Ungviðið.

Jæja þá er ég orðin það hress að ég náði að setja inn myndirnar mínar.  

Á fimmtudaginn var, þá fór ég austur á Selfoss til þess að vera með litla snúðinn til hádegis. Hann varð að vera fastandi fyrir nefkirtlatöku og rör í eyrun  svo amma var sett í það embætti að passa að hann næði hvergi í matarbita, en hann átti ekki að mæta fyrr en hálf eitt.  Mikið vorkenndi amma nú snáðanum, en það var ótrúlegt hvað hann var fljótur að gleyma því aftur þegar amma notaði nógu fljótt trompin sín til þess að slá unga manninn út af laginu og beina huganum annað. Í eitt af þessum skiptum beindist hugurinn að öllum tómu pappakössunum sem biðu þess að í þá yrði sett dót til flutnings.  Við bjuggum m.a. til hús  úr kössum og svo fann þessi elska upp á því að þessi kassi gæti líka verið ágætis rúm.

nafni1.jpg

Kirtlatakan og röraísetningin tókust bara vel og vonandi skilar hvorttveggja þeim árangri sem lagt var upp með, að eyrnabólgurnar verði úr sögunni.
Það er orðið svo gaman að ræða málin við þennan unga mann því hann má heita altalandi þó hann sé bara rúmlega tveggja ára gamall og af því það er bara talað við hann fullorðinsmál en engin tæpitunga, þá er oft fyndið að heyra þetta litla kríli orða hlutina eins og hver annar spekingur myndi gera.

Nú fer Grundartjarnarfjölskyldan að fá nýtt nafn og kallast þá Ásakórsfjölskyldan og það er sko ekki langt í að svo verði, því um mánaðamótin flytja þau.

Ég er líka ennþá í morgunpössuninni í Arnarsmáranum en það fer nú að styttast í að mamman sé búin með kennsluna og þá er litla prinsessan á grænni grein með mömmu heima.

Hún er nú svo róleg hún nafna mín, að ég veit ekki af því að vera með hana. Þegar ég segi róleg þá er það þó ekki svo að hún sitji bara og hreyfi sig ekki. Nei, litla manneskjan er alveg á fullu, ýmist að druslast með bangsa og dúkkur, skoða bækur, sýna ömmu eitthvað.  Aldrei rell eða væl.

Hér er hún nafna mín. Hún ætlaði að athuga
hvort hún gæti ekki rennt sér á Lego plötunni en það gekk nú ekki.

nafna1.jpg

Finnst ykkur ég vera eitthvað að monta mig – ég má það bara alveg. Alla vega ætla ég að leyfa mér að gera það.  

Hér eru fleiri myndir af Ragnari og Rögnu Björk

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Ungviðið.

  1. jú…
    þú mátt svo sannarlega monta þig. Þetta eru fallegustu manneskjur, trúðu mér…Ég hef sko vit á því!!!! Kær kveðja í kotið.

  2. Svanfríður says:

    Það má sko vel monta sig…að renna sér á legoplötu…það má allt reyna:)

Skildu eftir svar