Hvað er tilviljun?

Það væri gaman að vita hver ykkar skilgreining á tilviljun er.

Þær eru alla vega merkilegar þessar svokölluðu tilviljanir. Þegar fólk hefur naumlega sloppið við að lenda í ýmsum hremmingum eða slysum, vegna þess að eitthvað óvænt hefur komið í veg fyrir að það sé á þeim stað sem slys verður á, en hefði í raun átt að vera nákvæmlega þar.  
Ég hef heyrt svo ótal margar sögur af tilviljunum um mína daga og í hvert skipti þá hugsa ég  "Hvað er tilviljun?". Mitt álit er það, að ekkert sé til sem heitir tilviljun heldur sé þetta orð yfir það, þegar fólki er bjargað á óskiljanlegan hátt frá ýmsum óförum.  Ég hef nefnilega þá trú og hef alltaf haft að lífi hvers og eins sé í stórum dráttum stjórnað af því afli sem við fáum hvorki séð né þreifað á. Þess vegna er talað um tilviljanir þegar eitthvað óskýrt á sér stað.

Það er að mínu mati mikið til í máltækinu " Eigi verður feigum forðað, né ófeigum í hel komið" Ég vona að orðalagið sé rétt munað hjá mér.

Það er núna nærtækast að skoða fréttir af Suðurlandsskjálftanum og heyra og sjá hvað fólk sem rætt hefur verið við segir um reynslu sína. Það kom nefnilega svo glögglega í ljós í þeim viðtölum hvað þessar tilviljanir eru merkilegarÞað var t.d. viðtal við mann á trésmíðaverkstæði þar sem stórar vélar höfðu flogið af stað í skjálftanum, vélar sem menn höfðu nokkru áður unnið við, en fyrir tilviljun höfðu menn einmitt þennan dag farið óvenju seint í kaffi og voru því ekki komnir aftur til vinnu eins og þeir hefðu alla jafna verið.

Á bæjarskrifstofunni var viðtal við mann sem fyrir tilviljun var í Reykjavík þennan dag en þegar hann kom á skrifstofuna hafði skápur fallið yfir stólinn sem hann hefði annars setið á við vinnu sína.

Sýslumaður kveðst hafa brugðið sér einhverra erinda augnablik í annað herbergi á Sýsluskrifstofunni og var því ekki á skrifstofunni sinni þegar ósköpin dundu yfir. Þegar hann sá verksummerkin þá hafði stór og þungur flúorljósalampi fallið niður úr loftinu  þar sem hann hefði annars setið og bókahilla kastast til.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar