Þá vitum við það í eitt skipti fyrir öll að

"Ísland er ekki llítið land. Það stórasta land í heimi."
Það var yndislegt að heyra hana Dorrit segja þetta beint frá hjartanu í sæluvímunni sem fylgdi því að handboltastrákarnir okkar unnu leikinn í dag og stefna nú á silfur eða gull á Olympíuleikunum.
Ég var bara hálf skúffuð þegar hún var að gera tilraun til að faðma bónda sinn og hann varð bara vandræðalegur í stað þess að lyfta henni upp og dansa með hana í hring. Hún hefði sko átt það skilið.

Já á Íslandi í dag voru allir sem einn í sigurvímu.  Eða ætti ég frekar að segja allir nema einn, því í Kastljósið kom í spjall auk menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar, Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður. Vitanlega fór Kastljósið nánast allt í að tala um handboltaleikinn, sem  Kolbrún hafði hvorki séð né haft áhuga á. Það fór ekki fram hjá manni að hún var fúl yfir því að fá ekki að tala um borgarmálin og dagbókarfærslur Matthíasar fyrrum ritstjóra Moggans, eins og hún hafði ætlað sér. En, hver hefur nú áhuga á slíku á svona degi.

Í dag þegar ég var á leið niður í lyftunni í Ásakórnum, þá kom einnig í lyftuna nágranni Guðbjargar, maður sem ég hvorki þekki né hef séð. Um leið og hann kom inn í lyftuna þá var það fyrsta sem hann sagði. "Til hamingju með daginn". " Takk fyrir" sagði ég og var fyrst hugsað til ömmustubbsins, en fór um leið að spá í það hvernig hann vissi að Oddur Vilberg ætti afmæli í dag. En hamingjuóskin skýrðist andartaki síðar þegar hann sagði "Alveg voru þeir frábærir strákarnir".  Vitanlega var hann að tala um handboltasigurinn og ég sagðist vera honum svo hjartanlega sammála. 

Við Karlotta og Oddur Vilberg horfðum saman á leikinn í dag á meðan Ragnar fékk sér miðdegislúrinn. Karlotta var eins og amma, alveg að missa sig í spenningnum, en Oddur Vilberg sýndi meiri stillingu og sagði oftar en einu sinni " Það má ekki hoppa svona því þá heyrist svo mikið niður til mömmu hans Sólonar vinar míns" . Ja hérna, snerist nú málið við og barnið farið að sussa á ömmuna.   

Það verður líklega hoppað á sunnudaginn þegar úrslitin fara fram. Eins gott að muna eftir blóðþrýstingslyfjunum og útvega sér kannski eitthvað róandi líka.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Þá vitum við það í eitt skipti fyrir öll að

  1. Sigurrós says:

    Leikurinn var sýndur á stórum skjá á kennarastofunni, Linda frænka dreifði íslenska fánanum meðal kennaranna og svo var hrópað og kallað! 🙂 Skildist á Guðbjörgu að það hefði verið álíka fjör í Hörðuvallaskóla.

  2. Ragna says:

    Já vitanlega á að vera fjör. Það er búið að vera nóg af drungalegri pólitík undanfarið og sjálfsagt að grípa tækifærið til þess að fagna og vera glöð.

  3. Þú ert….
    Þú ert engri lík frú Ragna. Áfram Ísland! Gull-eða silfurkveðja í bæinn.

  4. þórunn says:

    Ég er bara fúl útí sjálfa mig að hafa ekki fylgst nógu vel með hvað er að gerast hjá „strákunum okkar“ og missa af þessum leik, það er virkilega gaman að lesa um viðbrögðin hjá ungum sem öldnum. Ég ætla sko ekki að missa af leiknum á morgun ef ég finn útsendingu í sjónvarpinu í Austurkoti. Til hamingju með daginn, hvort sem það verður gull eða silfur.
    Baráttukveðja,

    Þórunn

Skildu eftir svar