Ferðin austur.

Ég  flaug austur á miðvikudagskvöldið. Haukur og Margrét systir hans biðu mín á flugvellinum. Eftir viðkomu á sjúkrahúsinu ókum við Haukur síðan á eftir líkbílnum í átt til Borgarfjarðar.  Náttúran skartaði sínum fegurstu haustlitum og lágir sólargeislarnir sleiktu fjallstoppana. Mér fannst alla leiðina ég finna fyrir nálægð gömlu konunnar og ég var að hugsa um það hvað almættið visaði henni veginn á fallegan hátt í síðustu ferðinni á Borgarfjörð. Þegar við komum efst í fjallið við Njarðvíkina þá blöstu Dyrfjöllin við. Þau eru þarna svo nálæg, voru dökk á lit í ljósaskiptunum, en efsti hlutinn var hinsvegar upplýstur rauðgullinni birtu þar sem sólin náði að lýsa upp efsta klettabeltið. Ég var klökk af þessum hughrifum þar sem við ókum á eftir líkbílnum niður bratt fjallið með yndislega haustlitina á báða vegu við veginn og út alla Njarðvíkina þar til Borgarfjörður blasti við handan skriðanna.
Ég man ekki eftir því fyrr að enginn bíll færi framúr á leiðinni og enginn bíll kæmi á móti. Það voru bara þessir tveir bílar sem óku leiðina að þessu sinni.

Myndavélin var í tösku aftur í bílnum svo ég verð að geyma þessa mynd í huga mér, enda veit ég ekki hvort ég hefði haft rænu á að taka mynd þó vélin hefði verið nálæg.

Morguninn eftir var greinilegt að það hafði rignt um nóttina og það leit ekkert sérstaklega vel út með veðrið, og það var svolítið hráslagalegt. Það stóð hinsvegar ekki lengi því almættið sá til þess að hún Sigríður fengi það fallegasta veður sem hægt væri að fá að hausti til á Íslandi, til að kveðja ættingja sína, ástvini og heimahagana að loknum ævidegi.

 Nú læt ég nokkrar myndir tala og þið sjáið hvað það er friðsælt og fallegt á Borgarfirði.

 

borgf_jar1.jpg

Takið eftir logninu,  þetta er tekið við félagsheimilið þar sem erfidrykkjan var.

borgf_jar2.jpg

 

Aðrar myndir sem ég tók eru hér.

Ég kom með flugi til baka í gærkveldi en Haukur kemur akandi í dag, með systkinum sínum sem fóru með honum austur.

Hér lýkur umfjöllun minni.

 Eigum öll góðan dag.
og munum að vera góð hvert við annað.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Ferðin austur.

  1. Hún Sigríður hefur valið réttan dag til hinstu hvílu, þvílík fegurð yfir öllu. Skemmtilegt hvernig allt tengist. Ég hef dálítið unnið með lög við texta Jónbjargar. Þekkti Haukur til fjölskyldunnar sem bjó í Laufási? Þannig er að ég á bróður sem er sonur Svanhildar í Laufási. Kær kveðja í bæinn.

  2. Ragna says:

    Já svona er Ísland Guðlaug mín. Haukur þekkir vel til Svanhildar í Laufási, en ekki eins til þeirr sem eru þar í dag. Textarnir hennar Jónbjargar eru svo fallegir og við jarðarförina var t.d. sungið -Ég á mér stað.-

    • Elin says:

      sier:@Monica: hehe, håndarbeid ja;) noe må jeg gjøre:P Tusen takk. Jeg har som du ser setratt smått på en blogg og har egen side for smykkene mine. Så håper det går veien.@Camilla: tusen takk<3@Kari: Værsego' du;) Tusen takk;) Har så smått begynt å selge, er noen smykker som gikk med en gang. Så spennende å se utviklingen;) Tusen takk.

  3. Hulla says:

    Elsku Ragna mín.
    Þakka þér ofsalega mikið fyrir myndirnar og mailið.
    Vildi svo óska að ég hefði getað verið þarna hjá ykkur.
    Gefðu honum pabba mínum risa knús og ég verð í sambandi við ykkur eftir helgi þegar róast aðeins hérna.
    Knús og kossar.

  4. Þuríður Sigurðardóttir says:

    Takk fyrir
    Þar sem ég komst ekki til að vera viðstödd jarðarförina hennar Siggu frænku þótti mér ómetanlegt að sjá þessar myndir. Fjörðurinn okkar hefur kvatt hana í sínum besta skrúða. Takk fyrir Þuríður Sig. frá Skriðubóli

  5. Ragna says:

    Þakka þér fyrir kveðjuna Þuriður. Ég er ánægð að sjá að það hefur komið einhverjum til góða að sjá myndirnar. Ég bið kærlega að heilsa henni mömmu þinni.

  6. Rannveig Erlingsdóttir. says:

    Nokkur orð.
    Kæra Ragna.
    Vildi bara koma að þakklæti til þín eftir að hafa lesið þessar línur.
    Þær eru í alla staði fallega skrifaðar og viðeigandi. Ég veit að ömmu þykir vænt um þetta hjá þér. Það var gaman að hitta ykkur á Borgarfirði og skilaðu kveðju til frænda frá mér.
    Skemmtilegt að skoða síðun þína (búin að setja hana í eftirlæti hjá mér) og ekki spilla uppskriftirnar fyrir.
    Góðar kveðjur, Rannveig á Vopnafirði.

  7. Ragna says:

    Þakka þér kærlega fyrir Rannveig. Mér þykir mjög vænt um þetta innlegg þitt og vertu velkomin hingað í heimsókn hvenær sem er. það er líka alltaf gaman þeger uppskriftirnar koma í góðar þarfir.
    Kær kveðja til þín og þinna.

Skildu eftir svar