Öðruvísi dagur.

Ég hef haft í ýmsu að snúast undanfarið og það hefur alltaf beðið mín eitthvert verkefni að morgni og ég verið lítið heima. Nú bregður hinsvegar svo við að dagurinn er ekki eingöngu óskrifað blað, heldur er ég ein í kotinu og verð næstu daga. Haukur lagði af stað eldsnemma í morgun ásamt tveimur systkinum sínum austur á Egilsstaði, til þess að vera þar hjá móður þeirra sem liggur mikið veik á sjúkrahúsinu.

Klukkan er bara um átta og ég sit við stóra gluggann í eldhúsinu, regnið bylur á glugganum þessa stundina.  Yfir Reykjanesinu virðist þó vera ljósrönd á himni og það örlar fyrir bláum götum hingað og þangað í annars dökk og þung skýin.  Þessi bláu göt eru þau sem ég ætla að horfa á í þeirri von að þau stækki en svörtu skýin hverfi. Það er ótrúlega fallegt að horfa yfir á golfvöllinn sem er svo fallega grænn í morgunskímunni, enginn er þó á ferli þar í rigningunni. Hinsvegar horfi ég yfir að skólanum og þangað streymna börn úr öllum áttum. Mörg eru í marglitum regngöllum og vaðstígvélum, greinilega þau yngstu, en töffararnir eru sumir hverjir ótrúlega léttklæddir og alls ekki í stígvélum því auðvitað verður að halda "kúlinu".

Bara á meðan ég hef setið hér og pikkað þetta inn, kíkt aðeins á Moggann og fengið  mér kaffibolla, þá hafa bláu götin stækkað á himninum og það hefur stytt upp. Líklega verður þetta bara skúraveður í dag.

Mér kemur í hug frásögn sem ég heyrði fyrir mörgum árum af tveimur föngum, sem stóðu eitt kvöldið við rimlana á klefanum sínum.  Annar leit út og sagði að það væri allt kolsvart þarna úti. Þá  leit hinn út og  hrópaði upp yfir sig  "Sérðu ekki allar fallegu stjörnurnar". 
Það eru alltaf ljósir punktar til þess að horfa á.

Þegar byrjað er að auglýsa jólahlaðborðin þá smitast maður auðvitað, og það er kannski ekki úr vegi að fara að huga að jólakortagerðinni.  Ég set það sem sé efst á blað að skreppa og athuga með efni í kortin. Það er ágætt að dunda sér við að útbúa þau á meðan Haukur er í burtu.

Svo man ég að það er kominn 15. september, en þá á hann Loftur Þór mágur minn afmæli. Nú hringi ég til hans og syng fyrir hann afmælissönginn – hvort sem honum líkar söngurinn betur eða verr.

Til hamingju Loftur minn með afmælið þitt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Öðruvísi dagur.

  1. Anna Sigga says:

    Rólegheit
    Góð færsla hjá þér, Ragna mín! Það er annars aldrei of snemmt að byrja á að föndra jólakortin. Eitt árið byrjuðum við vinkona mín að klippa út þrívíddarmyndir í júní og einu sinni var ég byrjuð að sauma út jólakort í janúar… (það er nú kannski einum of snemmt… ;))

  2. Sigurrós says:

    Það er aldrei of snemmt 🙂 ef kortin eru tilbúin í janúar þá er bara meiri tími til að hafa það huggulegt í desember 😉

  3. þórunn says:

    Góð hugmynd
    Þetta var góð hugmynd hjá þér Ragna mín að byrja að huga að kortgerð, ég held að ég geri þetta líka því það verður ekki mikið um föndur hjá mér í október.
    Bestu kveðjur,
    Þórunn

Skildu eftir svar