Yndislega fallegur dagur.

Ég sit hérna við stóra eldhúsgluggann minn og horfi yfir fallega hvíta teppið sem máttarvöldin hafa lagt yfir nánasta umhverfið um helgina. Það er alveg heiðskírt og sólin um það bil að gægjast yfir hæðirnar hérna sunnan við. Ég sé að sólin hefur nú þegr náð að lýsa upp Keilinn og sjórinn er svo fallega blár.

Mér er litið hérna niður að skólanum og sé hvað börnin eru hamingjusöm að leika sér í brekkunum.

Allt fjármálaþras og annað þras virðist svo órafjarri á þessum fallega degi og ekkert nema friðsæld sem hvílir yfir öllu.  Kannski er ástæðan sú, að aldrei þessu vant er ég ekki búin að opna fyrir útvarpið, en frá því tæki hefur verið mikið áreiti undanfarið. Kannski er best að hafa það eins og strúturinn og bora bara höfðinu ofaní sandinn og skilja allt heimsins þras eftir fyrir utan.

Hvað sem um það má segja, þá er þetta yndislega fallegur vetrarmorgunn.  Fyrsti virki dagurinn, á þessum vetri sem byrjaði um helgina. Vonandi verður þetta góður vetur þrátt fyrir allt ytra áreiti.  Mér finnst einhvernveginn þegar allt er svona fallegt að það hljóti að vera upphaf að einhverju nýju og fallegu.

Horfum bjartsýn fram á veginn – okkur Íslendingum leggst eitthvað gott til. Ég finn það bara á mér. Trúum því.

Ég læt fylgja hérna tvær myndir, önnur er af heimsókn litlu nöfnu minnar í gær

heimsokn_til_ommu.jpg

 og hin er tekin út um eldhúsgluggann áðan og sýnir skólabörnin.

vetrarmorgunn.jpg

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Yndislega fallegur dagur.

  1. Sigurrós says:

    Það er svo yndislegt að horfa á börnin leika sér. Ég var einmitt að horfa út á leikskólalóðina þar sem litlu strumparnir eru við leik.

    Skemmtilegar myndirnar þínar, eins og alltaf 🙂

  2. Svanfríður says:

    Það eitt að lesa pistilinn þinn færði mér ró. takk fyrir það.

  3. Guðbjörg says:

    Flottar myndir
    Mikið er hún frænka mín nú sæt og fín, alger pæja. Kveðjur í bæinn og vona að heilsan sé að lagast.

  4. Sigrún Sig says:

    Ég er svo innilega sammála þér Svanfriður, bara það eitt að lesa pistlana færir manni ró í upphafi dags.

  5. Ró úti og ró í hjarta er góð samsetning. Kær kveðja í bæinn.

  6. Ragna says:

    Mikið er ég nú hamingjusöm stelpur mínar ef ég get látið ykkur líða vel. Líður okkur ekki bara svo vel af því að við erum góðir vinir og eigum góða vini.
    Kær kveðja og stórt knús til allra sem vilja meðtaka.

  7. Hugrún says:

    uppskriftir
    Mig langar að þakka kærlega fyrir uppskriftirnar hér hjá þér. Googlaði í haust rifsberjahlaup og fékk upp þessa síðu og hef nú gert rifsberjahlaup, kæfu og lummur eftir uppskrifunum þínum. Frábært að fá svona „gamaldags“uppskriftir fyrir okkur sem eru yngri 😉

Skildu eftir svar