Þakklát.

Já ég er aldeilis heppin núna að vera flutt í Kópavoginn, og hafa ekki þurft að upplifa þessa miklu jarðskjálfta á Árborgarsvæðinu.

Það var gengið frá afsali fyrir Fensalina eftir hádegi í gær og á leiðinni heim frá því þá höfðum við  komið við í nýju Krónubúðinni hérna í Lindunum. Þegar skjálftinn reið yfir þá vorum við nýkomin hérna heim og sátum í sólinni úti á svölum með kaffi og tertusneiðar þegar húsið bylgjaðist endanna á milli. Þetta stóð ótrúlega lengi en einhvernveginn varð ég ekkert hrædd, líklega af því að við vorum úti.

Mér varð hinsvegar strax hugsað austur á Selfoss. Fimmtudagar voru þeir dagar sem börnin komu yfirleitt til mín eftir skóla svo ég hafði áhyggjur af að þau væru ein heima ef þetta væri skjálfti sem  einnig hefði fundist á Selfossi.  Ég var því fegin þegar Guðbjörg (smellið á nafnið hennar til að sjá pistilinn hennar) svaraði í símann. Hún var rétt komin inn með Ragnar Fannberg úr leikskólanum og krakkarnir voru ekki heima þegar ósköpin dundu yfir. Já þetta fannst sem sé heldur betur á Selfossi og hún sagði að þetta hefði verið alveg hræðilegt. Hinsvegar hlýtur húsið hjá þeim að vera sterkbyggt því það skemmdist ekkert fyrir utan rakspíraglas, sem hafði dottið úr hillu á baðinu. Það kom sér líka vel að það var búið að pakka öllu úr stofuskápnum niður til flutnings og því ekkert um lausamuni sem voru að hristast úr skápum.  Allir voru  heilir, bæði þau í Grundartjörninni og systir mín og hennar fjölskylda. Sem betur fer urðu engin stórslys í þessum hamförum og fyrir það ber að vera þakklátur.

Þegar ég heyrði í fréttum að von væri á sterkum eftirskjálfta eftir þennan sem við fundum í Reykjavík,  þá sendi ég SMS austur "komið bara í bæinn…".  En þau kusu að vera um kyrrt með öllum hinum hetjunum og takast á við það sem kynni að gerast. Sem betur fer kom ekki þessi sterki skjálfti en það skalf samt í alla nót meira og minna.

Guðbjörg sagði í morgun að Almannavarnir og Rauði Krossinn hefðu sinnt sínu starfi alveg einstaklega vel. Það hefði verið gengið í hvert einasta hús á Selfossi til þess að athuga hvort nokkuð væri að og hvort allir væru heilir.  Hún sagði að það hefði verið svo notalegt þegar Rauðakrosskonan bankaði uppá hjá þeim í gærkveldi til að kanna hvort allt væri í lagi. það er svona þessi tilfinning að haldið sé utanum mann þegar eitthvað bjátar á.

Nú er bara vonandi að þetta sé allt yfirstaðið og heyri sögunni til næstu 100 árin og allt komist fljótt í lag aftur í þessu ágæta bæjarfélagi. Það eiga margir um sárt að binda og skelfilegt að sjá hvernig umhorfs er  á mörgum heimilum.

——————————-

Það er spennandi helgi framundan hjá okkur því Guðbjörg og Magnús Már flytja núna á sunnudaginn í Kópavoginn.
Já, já , þau þiggja örugglega hjálp við að bera ef einhver hefur áhuga á að hjálpa þeim hérna sunnan heiða.

Það er nú orðið langt síðan ég hef kíkt í bókina um hamingjuna. Ég opnaði hana og þessi texti blasti við.

 

Brosið er sveigja,
sem réttir allt við.

Nú er bara að brosa um helgina og gleyma öllum áhyggjum.

Njótið helgarinnar
verum þakklát.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Þakklát.

  1. Hulla says:

    úfff
    Já ég var mikið fegin í gær þegar ég las um þetta, að vita af ykkur í bænum.
    Búin að heyra í svo til öllum sem ég þekki og sem betur fer engin meiddur.
    Og las hjá Guðbjörgu áðan og Strákarnir eru út á akri að leika sér og ekki nokkur leð að ná þeim inn.
    Hlakka mikið til að sjá ykkur öll og veit að strákunum á eftir að hlakka til að fá börn í heimsón. Ekki búin að segja þeim það en svo þeir þurfi nú ekki að bíða eftir því líka. Nóg að þurf að bíða eftir ykkur pabba :O)
    Knús og kossar

  2. þórunn says:

    Lán í óláni
    Ég hugsaði einmitt það sama, hvað þið voruð heppin að vera flutt. Það er gott að ekki varð neitt manntjón í þessum skjálfta, dauða hluti má eignast aftur. Við sátum við tölvurnar í gær og horfðum á fréttirnar af jarðskjálftanum. Vorum ánægð að þurfa ekki að upplifa þetta sjálf. Vonandi ganga flutningarnir vel hjá Guðbjörgu og hennar fjölskyldu. Eigið góða helgi, bestu kveðjur frá Portúgal,
    Þórunn

  3. Þakklæti
    yfir að enginn slasaðist. Það hefur verið ömurlegt að horfa uppá eyðilegginguna. Við búum í landi elds og ísa og það sennilega gerir okkur að sterkri þjóð. Líði ykkur vel og góða helgi.

Skildu eftir svar