Svo mikið að gera.

Það er sko ekki hægt að segja að okkur leiðist hérna í nýju heimkynnunum. það er svo mikið að gera að ég hef ekki einu sinni haft tíma til að skrásetja jafn óðum í dagbókina mína. 
Það er svona þegar maður verður eftir á í færslunum þá hrannast þetta upp og erfitt að vita á hverju skal byrja og hverju skal sleppa.

Við vorum dugleg að gera eitthvað skemmtilegt um síðustu helgi.  Á laugardeginum drifum við okkur í heimsókn til Margrétar og Bjarna bróður Hauks  í sæluríkið þeirra við Meðalfellsvatn. Þar hafa þau komið sér upp svo fallegum gróðri, bæði trjám og blómum.
Veðrið var yndislegt og eftir að hafa rölt um landareignina og dáðst að gróðrinum og útsýninu yfir Meðalfellsvatnið, þá drukkum við kaffi úti á pallinum hjá þeim.

Hér hefur Bjarni útbúið í gömlum stíl hús undir geymslu garðverkfæra og þess háttar.

steinholt1.jpg

Hér sitja þau hjónin á bekk sem Bjarni bjó til úr trjábolum af Ösp
sem Haukur lét fella þegar hann bjó í Hafnarfirðinum og gaf bróður sínum.

steinholt2.jpg

 hér eru fleiri myndir úr heimsókninni til Bjarna og Margrétar.

Um kvöldið, eftir að við komum heim og höfðum grillað okkur kvöldmatinn hérna á svölunum hjá okkur, þá skelltum við okkur til Keflavíkur á harmonikuball Þetta var lokaball mikillar harmonikuhátíðar sem hafði verið þar frá fimmtudegi. Ég dreif mig í dansinn með hálfum huga, hrædd um að bakið færi allt í skrall aftur, en við tókum þessu bara mátulega rólega og allt gekk vel enda er ég byrjuð að styrkja bakið með æfingum hérna í líkamsræktarstöðinni. Ja, ég er alla vega búin að fara tvisvar og nýt í botn frábæru aðstöðunnar hérna og nuddpottanna á eftir.

Ekki er nú allt upptalið þessa helgina því á sunnudaginn fórum við í bráðskemmtilega fjölskylduferð út í náttúruna. Vegalengdin sem við ókum var ekki lengri en svo að aðeins tók 10 mínútur að komast á áfangastaðinn sem var  Guðmundarlundur, fallegt skógræktarsvæði sem Skógræktarfélag Kópavogs á og rekur hérna rétt utan við bæinn.  Við fórum auðvitað bæði með góða skapið og nesti og nutum þess að vera þarna og litlu krakkarnir gátu valsað um og leikið sér án þess að vera nokkur hætta búin. Það vantaði bara elstu barnabörnin en þau voru með pabba sínum á Egilsstöðum.

Hér erum við búin að raða öllu nestinu í kringum okkur
á eitt af  fínu borðum sem þarna eru. 

gudmund1.jpg

Gaman, gaman!

Eins og hér má sjá þá urðu dæturnar mínar aftur að litlum stelpum á róló

gudmund2.jpg

Hér eru fleiri myndir úr Guðmundarlundi.

Ég læt hér staðar numið þó ég eigi alveg  eftir að segja frá ferðalagi sem við fórum á mánudaginn. En það bíður bara betri tíma því  ég vil ekki hafa færsluna of langa.

Við höldum bara áfram að láta okkur finnast lífið gott og skemmtilegt og njótum þess.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Svo mikið að gera.

  1. Anna Bj. says:

    En skemmtilegt, þið kunnið aldeilis að lifa lífinu. Þarf að fá hjá þér hvar þessi Guðm. lundur er. B.k. Anna.

  2. Katla says:

    Mér sýnist ekki bara svo mikið að gera hjá þér heldur svo mikið skemmtilegt að gera hjá þér : ) Gaman fyrir ykkur fjölskylduna að vera öll komin svona nálægt hvort öðru og greinilegt að þið njótið þess.
    Eigðu góða helgi Ragna með kærri kveðju frá Kötlunni.

  3. Ragna says:

    Anna mín, ég skal með ánægju skreppa með þér og sýna þér staðinn. Hafðu bara samband.

Skildu eftir svar