Hversdagurinn.

Það rignir í dag, rigndi í gær og rignir víst enn á morgun. En það angrar mig bara ekkert þó það rigni þessa vikuna því við höfum verið svo heppin með veðrið undanfarið að það er óþarfi að kvarta þó við fáum nokkurra daga rigningu. Ef rigningin fer hinsvegar að gera sig heimakomna hér, kannski fram í næstu viku, þá  stendur ekki á mér að kvarta. 

Það er fróðlegt að sjá hvað allt breytist þegar það skiptir úr sólinni í rigninguna. Í sólinni undanfarið hefur verið svo mikið líf hvert sem litið er. Börn úti að hoppa parís, sippa, leika listir sínar á brettum eða í boltaleikjum. Unglingarnir í vinnuskólanum að snyrta og snurfusa.  Ungar mæður að spássera með ungana sína. Heimilisfeður að þvo og pússa bílana sína eða slá garðinn. Svo þegar ég horfi út um eldhúsgluggann minn, að sjá golfarana arka um með kylfur sínar og kúlur á golfvellinum. Þeir eru misvel útbúnir, allt frá því að draga litla vagna á eftir sér, eða koma akandi í fínum golfbílum. Svo má ekki gleyma hestamönnunum sem oft eru á ferðinni auk annarra sem eru að fá sér göngutúr í góða veðrinu. Oft liggur leið þeirra hérna niður stíginn að sundlauginni.

Svo koma dagar eins og í gær og í dag.  Þá færast algjör rólegheit yfir alltsaman.  Nú dunda börnin sér innivið. Unglingana hef ég heldur ekkert séð. Ungu mæðurnar eru kannski að taka til hendinni heimavið eða hafa skroppið akandi í Smáralindina eða Kringluna. Bílarnir standa fyrir utan rennblautir og eigendurnir líklega innivið að lesa í bók , fara í tölvuna eða kannski að spila á harmoniku. Golfararnir eru líklega bara rólegir í vinnunni og hafa ekkert þurft að taka sér frí í dag til þess að fara í golfið. Knaparnir nota kannski daginn til þess að hreinsa til í hesthúsunum eða dytta eitthvað að og hestarnir fá smá hvíld.  Það eina sem ekki breytist er, að það sést alltaf fólk á leið í sundlaugina.

Ég skrapp í morgun í Ásakórinn til þess að vera með barnabörnunum á meðan Guðbjörg skrapp í líkamsræktina. Það er svo langt síðan ég hef verið með stóru krökkunum því þau hafa verið fyrir austan um tíma. Ég var sko verulega farin að sakna þeirra.

Nú er ég hér heima í letikasti og nýt þess að setjast aðeins við tölvuna og láta hugann reika um allt og ekkert. það er svo nauðsynlegt stundum.

Allt í einu langar mig svo í einn bolla af sterku eðalkaffi. Best að láta það eftir sér og athuga í leiðinni hvort Haukur, sem hefur verið að tala í símann,  hefur eitthvað sérstakt í huga til þess að gera í dag.  Hvílík afslöppun.

Bókin um hamingjuna er fundin aftur eftir flutninginn
Þar fann ég þennan texta:

Lífið er fullt af valkostum!
Hamingjan felst í stöðugum
þroska og að læra alltaf eitthvað
nýtt um sjálfan sig, um aðra og um
hversdagslegt umhverfi sitt.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Hversdagurinn.

  1. Svanfríður says:

    Svona rigningardagar eru samt svo yndislegir af og til og ljúft að lesa lýsinguna þína. Hafðu það gott með rjúkandi gott kaffi við hönd.

Skildu eftir svar