Ástæða þess að Haukur er fyrir austan ennþá.

Já, Haukur er enn austur á landi og verður líklega næstu viku.  Hann fór til að vera hjá móður sinni sem var mikið veik á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum, en hún lést tveimur sólarhringum síðar.  Það er því í mörgu að snúast hjá þeim systkinunum sem öll eru komin austur og ætluðu að hittast á bernskuheimilinu í Steinholti á Borgarfirði eystra núna um helgina, en Haukur er einn af átta systkinum.

Hún Sigríður Eyjólfsdóttir var merkileg kona og það hefði verið svo gaman að geta kynnst henni betur á heimilinu hennar á Borgarfirði, en hún missti heilsuna og hefur verið á sjúkradeild á Egilsstöðum í allmörg ár.

Hún var hafsjór af fróðleik um allt sem Borgarfirði eystra viðkom og hafði í mörg ár leitað uppi  og safnað saman gögnum og gömlum frásögnum  um sögu staðarins og sögum af álfum og  huldufólki  sem tengjast svo sterkt þessum fallega stað. Hún hafði líka safnað saman og handskrifað í bók texta við íslensk sönglög, bæði þjóðlög og dægurlög.  Hún var hinsvegar mjög lítillát kona hún Sigríður eins og svo margar hvunndagshetjurnar okkar frá síðustu öld, sem ólu upp barnaskara og sáu um að allir hefðu fæði og klæði þó oft yrði að bæta nótt við dag til að komast yfir allt sem gera þurfti.

Það hefur verið mikil menning á Borgarfirði þó að íbúarnir hafi ekki talist margir, en þeir voru um 200 þegar ég kom fyrst með Hauki austur.  En þar hafa verið samin mörg falleg lög textar auk þess sem leiklistarlíf var með miklum blóma.

Nokkrum árum eftir að ég kynntist Hauki þá settu þær systur, hún og Kristín, sem einnig býr á Borgarfirði, upp leikritið Álfaborgina, sem sýnt var fyrir fullu húsi á mörgum sýningum í Félagsheimilinu á Borgarfirði og á Egilsstöðum.  Leikritið lýsti því svo vel hvernig lífið var á Borgarfirði eystra á fyrri hluta síðustu aldar og jafrnvel fyrr, og hvað huldufólks- og álfasögurnar (smellið til að sjá nokkrar af sögunum, fléttuðust sterkt inn í líf fólksins, sem hafði jú sögusviðið, Álfaborgina,  fyrir augunum dag hvern. Mér er þetta leikrit mjög minnisstætt og sagan, persónulýsingin og leikurinn var allt svo vel útfært.  Svo var leikritið auk þess að vera fróðlegt, alveg bráðskemmtilegt.

Borgarfjörður eystra hefur verið mjög afskekktur og erfiðar samgöngur á árunum áður og í miklum veðrum var kannski svo dögum skipti engum fært þangað  nema þá kannski fuglinum fljúgandi. Það hefur því verið svona baðstofumenning í þorpinu á þessum árum, þar sem fólk skemmti sér við sögur, söng og dans. Enda flestir hagmæltir og spiluðu á hljóðfæri.

Þetta er nú svona brot af því sem flaug í gegnum hugann í vikunni þegar ég heyrði að gamla konan væri öll.  Ég vildi hinsvegar ekki birta þetta fyrr en nú þegar búið er að auglýsa andlát hennar, því ekki hafði náðst til nánustu ættingja sem eru erlendis og ekki verið hægt að ná í símasambandi við.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Ástæða þess að Haukur er fyrir austan ennþá.

  1. þórunn says:

    Ragna mín, ég sendi ykkur Hauki samúðarkveðjur, mikið er falleg lýsingin á þessari „hvunndagshetju“ eins og þú kallar hana. Það er sárt þegar ástvinir kveðja en stundum sjáum við að það er lausn fyrir þá sem hafa lifað langa æfi og eru þrotnir að kröftum.
    Bestu kveðjur frá okkur Palla,
    Þórunn

  2. jens says:

    Sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur

  3. Já Ragna mín, Borgarfjörður eystri er falleg byggð, þar býr gott fólk og þangað er gott að koma. Ég votta ykkur samúð. Ef þið eigið leið um þá er kaffi á könnunni. Kær kveðja í bæinn.

  4. Björk says:

    Innilegar samúðarkveðjur til ykkar frá okkur í Hraunbænum. Bestu kveðjur Björk, Teddi og Kári

Skildu eftir svar