Bjartsýni.

Enn einn fallegi dagurinn, sem lætur okkur gleyma öllum leiðindum, hefur nú litið dagsins ljós. Heiðblár vetrarhiminn svo langt sem augað eygir – ekki amalegt það.

Ég er að fara til lungnalæknis í dag og vona að hann finni út úr blóðþrýstingsruglinu og astmanum, sem ekki vill gefa sig. Það er nefnilega tímabært að fara að sigrast á heilsuleysi síðustu vikna og snúa sér að því að gera eitthvað skemmtilegt.

Ég vona allavega að ég fái grænt ljós til að geta farið  seinna í dag með Ásakórsfjölskyldunni í sumarbústað, sem löngu er búið að panta.  Það hefur verið hefð fyrir því alveg síðan börnin byrjuðu að ganga í skóla að amma og helst afi líka, hafa komi með í  vetrarfríferð í sumarbústað.  Nú er komið að slíku fríi og það stendur bara á ömmu að fá grænt ljós hjá lækninum til þess að komast með.

Þegar ég horfi á fegurðina úti, þá get ég bara ekki annað en verið bjartsýn .

Bjartsýn á að þjóðin nái að vinna sig út úr erfiðleikunum.
Bjartsýn á að þeir sem hafa tímabundið misst störf sín fái fljótt vinnu aftur og að þeir geti notað biðtímann vel til þess að byggja sig upp til þess að takast á við ný störf á nýjum vettvangi.
Bjartsýn á að eitthvað gott komi út úr þessu öllu saman. 

Umfram allt ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýn í dag, hvort sem það þykir raunhæft eða ekki.

Látum þetta ástand í þjóðfélaginu vera áminningu um að huga betur að því sem gefur lífinu gildi, í stað þess að dansa endalausa hringi í kringum gullkálfinn sem hefur staðið alskapaður fyrir framan okkur Íslendinga í nokkur ár og freistað þeirra sem fram hjá fara. 

Nú þurfum við að átta okkur á því hvað það eru margir í heiminum  sem lifa í algjörri örbyrgð. Þeir þættust góðir að fá að lifa í kreppunni okkar.

Fleiri verða vangaveltur mínar ekki í bili. 
Ég sendi ykkur góðar kveðjur og óska ykkur góðrar helgar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Bjartsýni.

  1. Katla says:

    Vonandi færðu grænt ljós á sumarbústaðaferð með fjölskyldunni!
    Kær kv.

  2. Vonandi verður þú nógu góð til að fara í bústaðinn. Lofaðu okkur að fylgjast með. Þetta með bjartsýnina tek ég undir heilshugar. Kær kveðja í kotið.

  3. Svanfríður says:

    Endilega leyfðu okkur að sjá hvort þú fáir að fara með,ok? Við viljum nefnilega að þér líði sem best :=)Hafðu það gott og takk fyrir fallegan pistil.

  4. Sigurrós says:

    Það er víst best að losa ykkur við áhyggjurnar og láta vita að frúin er í góðu lagi – hún er bara ekki í tölvusambandi eins og er 😉

Skildu eftir svar