Allt á kafi í snjó

Það kom mér svo sem ekki á óvart í morgun að það var bókstaflega allt á kafi í snjó í kringum mig því það benti allt til þess í gærkvöldi. Snjórinn sem kom rétt fyrir áramótin er sko bara smá sýnishorn miðað við hvernig nú lítur út í kringum mig. Ég var með bílinn inni í skúr, sem ég hálf sé eftir því annars hefði alla vega verið autt undir honum á planinu en nú þarf að moka allt bílaplanið. Snjóbræðslan virðist sko ekki ráða neitt við svona fannfergi.


Ég fylltist nú eldmóði í morgun þegar ég vaknaði og ætlaði sko ekki að vera minni en nágrannar mínir sem voru komnir út með skóflurnar sínar. Ég klæddi mig í hverja spjörina yfir aðra, eftir að ég reyrði bakbeltið utanum mig – ég klikkaði nefnilega á því síðast og mundi ekki eftir því fyrr en ég var komin í vinkil. Sem betur fer var hægt að opna útidyrnar og bílskúrinn því þar var smá tiltölulega auð læna en þar fyrir framan er svona 60 cm jafn snjór yfir öllu aðgengi að húsinu. Svo bætti ekki úr skák að ýta fór í morgun og ruddi bara eina akrein eftir götunni svo út við götuna er samanþjappaður meira en metershár kantur. Hvergi er hægt að stoppa eða leggja bíl í götunni nema hjá vösku jeppamönnunum sem eru búnir að moka og troða hjá sér.


Ég ætlaði sem sé að halda merki kvenna á lofti og sýna að kvenfólk geti nú líka spjarað sig. Eftir að vera komin í gallann fór ég að skoða skóflukost heimilisins. Þá kom mér illilega í koll að vera ekki búin að kaupa snjóskóflu sem ég ætlaði þó endilega að gera eftir síðustu snjókomu en var sem sagt ekki búin að framkvæma. Það sem blasti við mér núna var ein stunguskófla og ein eldgömul gróf og slitin malarskófla sem ég tímdi ekki að henda úr búi föður míns. Ég byrjaði á malarskóflunni en hún var svo gróf að snjórinn límdist alltaf fastur við hana. Þá prufaði ég að skola hana og setja matarolíu á hana til að gera hana sleipari (já alltaf að prufa allt). En allt kom fyrir ekki og eftir tvö skófluköst sem gengu vel þá var allt fast aftur. Þá var að ráðast á stunguskófluna. Hún er nýleg og því sleipari og ég náði að róta eitthvað aðeins í kringum mig. Ég ætlaði ekki að gefast upp en þegar aftur var kominn svo mikill bylur að ég sá varla út úr augum þá sá ég að ég yrði að gefast upp, en bara í bili því ég ætla út aftur þegar veðrinu slotar.


Mér finnst verst að geta ekki gefið smáfuglunum. Ég prufaði það þegar ég sá að þeir voru mættir í morgunmatinn og náði að strá korni út um eldhúsgluggann því þeir hafa verið alveg við gluggann hjá mér en veðrið var svo hvasst í hryðjunum að það skóf strax yfir kornið og þeir hreinlega fuku í burtu. Helst vildi ég bara fá þá inn á bílskúrsgólf hjá mér en það er líklega ekki mjög gáfulegt.


Nú bara bíð ég eftir að veðrið lægi svo ég komist út til að moka eitthvað meira. Ég skal, ég skal. 


               ————————————-


Ég vissi að það myndi takast fyrir rest. Það lægði loksins veðrið svo það varð fært út og þá var bara að taka aftur til hendinni og „moka, moka, moka meiri snjó ….“   Nú kemst ég með litla bílinn minn alla leið út á götu. Það hafðist með bakbeltinu,  stunguskóflunni og í lokin kom Jón mágur minn með svaka fína snjóskóflu og kláraði með mér restina. Hann var þá að ljúka við að moka hjá sér og kom til að bjóða mér í kaffi og pönnukökur.  Svo allt er nú gott sem endar vel. Nú er ég komin heim aftur ofsalega ánægð með dagsverkið og full af súrefni eftir útivistina og auðvitað af pönnukökum og kaffi. Er hægt að hugsa sér nokkuð betra.  


Hér lýkur vonandi kaflanum um snjóinn alla vega í bili. Ég ætla bara rétt að vona að í fyrramálið þurfi ekki að byrja upp á nýtt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar