Tíu ára gömul ferðasaga.

Í samtali mínu í dag við mágkonu mína í Bandaríkjunum þá rifjaðist upp gömul ferðasaga.

Fyrir nákvæmlega 10 árum lagði ég upp í mitt fyrsta og eina ferðalag sem ég hef farið í til Bandaríkjanna. Ég fór með flugi sem hét Canada 2000 en það flaug milli Canada og Evrópu með stuttri millilendingu á Íslandi bara rétt svo farþegar gætu hoppað um borð og síðan lá leiðin áfram til Vancouver.

Ferðinni var heitið til þess að heimsækja hana Ingunni mágkonu mína sem þá bjó í Tacoma (nálægt Seattle). Ég þurfti því, eftir 9 klukkustunda ferðalag til Vancouver, að taka vél áfram til Seattle þar sem þau myndu taka á móti mér.

Það sem gerir það að dagurinn sem ég fór í þessa ferð minnir alltaf á sig, er vegna þess að þennan dag fæddist þeim Ingunni og John fyrsta barnabarnið, og það breytti talsvert upphaflegri ferðaáætlun minni og gerði líka ferðalagið mitt mun sérstæðara og eftirminnilegra.

Þegar ég loks lenti heilu og höldnu í Seattle eftir 14 klukkutíma ferðalag frá því ég fór að heiman frá mér, þá sá ég Ingunni hvergi á flugvellinum en eftir smá stund kom John og var mér þá létt því ekki vildi ég verða strandaglópur alein í henni stóru Ameríku.

John hafði fréttir að færa sem skýrðu fjarveru Ingunnar. Wendy tengdadóttir þeirra hafði sem sé fengið hríðir um morguninn og Ingunn dreif sig uppeftir – já uppeftir var í þessu tilfelli í Bellingham mjög nálægt landamærum Canada þar sem ég hafði lent upphaflega. Nú mátti ég velja hvað við gerðum. Við gætum farið heim í Tacoma þó Ingunn væri ekki heima eða við gætum keyrt til Bellingham og hitt hana þar og verið á staðnum þegar barnabarnið þeirra fæddist.  Ég svaraði strax að auðvitað færum við bara til Bellingham því  ég vissi að vitanlega langaði John til að fara þangað. Þetta var á föstudegi og einhver löng helgi svo það mátti búast við hægari umferð. En eftir um 4 tíma akstur um mjög fallegt landslag, reyndar í sömu átt og ég hafði nýlega flogið frá, þá komum við til Bellingham og fórum beint á sjúkrahúsið þar sem Ingunn og Pétur verðandi pabbinn biðu í ofvæni.  Við settumst því í biðsalinn líka (í Ameríku er allt svo stórt svo þetta var engin bið-stofa heldur salur). þarna var þó nokkuð af fólki sem var í sömu erindagjörðum, að bíða eftir barnsfæðingu. Það sem mér þótti svo sérstakt var að heilu fjölskyldurnar skyldu bíða á spítalanum eftir að barn fæddist. Vinir komu og fóru og ættingjar biðu í svo og svo langan tíma í biðsalnum.

Þetta var allt mjög spennandi og skemmtilegt en það bara dróst og dróst að barnið liti dagsins ljós og þegar það voru komnir 26 tímar frá því ég fór að heiman um morguninn þá var ég allt í einu bara alveg gjörsamlega búin að vera. John skilaði mér því heim í hús Péturs og Wendyar og mikið rosalega var ég feign að komast í rúmið.

Seinna um nóttina fæddist svo myndarlegur drengur sem hlaut nafnið Alexander og hann á einmitt 10 ára afmæli í dag. Til hamingju Alex.

Þetta ævintýri var upphafið að alveg stórkostlega skemmtilegri heimsókn til þeirra Ingunnar og John og þegar ég hugsa um þessa ferð mína til Ameríku þá man ég nánast hvern klukkutíma sem ég var þar með þeim því það var svo margt sem þau fóru með mig og sýndu mér. Svo var líka alveg stórskemmtilegt að fara með Ingunni og hitta vinkonurnar hennar og fara síðan með þeim stöllum í bílskúrssölurúnt.  

Og svo, og svo. Nei ég sé að ég get ekki haldið áfram að rifja allt upp úr ferðinni því hver minningin rekur aðra og erfitt að láta staðar numið.

Hér set ég þó punktinn, en fer með minningarnar með mér í rúmið og endurtek ferðalagið á leið minni í draumheima.

Góða nótt. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar