Úr skálum…

Já, nú þegar við erum að koma heim og klukkan langt gengin tvö um nótt, þá vil ég byrja á því að hella úr skálum reiðinnar. Mér leiðist nefnilega alveg einstaklega mikið að hafa slíkar skálar í minni vörslu.  Ferðasagan kemur svo næstu daga og hver veit nema einhverjar myndir fljóti með.

En fyrst er að gera hreint og hella úr skálunum.

Við komum til Billund einum fjórum tímum fyrir brottför í dag, enda átti ekki að fljúga fyrr en klukkan 23:20 og svona dagar fra yfirleitt bara í að láta tímann fram að brottför líða.

Við vorum á þessum tímapunkti búin að skila bíllyklunum og klár í heimferð. Eftir nokkra bið eftir innskráningu fengum við loks afgreiðslu. Afgreiðslustúlkan tók miðana okkar og fór að athuga í tölvunni hjá sér. Hún var lengi að skoða fram og aftur og kíkja á passana okkar og miðana  og tilkynnti okkur loks að nöfnin okkar væru bara alls ekkert í tölvunni og við því ekki á farþegalistanum. Jafnframt tilkynnti hún okkur við kæmumst því ekki með vélinni heim því hún væri fullbókuð. Ég bara trúði þessu ekki. Ég fór nú að velta vöngum yfir því hvenær við kæmumst þá heim. jú, þið getið reynt að vera biðfarþegar aftur á mánudaginn. "Hvað fáum við í hendurnar til að sýna þegar við komum á mánudaginn og miðarnir útrunnir".  "Þið fáið ekkert í hendurnar, komið bara hérna og við athugum hvað er hægt að gera". "Verða þá starfsmenn frá þeim sem ég keypti miðana hjá" Nei þú talar bara við þær á innritunarborðunum".   Það er ekki þeim hjá Plúsferðum eða Iceland Express að þakka að ég hélt ró minni og missti mig ekki alveg þarna og að ég gat skilið stúlkuna og tjáð mig við hana.  Ég vil bæta því við að þegar við komum meðal hinna farþeganna þá kom í ljós að allir voru sammála um að það væri engin ferð á mánudag eingöngu á þriðjudags og á laugardagskvöldum.

Skrifstofa Plúsferða var auðvitað lokuð þegar reynt var að hringja í þá og ekki var nokkur frá Iceland Express á staðnum eða hægt að ná í þá kumpána í síma á laugardagseftirmiðdegi. Ég hitti fyrir tilviljun á íslenskan starfsmann, einstaklega lipra stúlku sem ég bar mig upp við (ég held hún hafi verið frá Icelandair) og hún gerði hvað hún gat  til að bjarga okkur en hafði ekki aðgang að bókunum Iceland Express og gat því ekkert gert.  Til þess að gera langa sögu um mikið ströggl stutta, þá vorum við bókuð sem miðalausir biðfarþegar og jafnframt var okkur tilkynnt að vélin væri fullbókuð. Á þessum biðfarþegapössum fengum við þó að fara inn í flugstöðina en gátum t.d. ekkert keypt í fríhöfn því við áttum sáralitla von á að komast með vélinni.

Loks var kallað út í vél og við urðum að bíða þar til allir voru komnir inn til þess að vita hvort við hefðum heppnina með okkur.  Jú – við komumst með og fengum "boarding á sæti 36A og B. Þegar inn í vélina kom þá var engin sætaröð 36 A og B í vélinni aftasta sætaröðin var 35A og B en þar var setið. Ég sýndi nú flugfreyjunni miðana og hún var alveg steinhissa á þessu rugli öllu. Fann samt einu tvö sætin sem voru laus í vélinni. Þau voru fyrir aftan eitthvert þil þarna og þegar við litum út um gluggann sáum við bara hreyfilinn og hávaðinn og drunurnar ætluðu að æra okkur þegar vélin fór í loftið. Það var mikið af skátum í vélinni og flugfreyjan sem var alveg sérstaklega elskuleg og vildi allt fyrir okkur gera kom eftir flugtak og spurði hvort hún ætti ekki að athuga hvort einhver vildi skipta við okkur um sæti. Við vorum auðvitað fegin því og tvær skátastúlknanna voru svo elskulegar að skipta um sæti við okkur  og gerðu þar með góðverk dagsins. Við færðust því úr sætaröð 34 minnir mig í sætaröð 28 og vorum mikið fegin.

Ég vildi  koma þessu frá mér strax því ég var alveg ákveðin í að tjá mig um þetta.

Hvað gerðist veit ég ekki, en einhverra hluta vegna virðist hafa verið tvíselt í sömu sæti. ég á eftir að komast að því eftir helgi þegar ég fer á stúfanna að leita skýringa.

Eitt vil ég þó segja Iceland Express í plús, að flugfreyjurnar voru alveg einstakar og það er þeim að þakka að ég er ekki ennþá harðorðari en ég er. Ég vissi ekki þegar ég keypti miðana hjá Plús ferðum að við færum með Iceland Express og hefði líklega hætt við þann ferðamáta  hefði ég vitað það,  því eftir hremmingar Sigurrósar og Jóa um árið þá ákvað ég að með þessu flugfélagi flygi ég aldrei. Svo sannar ferðalag okkar í dag að ég á að standa við það að velja mér annan ferðamáta en Iceland Express.

Nú eru skálar reiðinnar orðnar hreinar og fínar – a.m.k. þar til á mánudagsmorgun  þegar ég fer og les þeim pistilinn, sem eiga hann skilinn. Nú get ég hinsvegar sofnað vært og rótt í rúminu mínu ánægð með að vera komin heim. Svo kemur ferðasagan smátt og smátt þegar búið er að taka upp úr töskum, þvo og auðvitað setja inn myndirnar og allt það.  Á meðan segi ég bara  LIFIÐ HEIL og munið að geyma aldrei skálar reiðinnar barmafullar því þá líður manni illa. Losa sig sem fyrst við allt slíkt. 

Góða nótt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

13 Responses to Úr skálum…

  1. Sigurrós says:

    Iceland Express uppfyllir greinilega allar þær væntingar sem ég hef til þeirra eftir hremmingarnar um árið, þ.e.a.s. ég treysti þeim ekki fet! Alltaf skal einhverju klúðrað þar á bæ 🙁

    Og ætli viðbrögðin við ykkar hörmung verði ekki þau sömu, þ.e.a.s. „þetta er bara því miður ekki okkar vandamál, só sorrí!“

    Nema þeir komi á óvart, biðjist afsökunar og bæti ykkur skaðann með glæsilegum sárabótum…… frímiða með Iceland Express! 🙂 hahaha

    En alla vega, það er virkilega gott að vera búin að fá ykkur, og Kórafjölskylduna líka, heim í Kópavog. Er mjög fegin að þið sátuð ekki föst í Danaveldi.

  2. klúður..
    og aftur klúður, og því miður hefur maður of oft heyrt svona sögur um þetta flugfélag. Velkomin heim og gott að skálin er tóm, en geymdu hana og helltu úr henni á mánudaginn.

  3. Svanfríður says:

    Jahérna.
    Svona mistök eru eitt (þó þau eigi ekki að gerast) en að fá dónaskap, tillitsleysi á flugstöðinni er vont.
    En gott að þarna var líka fólk sem vildi aðstoða ykkur og að þið komust heim.
    En auðvitað skaltu ganga í málið, þetta er ekki hægt að komast upp með.
    En velkomin heim. Hlakka til að lesa um ferðasöguna. Kv. Svanfríður

  4. Svanfríður says:

    Mikið óskaplega skrifaði ég mikið af -en- þú fyrirgefur mér það, ég er ósofin:)

  5. Ragna says:

    Kannski var þetta ekki beint dónaskapur af stúlkunni sem tékkaði inn hún var bara ráðalaus eins og við og enginn tiltækur frá flugfélaginu eða ferðaskrifstofunni og ekkert símanúmer heldur tiltækt til að hafa samband við utan venjulegs afgreiðslutíma og þetta var á laugardegi. Hún mátti einfaldlega ekki hleypa í gegn farþegum sem ekki voru skráðir í tölvunni hjá henni. Ég held að það hafi verið sú íslenska sem fékk hana til að leyfa okkur að vera biðfarþegar.

  6. Rut says:

    ferðarugl….
    Velkomin heim Didda mín!
    Mig langar svona að koma því á framfæri að þetta gerist víst líka hjá Icelandair, því miður!!!
    Það virðist einfaldlega ekki fara eins hátt, en það gerist samt.
    Ekki að það bæti þetta, sem er gjörsamlega alveg út úr kortinu eins og krakkarnir segja, en svona er nú þjónustan í dag! Og við bara verðum að taka því!!! (og hella svo bara úr skálinni);(
    kv. Rut

  7. Ragna says:

    Hverjum sem er nú um að kenna, þá athuga ég málið í fyrramálið því svona nokkuð á ekki að eiga sér stað. Sérstaklega finnst mér forkastanlegt að ekki skuli vera hægt að hringja í neitt símanúmer hjá söluaðilum eða flugfélaginu til þess að fá upplýsingar um málið og hvað maður eigi til bragðs að taka ef maður kemst ekki með. Mér varð nú hugsað til þeirra sem eru kannski mállausir og geta ekki staðið í svona málum erlendis.

