Skæður keppinautur.

Eitt verð ég að játa. Á ferðalaginu um Danmörku eignaðist ég skæðan keppinaut. Já mjög skæðan, og það sem meira er þá verð ég að játa að hún fékk alla athygli Hauks og ég varð bara að hafa mig hæga og láta lítið fyrir mér fara. A.m.k. varð ég verulega að draga úr öllu málæði, sem er auðvitað mjög erfitt fyrir konu eins og mig sem er alltaf gjammandi um allt og ekkert. Það var ekki bara það, að hún talaði engilblíðri röddu heldur var Haukur alltaf að gjóa augunum í þá átt sem þessi engilblíða rödd kom úr. Ég var hrædd um að það myndi trufla hann við aksturinn að vera alltaf að smá líta af veginum en það virtist ekki koma að sök.  Það einkennilega við þetta er, að ég tók þennan keppinaut mjög fljótlega í sátt og ekki leið á löngu þar til mér fannst alveg ómissandi að hún væri hluti af ferðalagi okkar og það var svo komið að ég beinlínis neitaði að aka af stað fyrr en ég vissi að hún væri með og búin að setja sig í stellingar og láta heyra í sér.  Ég sætti mig meira að segja alveg við að þurfa aðeins að þegja öðru hvoru á meðan hún talaði.

Ég er nú ekki alveg viss um ætterni hennar en hún notar skammstöfun fyrir nafnið sitt GPS.

Já Haukur keypti sér þessa leiðsögukonu áður en við fórum út og hvílíkur munur að þurfa ekki lengur að sitja með landakortið á hnjánum og reyna að finna út hvert á að aka og hvar á að beygja, oft með lélegum árangri.  Nú sér þessi elskulega dama nefnilega alveg samviskusamlega um að við komumst alltaf á leiðarenda án vandræða.  Hún segir okkur sinni engilblíðu röddu hvenær von er á hringtorgi og hvar eigi að beygja út úr því, leiðir okkur framhjá einstefnuakstursgötum og getur hafnvel gefið okkur upplýsingar um veitingastaði og annað sem á þarf að halda þegar ferðast er um ókunnar slóðir.

Já það er um að gera að sætta sig við það að fá keppinaut og þurfa að deila athyglinni með henni.  Aðalatriðið er að kynnast henni  og þá verður hún ómissandi í ökutúrinn og allir geta verið sælir og glaðir.

Hér er svo mynd af keppinautnum, þessari líka elsku. 

garminnuvigps.jpg

Ég bið ykkur vel að lifa. það er svo mikið að gera við að njóta lífsins hérna í Kópavoginum að ég hef ekki komið því í verk að klára færslur yfir það sem hefur verið á döfinni þessa vikuna. Nú að þessum línum skrifuðum, er ég á förum í sund til að leika mér með dætrunum og litlu englunum en í morgun fórum við Haukur í líkamsræktina og aðeins í pottana.
Það er aldrei að vita nema ég verði í stuði í kvöld og klári  þær færslur og myndir sem ég er með í bígerð

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Skæður keppinautur.

  1. Guðbjörg O says:

    Það er svona þegar báðar dæturnar og öll barnabörnin eru komin í Kópavoginn, brjálað að gera við að sinna öllum. Takk fyrir pössun í morgun, hann nafni þinn steinsefur þessa stundina.
    Guðbjörg

  2. Ragna says:

    Gott að hann náði að sofna. Amma bíður bara róleg eftir að ungviðið sé búið að fá sér lúr

  3. Mikið er þetta skemmtileg færsla hjá þér Ragna! Mér finnst hann eiga svo vel við í mannlegum samskiptum líka – það er nefnilega svo að þegar maður hættir að líta á manneskju sem keppinaut eða fyrirfram ákveðna sem einhvað, þá fyrst kemst maður að fjársjóði hvers og eins: )
    Kær kv. frá Kötlunni.

  4. þórunn says:

    Góður ferðafélagi
    Ég óska ykkur til hamingju með að hafa eignast þennan góða ferðafélga, hann léttir svo sannarlega undir á ferðalögum. Ég hefði þegið að hafa svona dömu meðferðis þegar ég byrjaði að keyra hér í Portúgal, þó Palli hafi hjálpað mér ótrúlega mikið. En svona leiðsögutæki er innbyggt í mælaborðið á bílnum sem við keyptum fyrir tveim árum síðan og það er bara nýtt líf fyrir mig að sjá alla vegi og hringtorg framundan, og kemur manni auðveldlega á áfangastað, léttir sannarlega undir. Kær kveðja til ykkar Hauks frá okkur í kotinu, Þórunn

  5. Á ferðalagi..
    Þessi dama hefur örugglega létt róðurinn. Það er gott að heyra að þið njótið lífsins í Kópavoginum. Kær kveðja í bæinn.

Skildu eftir svar