Bland í poka.

Já það fer ekkert á milli mála að skólarnir eru að hefja vetrarstarfið. Það er þröng á þingi í ritfangaverslunum og kennararnir farnir að vinna undirbúningsvinnuna svo allt verði tilbúið þegar námsfólkið mætir til þess að auka við visku sína og færni.

Ekki fer ég nú í skóla sjálf, held bara áfram í skóla lífsins og læt mér duga að nota tölvuna mína til þess að halda mér í sæmilega ritfæru formi og vera í sambandi við lífið þarna úti, út um alla heima og geima, svo nota ég bara MP3 tæknina til þess að halda við erlendu málunum, þeim fáu sem ég kann,  með því að láta lesa fyrir mig.  

Nú er ég samt sem áður komin með tímabundið verkefni sem tengist skólanum. Það vill nefnilega svo til að kennarar geta ekki mætt til starfa með litlu börnin sín með sér og þegar ekkert bólar á leikskólaplássi fyrir slíkan aldurshóp þá kemur til kasta ömmu að bjarga málunum því  kennarinn verður nefnilega að geta mætt til vinnu í skólann sinn.  Pabbi er bundinn í sinni vinnu svo Ragnar Fannberg verður því með ömmu fyrst um sinn á meðan beðið er eftir tilkynningu um að hann komist inn í leikskólann. Þegar litli snúðurinn flutti í Kópavoginn þá var hann nýbyrjaður í leikskóla á Selfossi þar sem hann var svo ánægður með lífið.
Nú horfir þessi elska löngunaraugum út um gluggann heima hjá sér og bendir á leikskólann sem hann á að fara í. Vonandi verður það sem fyrst svo hann komist til þess að leika við krakkana og göslast úti.

Ragna Björk er svo heppin að pabbi hennar geymdi nánast allt sumarleyfið sitt til þess að brúa bilið og vera  heima með henni svo mamma, sem nú fer aftur til starfa eftir eins árs barneignaleyfi,  komist í skólann sinn. Síðan tekur dagmamma við í september og svo hinn langþráði leikskóli, vonandi seinna í haust. 

Já svona er nú dagskráin hjá okkur á næstunni.

Í dag skruppum við til Sigurrósar og Jóa, sem voru með vöfflukaffi fyrir fjölskyldur þeirra beggja. Annars höfum við verið í mestu rólegheitum um helgina. Það liggur við að það sé tilbreyting að ekki skuli vera sól og hiti því þá kemur yfir mann svo mikið flökkueðli og alltaf þarf að vera eitthvað á ferðinni til þess að "vera ekki heima í svona góðu veðri" eins og Haukur segir. Ég hef því notið þess að dunda mér í tölvunni, klára smávegis saumaskap sem ég var með og bara dúllast. Stundum er það alveg nauðsynlegt.

Á morgun verður svo nóg að gera. Fara með bílinn á réttingarverkstæði til þess að laga beyglu sem ég hef ekki hugmynd um hvernig hefur komið aftan á bílinn, passa Ragnar Fannberg og hitta gigtarlækninn. Gott að vera ekki með alveg auða dagskrá.

Ég hélt að ég fengi einhverja flotta speki í bókinni góðu með 1000 ástæðum hamingju og gleði. Það sem ég fletti upp á að þessu sinni er heldur seint á ferðinni, en það má ekki svindla á uppflettingunni svo ég læt það flakka.

Sittu rólegur, gerðu ekkert,
vorið kemur og grasið grær af sjálfu sér.

Kær kveðja úr Kópavoginum,

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Bland í poka.

  1. Þetta er allt skemmtilegt – vetur, sumar, vor og haust, bara að muna að njóta þess alls: )
    Ragnar Fannberg er í góðum höndum hjá ömmu en vonandi verður leikskólabiðin þó ekki löng.
    Kær kveða í Kópavoginn: )

Skildu eftir svar