  8. þórunn says:

    Velkomin heim
    Það eru oft þreytandi þessir dagar sem maður bíður eftir flugi heim frá útlöndum. Ég lenti í því að vera skilin eftir á flugvellinum í Kuala Lumpur, þó ég hefði gildan miða, „vélin er bara full og þú kemst ekki með“ sagði maðurinn sem bókaði í vélina. Þá varð ég ósköp lítil inni í mér og vissi ekki mitt rjúkandi ráð, alein úti í hinum stóra heimi. Það tók mig næstum sólarhring að komast heim eftir krókaleiðum, mikið varð ég fegin þegar ég loksins komst heim. Svona virðist geta gerst hvar sem er, þó maður hafi fullgildan miða. Vonandi færðu einhverja úrlausn þegar þú nærð í viðkomandi skrifstofu.
    Bestu kveðjur
    Þórunn

  9. Svanfríður says:

    Ég hef tekið á móti einhverjum símtölum þar sem ég er milligönguaðili í túlkun hjá íslendingum sem eiga í vandræðum á flugvöllum. Sem betur fer hafa þau verið farsællega leyst en það er allt í lagi fyrir fólk að vita að EF að aðstæður koma upp þar sem fólk skilur ekki þá er hægt að hringja í Languageline.com og fá íslenskan túlk sem þá myndi vera ég. Símtalið yrði viðskiptavinunum að kostnaðarlausu.

  10. Ragna says:

    En gaman að heyra að þú sért slíkur túlkur. Næst (sem ég vona að verði reyndar ekki) ætla ég að þykjast ekkert skilja og biðja um túlk þá fæ ég að spjalla við þig Svanfríður mín. Þetta er þjónusta sem allir ættu að vita um því það er ekkert gefið að fólk geti bjargað sér á erlendum málum, sérstaklega ekki eldra fólk.

  11. Sæl Ragna Kristín.
    Eins og allir sem fara á netið vita, þá veit maður ekki alltaf fyrirfram hvert maður fer eða endar. Ég verð að viðurkenna að það eru margir mánuðir síðan ég rakst á síðuna þína og sú staðreynd að ég hafi aldrei kvittað fyrir heimsókn er að sjálfsögðu argasti dónaskapur sem ég biðst forláts á hér með.
    En núna langar mig að leggja orð í belg. Ég flaug með Express til Danmerkur í Febrúar og varð fyrir seinkun bæði í brottför og heimkomu. Það sem kom mér mest á óvart þá og langar að leggja inn í umræðuna, er hvað verðmunurinn milli Express og Icelandair var í raun lítill þrátt fyrir að Express eigi að heita lággjalda flugfélag og sinni minni þjónustu fyrir vikið. Ég óska þér góðs gengis í samskiptum þínum við Express og væri gaman að heyra hvernig þau fara á endanum.
    Ég ætla svo að leyfa mér að halda áfram að heimsækja síðuna þína því ég hef alltaf gaman af pistlunum þínum – fyrir svo utan að góðvildin skín af þér þrátt fyrir ég hafi aldrei hitt þig:)

  12. Ragna says:

    Gaman að sjá hverjir koma í heimsókn.
    Sæl Katla og velkomin á síðuna mína. Þú gerir mig reyndar feimna með ummælum þínum og segi bara takk fyrir.
    Það er alltaf að koma í ljós að það eru fleiri en maður veit um sem koma í heimsókn en mikið er nú gaman þegar kvittað er fyrir. Það þarf ekki endilega að tjá sig um neitt sérstakt. Mínir pistlar eru ekki svo efnismiklir að þeir gefi tilefni til neinna pælinga, meira svona til þess að halda utanum kafla í lífi mínu. En eins og það er gaman að heyra þegar dyrabjallan hringir og einhver kemur í heimsókn þá er líka gaman að sjá hverjir koma í heimsókn á síðuna mína.

  13. Ingunn Loftsdóttir says:

    Úff þetta hefur ekki verið gaman, var að koma frá Billund og það er ekki mikið hægt að bjarga sér þar ef maður verður strandaglópur – ekkert nema legoland í sjónmáli.

    Annars held ég að Icelandair sé ekkert betra fyrirtæki að þessu leitinu, held þeir séu eitt af því flugfélagi sem sjaldnast fer í loftið á réttum tíma. Svo er það þannig að Danir hafa einstaklega litla þjónustulund og vita hreinlega ekki hvað það er að veita þjónustu.

Skildu eftir svar