Ég býð nýja árið velkomið.

Gleðilegt ár.


Þá eru áramótin afstaðin og spennandi að sjá hvað gerist á nýja árinu. Gærkvöldið var svona hefðbundið hjá okkur. Góður matur og ágætt skaup. Það varð ekkert af áramótabrennunni hérna. Við vorum búin að galla okkur upp í hverja flíkina yfir aðra svo okkur yrði nú ekki kalt en viti menn það var svo hvasst að það varð að aflýsa brennunni og öllum herlegheitunum. Um miðnættið var kominn skafbylur og varla hægt að vera úti. Haukur hafði það samt af að skóta upp flugeldunum og tertunni við ómælda hrifningu Odds sem var nú búinn að sjá margan flottan flugeldinn út um gluggann en „afa var flottastur“. Hann skaust reyndar svo hátt yfir húsið að hvorki ég né Oddur sáum hann en „afa var samt flottastur“. Dagurinn í dag hefur verið rólegur og góður eins og nýjarsdagar eiga að vera. Sigurrós og Jói fóru til Guðbjargar nokkru eftir hádegið og fóru síðan aftur til borgarinnar síðdegis í dag. Guðbjörg kom svo með krakkana og þau borðuðu með okkur í kvöld. Síðan höfum við gömlu hjúin setið og horft á sjónvarpið. Það er fín myndin „Billy Elliot“ sem var á RUV í kvöld. Ég nennti nú ekki að horfa á seinni myndina og ákvað að setja heldur nokkrar línur í dagbókina mína. Svona til að byrja árið vel. Ætli þetta verði ekki eins og hjá þeim sem kaupa sér líkamsræktarkort og fara tvisvar þrisvar í janúar og svo ekki meira. En ég byrja alla vega árið með fögrum fyrirheitum. Ég hef líka fyrirheit um að koma sólarhringnum á réttan kjöl aftur og að lifa á fiski og vatni næstu daga og jafnvel vikur. Það verður fínt að koma sér frá því að vera með þennan endalausa margréttaða veislumat og sætindi. Ég er búin að taka úr frysti lúðu sem okkur var gefin í desember og ég hlakka mikið til að borða hana á morgun og drekka mikið af íslensku vatni með.


Jæja klukkan er orðin hálf eitt og af því að eitt af fyrirheitum mínum í nótt var að koma sólarhringnum og svefninum í samt lag eftir hátíðirnar þá ætla ég ekki að sitja lengur við skriftir (góð afsökun til að skrifa ekki meira).


Ég býð því góða nótt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Ég býð nýja árið velkomið.

  1. Gleðilegt ár!
    Gott að „heyra“ frá þér aftur. Farðu vel með þig og bestu kveðjur til fjölskyldunnar. Meðan ég man einn frændi þinn Ragnar (man ekki hvers son) syngur með mér í kirkjukór Óháða safnaðarin. Hann syngur reyndar líka í karlakór Reykjavíkur og hefur gert það lengi! Kveðja, Anna Sigga

Skildu eftir svar