér úr aðstæðunum, blása aðeins og byrja síðan upp á nýtt seinna.  En þið þekkið það sjálfsagt öll hvað það er erfitt að byrja upp á nýtt með sama efni þegar svona kemur fyrir. 

Það var svo sem ekkert merkilegt sem ætlaði að segja frekar en fyrri daginn, en ég ætlaði bara svona aðeins að láta vita af mér.

Nú bíð ég full tilhlökkunar að fá Selfossfamilíuna líka í Kópavoginn. Það er byrjað að pakka niður á þeim bæ og flytja kassa í geymslu hérna í skúrinn hjá okkur þegar ferðir eru á milli. það er nefnilega ótrúlega mikið af flutningnum sem fer í kassa – það þekkjum við hér á bæ.

Helgin var fín hjá okkur. Það er svo auðvelt að finna sér eitthvað að gera hérna á Höfuðborgarsvæðinu. Við skruppum í Kolaportið á laugardaginn, en það er svo svakalega fín fiskbúð þar, sem hefur bara allan þann fisk á boðstólum sem hugsast getur.  Svo  þurfti auðvitað að kaupa flatkökurnar og rúgbrauðið frá HP á Selfossi en það er það besta á markaðnum og kemur nýbakað í Kolaportið um helgar.  Svo var kominn kaffitími og þá var upplagt að fara í Kaffivagninn á Granda og fá sér kaffisopa og sitja við glugga og horfa á fiskibátana rugga léttilega við gömlu bryggjurnar.

Á sunnudaginn kom svo Selfossfjölskyldan aðeins við hjá okkur og mæðgurnar úr Arnarsmáranum litu inn.

Nú er Haukur ásamt Bjarna bróður sínum á Borgarfirði eystra, en þeir fóru til þess að heimsækja aldraða móður sína sem er á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum.

Ég var líka í góðum félagsskap í dag.  Því er nefnilega þannig háttað núna hjá henni litlu nöfnu minni í Arnarsmáranum, að mamma og pabbi hafa nú notað allt fæðingarorlofið sitt og dagmamma ekki á lausu fyrr en seinna í sumar. Afar og ömmur fá því þann heiður að skiptast á að vera með litlu skemmtilegu manneskjunni á meðan foreldrarnir draga björg í bú.  Ég tók fyrri vaktina og var hjá henni fram yfir hádegið en þá kom afi Jens og tók seinni vaktina. Þegar ég fór heim voru þau á leið í göngutúr og ekki efa ég að afi Jens hefur sýnt litlu manneskjunni margt á leið þeirra.

Þegar heim kom þá  lét ég hinsvegar loksins verða af því að rölta hérna niður tröppurnar sem eru við húshliðina hjá mér niður í næstu götu og hitti þar hana Önnu sem er með mér í saumaklúbbnum.  Já það er óþarfi að láta sér leiðast þegar margt er í boði.

Nú er kominn pistill sem er sko ekkert efnislega í líkingu við þann sem ég eyddi óvart út, en hvað um það ég sættist þó alla vega bæði við tölvuna og sjálfa mig og þá er vel.

Nú er best að koma sér snemma í rúmið svo ég verði komin í tæka tíð til að vera með litlu manneskjunni aftur í fyrramálið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Bara úr einu í annað.

  1. Hulla says:

    Þoli heldur ekki þegar allt hverfur af skjánum hjá mér. Ég er enn ekki búin að finna takkan sem eyðir öllu út, en er að hugsa um að gera hann óvirkan.
    Gangi þér vel með litlu dömuna og vona að þú hafir fengið emailið frá mér. Búið að vera eitthvað klúður með pósthólfið mitt.
    Hlakka annars óskaplega til að hitta ykkur öll 🙂

  2. ó þúúú…
    Guð hvað þú átt gott. Litla manneskjan á gersemar að. Kær kveðja í bæinn.

Skildu eftir svar