Lasarus.

Það er eins og maður eigi aldrei að ákveða hlutina fyrr en á síðustu stundu og alls ekki að hlakka til einhvers sem í vændum er. Ákveða bara að gera eitthvað með svo til engum fyrirvara þá gengur dæmið yfirleitt upp.   Ég var farin að hlakka til að komast til að dansa um helgina. Eina mannamótið sem ég fór á var hinsvegar að lufsast á læknavaktina.

Já ég fór á læknavaktina seinni partinn í gær, ferlega slöpp með astma og hita. Ég var nú að hugsa um að snúa við í dyrunum þegar ég sá inn í fullan sal af hóstandi og veiku fólki og datt í hug að það væri kannski betra að bera sitt í kyrrþey án læknishjálpar, því Guð mætti vita hvað maður gæti náð sér í á svona stað.

Ég fór þó að borðinu og spurði hvað það væri margra klukkutíma bið.  Þetta er nú ekki eins slæmt og það lítur út fyrir, sagði þá elskulega móttökudaman, það eru í mörgum tilfellum fleiri en einn saman og svo eru læknarnir fjórir sem taka á móti. Ég ákvað því að láta tilleiðast og fann eftir nokkra leit sæti  og tók upp bókina sem ég af mikilli skynsemi sett í verskið mitt. Nei, þetta var ekki bankabók. þetta var spennandi saga eftir Patriciu Cornwell. Ég beið því róleg, reyndi að anda bara með nefinu – ef utanaðkomandi bakteríur síuðust kannski frekar frá með því móti- og las svo í nærri klukkutíma og tíminn var ótrúlega fljótur að líða þannig.

Það er svo skemmst frá því að segja að ég var sett á sterakúr (Prednisolon)við astmanum og blóðþrýstingurinn var mældur og var enn einu sinni allt of hár og púlsinn í 123 í hvíld. Það fannst lækninum nokkuð mikið. Ég fullvissaði hann um að þetta væri ekki af því að ég hefði lent í slagsmálum frammi til að komast fyrr inn, heldur hefði ég setið alveg kyrr og róleg við lestur þar til kallað var á mig.  Kannski var bókin svona spennandi, ég veit ekki hvort það getur haft slík áhrif en þetta er eitthjvað sem ég á að láta athuga frekar.  Var reyndar búin að fara í línurit og eitthvert vesen þegar ég varð svona síðast en ekkert kom út úr því.  Kannski verð ég bara að hætta að lesa bækur eftir Patriciu Cornwell og gá hvort púlsinn og blóðþrýstingurinn lækkar eitthvað við það.

það er hinsvegar af þessu Prednisoloni að segja að ég verð bara ekkert syfjuð þegar ég tek það. Vakti í alla nótt, blundaði síðan svona af og til í þrjá tíma í morgun og er sko ekki orðin vitund syjfjuð núna klukkan að ganga ellefu. Það er hinsvegar verst að verða þreyttur en ekki syfjaður.

Hei,  Hvar er nú jákvæða konan sem hvetur alla til að vera bjartsýna?  Best að gá hvort hún er ekki bara í stólnum mínum hérna inni í stofu. Ég ætla því að fara og hverfa inn í þá jákvæðu.

Verð svo vonandi hressari næst.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Lasarus.

  1. Svanfríður says:

    Vonandi skríður þú saman fljótt og örugglega. Gott hjá þér að muna eftir bókinni þinni, það er ótrúlegt hvað það hjálpar. Hafðu það gott og vonandi heimsækir hann Óli lokbrá þig í nótt. Kveðjur úr Cary,Svanfríður.

  2. Ragna sjálf says:

    Takk Svanfríður mín.
    Viti menn hann Óli Lokbrá kom einmitt að heimsækja mig í nótt og stoppaði bara góða stund. Hann hefur líklega bara alveg gleymt að koma hérna við í fyrrinótt. Þetta sýnir bara að það er alltaf bjartara framundan en maður heldur. 🙂

  3. Ragna mín, þetta er bannað, en vonandi lagast þú fljótt og vel. Hvað veldur þessum þrýstingi? Kær kveðja í bæinn.

  4. Katla says:

    Það er nú örugglega ekki langt í jákvæðnu Rögnuna, en veikindi teljast varla til nokkurar yndisauka. Ég vona þú hressist fljótt!
    Bestu kv.

  5. Hulla says:

    Góðan bata 🙂
    Nú skaltu bara flýta þér að láta þér batna og dunda þér við að reyna að finna út úr feisbúkkinu. Tók mig skelfilega langan tíma og ég er ekki góð en. Finnst margt þarna ansi tilgangslaust 🙂 En ég er búin að finna rosalega mikið af fólki sem ég er ekki búin að heyra neitt af síðustu 20-25 árin 🙂
    Láttu þér batna snúllan mín.

  6. Ragna says:

    Ég er að flýta mér eins og ég get að láta mér batna en er bara ekki nógu fljót. Fer aftur til læknis á morgun til að spá í framhaldið. Kem varla upp orði núna. Flakka bara um Facebook eins og unglingarnir og hef mikið gaman af.

  7. Katla says:

    Ertu á fésinu?!
    Ef svo er – sjáumst: D

Skildu eftir svar