Litli spekingurinn.

Hann litli nafni minn sem varð tveggja ára í lok mars, er alveg ótrúlegur spekingur og maður er oft gáttaður á því hverju hann er að velta vöngum yfir.

Þegar við vorum með þeim úti í Danmörku sagði pabbi hans mér,  að einu sinni sem oftar þegar hann undirbjó þann stutta fyrir svefninn og fór með Faðirvorið með honum, þá hafi sá stutti sagt:  " Pabbi, af hverju er matur í Faðirvorinu? "  Ha, matur?" spyr pabbinn.  "Já, daglegt brauð", og eftir andartak bætti svo spekingurinn við  "og  mjólk". 
Ekki veit ég hvaðan mjólkin kom en vissulega er talað um vort daglega brauð í faðirvorinu og sjálfsagt hefur honum nafna mínum þótt svo sjálfsagt að mjólkin tilheyrði.

það er svo gaman þegar börnin verða svona snemma altalandi því þá veit maður hvað þau eru að hugsa og það er sko margt sem hrærist í þessum litlu yndislegu kollum.

Hér eru yngstu ömmubörnin mín að spá og spekúlera.
Ragnar  hefur líklega ekki verið í vandræðum með að segja henni Rögnu Björk 
frænku sinni, sem er árinu yngri, eitthvað um bílinn á veggnum. Drengurinn er nefnilega
með algjöra bíladellu og verður að fá að vita hvað allir bílar sem hann sér heita.

spekingar.jpg

Góða helgi.
Gleymum ekki að vera þakklát
fyrir börnin okkar, barnabörnin og tengdabörnin
og fyrir allt það góða fólk, sem okkur hefur borið gæfa til að
kynnast á lífsleiðinni. Ég sendi ykkur öllum knús.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Litli spekingurinn.

  1. Svanfríður says:

    Já-faðirvorið hefur verið uppspretta margra spurninga og einnig verið farið rangt með-ég minni á „einnig set ég ost í frysti“:)
    ÉG knúsa þig á móti.

  2. Svanfríður says:

    Úpps
    Þetta átti nú að vera: eigi geym þú ost í frysti:)…auðmjúk bið ég fyrirgefningar.

  3. Ragna says:

    Ha,ha,ha Svanfríður mín. Það sem ég er búin að velta vöngum yfir þessu.

  4. afi says:

    Það sem allt snýst um.
    Satt segirðu Ragna, hvernig er hægt að gleyma því sem allt snýst um? Barnabörn, börn og teingdabörn. Nú þessa stundina eru þrír drengir í ömmubæ. Sá yngsti verður tveggja ára 25,7. og er nær al talandi. Tvíburarnir hafa gaman af þegar sá stutti reynir að segja Guðmundur. góða helgi.

  5. blessuð börnin..
    Einn sem ég veit um hafði áhyggjur af „vorum skulduNAUTUM“. Hélt það hlyti að vera nautin hjá honum Sigfinni, því þau voru ekki á hans bæ!!! Kær kveðja í bæinn

Skildu eftir svar