Eddudagar.

Ég ákvað að gera mér dagamun í gær og fara í heimsókn á Selfoss.  Systir mín tók á móti mér af sínum alkunna myndarskap,  bollur að bakast í ofninum og tilbúin terta til að hafa með kaffinu.  Ég var að uppgötva að ég hef ekki komið í heimsókn í Sóltúnið síðan ég flutti þaðan, þó við séum nú búnar að hittast síðan.  Þegar ég ók framhjá númer 29, stóð nýi eigandinn þar fyrir utan og vinkaði mér. Ég var ánægð að sjá að þar er allt svo snyrtilegt og fínt og gróðurinn sem við potuðum niður á sínum tíma ræktarlegur og fallegur. Af því að garðurinn þar er nú sköpunarverk mitt og pallurinn sömuleiðis (þ.e. hönnunin), þá er ég svo glöð að sjá hvað nýju íbúarnir hugsa vel um þetta allt. 

Eftir að hafa veri í góðu yfirlæti og spjallað við systur mína og heilsað upp á Jón mág minn,  sem var með enn eitt fallega málverkið í sköpun á trönunum hjá sér, þá skruppum við systur í heimsókn til Selmu dóttur þeirra. þar voru allir heima og alltaf jafn skemmtilegt að koma til þeirra. 
Þar sem hún er jafn myndarleg og mamma hennar og Jói maðurinn hennar er þar að auki bakari,  þá beið annað borð með tertum og fíneríi, svo það var ekki lagt af í gær svo mikið er víst, enda ferðin ekki farin til þess.

Eftir velheppnaða Selfossferð ók ég svo í roki og rigningu aftur í Kópavoginn þar sem allt er mjög tómlegt núna á meðan Haukur er austur á landi.  Ég var svona í bland að potast eitthvað við jólakortin og kíkja á sjónvarpið í gærkveldi.

Í dag er hinsvegar Eddudagur númer tvö því að við síungu gömlu vinkonurnar vorum búnar að ákveða að hittast í dag. Okkur datt það snjallræði í hug að skreppa í morgunmatinn í IKEA. Það lá nú reyndar við að morgunmaturinn yrði fram að kaffitíma því við, eins og alltaf þegar við hittumst, gleymdum okkur auðvitað alveg og áttuðum okkur svo allt í einu á því að við vorum búnar að sitja í morgunmatnum frá klukkan hálf ellefu til klukkan að ganga eitt.  Þá drifum við okkur nú frá borðinu og röltum aðeins um búðina áður en við fórum heim. Ég kom reyndar ekki heim fyrr en að ganga fjögur því ekki var við annað komandi en að kíkja aðeins inn og fá annan kaffisopa hjá Eddu í Garðabænum. Ég segi það enn og segi það aftur, því góð vísa er aldrei of oft kveðin, að það jafnast fátt á við það að eiga svona góða æskuvinkonu.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Eddudagar.

  1. Katla says:

    Maður er lánsamur að eiga þó ekki sé nema ein góð vinkona, og góð æskuvinkona er gersemi!
    En gaman þú skyldir eiga góðann gærdag með Eddu systur, akkúrat þegar ég malla súpuna hennar um kvöldið: )
    Njóttu þess bara að dunda þér ein í kotinu, þó vissulega sé alltaf notalegra að hafa betri helminginn hjá sér: )

  2. Hildur says:

    forvitni
    sæl ég hef lesið bloggið þitt ansi lengi, mig langar að fá meilið hjá þér því ég er í bý til öll mín kort hvort sem það erun jólakort eða tækifæriskort. Langar svona að heyra frá þér hvernig þú hanterar þín. kv Hildur

Skildu eftir svar