Létum letina ekki hafa vinninginn.

Við höfum verið að bíða eftir að dansinn byrjaði aftur í Stangarhylnum, en þar er dansað á sunnudagskvöldum. Nú erum við komin á höfuðborgarsvæðið aftur og engin afsökun að fara ekki í dansinn svo framarlega sem maður getur á annað borð gengið. 

Eftir matinn í kvöld vorum við bæði alveg ferlega löt og hvorugt í stuði að fara í dansinn. Haukur var sestur fyrir framan sjónvarpið að horfa á fréttirnar, en ég var ákveðin í að láta það ekki eftir mér að vera ekki í neinu stuði til að fara því við höfum haft stór orð um að nota okkur að fara í dansinn.

Ég fór því í þetta venjulega, að finna út í hverju ég ætti að fara og sparsla einhverju í andlitið á mér.  Allan tímann var ég að spá í að setjast bara hjá Hauki og fara hvergi.  Þegar hann hinsvegar sá mig komna í sparidressið og dansskóna þá hífði hann sig upp úr stólnum og skipti um föt og við mættum í dansinn um áttaleytið – hvorugt í neinu dansstuði.

En það hlýtur að vera dauður maður sem ekki kemst í dansstuð við tóna harmonikunnar þegar hún er þanin svo polkar, rælar og valsar hljóma um salinn. Við vorum því fljót að taka við okkur.  Ég verð reyndar að fara varlega þar sem ég er enn ekki alveg góð eftir brjósklosið, en ég er orðin mikið betri . Ég verð bara að passa mig að missa mig ekki alveg í snúningunum, og setjast niður öðru hvoru.  Venjan hjá okkur var nefnilega sú að mæta og dansa hvern einasta dans, en það var nú fyrir 18 árum sem við vorum svo spræk.

Nú er ég bara aðeins að ná mér niður, búin að gera teygjuæfingarnar og fá mér ristað brauð með lifrarkæfu og sit svo hér í rökkrinu og pára smá klausu á síðuna mína. Vitanlegal hefur ekki nokkur sála áhuga á að lesa þetta pár, en það er annað mál. Þetta er dagbókin mín sem er auðvitað fyrst og fremst páruð fyrir sjálfa mig, þó ég neiti því ekki að ég hef alltaf mjög gaman af að fá heimsóknir hingað.

Nú er mál að koma sér í rúmið svo amman vakni nú í fyrramálið til þess að passa litla snúð.

Góða nótt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Létum letina ekki hafa vinninginn.

  1. Katla says:

    Gott hjá ykkur að láta letina ekki stjórna ferðinni – er svo gaman þegar maður hífir sig upp og gerir e-ð skemmtilegt!
    Kveða til þín gegnum dagbókina sem ég kíki á nánast á hverjum degi: )

  2. Sigurrós says:

    Ha? Ristað brauð með lifrarkæfu? En það er ekki rétti „eftir-dans-maturinn“ ykkar… Sú var tíðin að þið fenguð ykkur alltaf flatkökur með hangikjöti þegar þið komuð heim úr dansinum, það man ég sko alveg frá því hérna í den! 🙂

  3. Mamma svarar says:

    Já Sigurrós mín þetta er mikið rétt hjá þér. Nú var Haukur bara ekkert svangur bara ég svo ég valdi ristaða brauðið og lifrarkæfuna. Hangikjöt ku nefnilega ekki vera gott fyrir þá sem hafa of háan blóðþrýsting.

  4. Katla says:

    Mæli með því að næst smakkið þið lifrakæfu og hangikjöt ofan á hvort heldur flatköku eða brauð. Mér finnst altjént gaman að hrúga sem mestu saman og vita hver útkoman verður.
    Kær kv.

Skildu eftir svar