Laugardagur til lukku.

Það var alla vega lukkulegur laugardagur hjá okkur í gær. 
Fyrir hádegið komu Guðbjörg, Magnús Már og börnin þeirra í smá snarl hjá okkur áður en þau héldu síðan til Keflavíkur og þaðan til Billund á Jótlandi þar sem þau verða í sumarleyfi í summarhúsi.

Eftir hádegið fórum við í göngutúr og bakið angraði mig lítið í þetta sinn svo við vorum í klukkutíma í göngutúrnum. Við gengum meðfram golfvellinum upp með Rjúpnahæðinni  þar sem gróðurinn skartar nú sínu fegursta. Þar eru margar tegundir af fallegum trjáplöntum, allur fínlegi smágróðurinn og svo er lúpínan í fullum skrúða núna og er svo sem falleg svona blá og fer vel með gulum sóleyjum inn á milli. Ég er hinsvegar svo hrædd um að lúpínan vaði yfir og eyði öllum þessum fallega holtagróðri.

Við sáum yfir allan golfvöllinn sem er fyrir framan Vífilstaði og ég hef bara ekki gert mér grein fyrir því hvað þetta er fallegur golfvöllur því þegar maður ekur Reykjanesbrautina lætur hann ekkert mikið yfir sér. En þegar maður er kominn upp í Rjúpnahæðina þá blasir hann við frá öðru sjónarhorni.  Við gengum svo upp í hæðina þar til Vífilstaðavatnið blasti við okkur. Þá settumst við niður á steina í hlíðinni með allan fallega gróðurinn í kringum okkur og nutum þess hvað allt var fallegt og gott.  Enn á ný þurftum við ekki að fara yfir eina einustu umferðargötu  til þess að vera komin svona algjörlega út í náttúruna.  Ef við hefðum gengið í svona hálftíma í viðbót þá hefðum við verið komin í Heiðmörkina.  Það er gott að búa svona í útjaðri og vera svona nálægt fallegum útivistarsvæðum.
Því miður var myndavélin ekki með í þessari gönguferð en ég vona að lúpínan verði enn svona blá og allt svona fallegt þegar við höfum tækifæri til þess að vera stödd þarna næst.
———
Þegar við komum heim var dagurinn aðeins rétt svo hálfnaður, en samt var kominn tími  til að fara að koma sér í kvöldgírinn.  Það næsta var því að taka sig til við ýmiskonar snyrtingu, bæði á hári og síðan við sparslið og málningarvinnuna sem verður tímafrekara með hverjum deginum sem líður.

Ég er nú ekkert vön því að koma mér sérstaklega í slíkan kvöldgír á laugardagskvöldum , en í gær var okkur boðið í 80 ára afmælið hans Ingabjörns sem var sambýlismaðurinn hennar tengdamömmu blessaðrar.

Þetta var mjög skemmtilegt kvöld með söng og dansi, að ekki sé nú talað um fína matinn og allar veitingarnar. Sigurrós sótti okkur, Jói var heima með Rögnu Björk og þau hin farin til Danmerkur svo við fórum saman þrjú, Haukur, ég og Sigurrós.

Ég mundi eftir myndavélinni  og tók eitthvað af myndum, en þegar ég var að setja þær inn þá sá ég að Sigurrós hefur tekið eitthvað af myndum á vélina mína. T.d. af okkur Ingabirni á dansgólfinu.

afmibj1.jpg

Hér syngja þau saman af mikilli innlifum
Sigurrós og Loftur föðurbróðir hennar.

afmibj2.jpg

Annars eru allar myndirnar mínar hér, ef einhvern langar til að skoða. Svo tók Sigurrós fullt af myndum á sína vél.

Því segi ég það með sanni að þetta var laugardagur til lukku.  Í dag er svo verið að koma sér í Danmerkurgírinn. Alltaf verið að skipta um gír þessa dagana.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Laugardagur til lukku.

  1. þórunn says:

    Salir
    Fensalir, heiðarsalir, danssalir, veislusalir, salir.
    Þið hafið sannarlega nóg fyrir stafni, svona á lífið að vera, tómt gaman.
    Góða ferð í Dan-sali,
    vestu kveðjur úr Portú-sölum

    Þórunn

  2. Góða ferð
    Þetta hefur greinilega verið góður laugardagur. Ég er svo skrítin að mér finnst lúpínan megi vaða um allt í náttúrunni, hún er svo falleg. (Margir mér mjög ósammála) Hvað um það, góða ferð í höllu drottningar. Bið að heilsa!

  3. Ragna says:

    Já Þórunn mín, það virðast allir salir standa okkur opnir og vonandi verður það svo áfram.
    Mér finnst lúpínan líka falleg Guðlaug mín en hún verður að halda sér í skefjum.Mér finnst svo þokkafull litlu fallegu holtablómin sem bera sig svo vel þrátt fyrir rýran jarðveg oft á tíðum.

  4. Svanfríður says:

    Gott að heyra Ragna mín að bakið hafi ekki angrað þig mikið á laugardaginn var. Vonandi helst það sem lengst.
    Skemmtilegar myndir þarna af þér og Ingabirni dansandi. Og þú ert falleg þarna líka:)

Skildu eftir svar