Borgarferð / kvef.

Ég var í Reykjavík um síðustu helgi og fannst ég eins og túristi. Það er svo langt síðan ég hef farið í bæinn án þess að flýta mér bara að því sem ég þurfti að erinda og svo beint heim.


Ég fór í bæinn á laugardag í samfloti með Hauki. Það var bæði skafrenningur og hálka á Hellisheiðinni. Ég á litla bílnum mínum ók í gegnum allt kófið en Haukur á jeppanum horfði niður á það. Ég vildi bara hafa bílinn minn í bænum til að komast á honum aftur austur eftir helgina því Haukur  var að byrja að vinna á sunnudagskvöld.


Við byrjuðum á því að fara á Þorrablót Starfsmannafélags ísal í Hlégarði. Það var góður matur og ágætis ball (hefði mátt vera meira af gömlu dönsunum). Á sunnudeginum fórum við svo í bæinn og kíktum í Kolaportið. ég hef ekki komið þar í líklega tvö ár. Síðan fórum við á kaffihús og loks í Háskólabíó þar sem við sáum alveg stórkostlega mynd „Heimur fuglanna“ á frönsku kvikmyndahátíðinni  Þessi mynd er alveg listaverk bæði myndatakan sem er ofar skilningi manns og tónlistin er líka alveg einstök og passar svo vel við myndina.  Eftir kvöldmat sem Haukur eldaði af myndarskap sínum þá fór ég að heimsækja Sigurrós en Haukur skreið í koju til að reyna að sofa eitthvað fyrir næturvaktina sem byrjaði á miðnætti. Við Sigurrós horfðum á Practise og borðuðum alls konar góðgæti með. Eins gott að við horfum ekki saman á sjónvarp á hverju kvöldi – en maður var nú í borgarferð 🙂


Á mánudagsmorgni þurfti ég að fara í Domus Medica í tékkun sem ég var boðuð í og síðan hitti ég Ingunni Ragnars og Birgit. Ég leit svo aðeins við hjá Lofti og fór síðan til Tótu gömlu. Ég ætlaði að heimsækja tengdamömmu og Ingabjörn en enginn var heima. Ég fer að halda að þau séu aldrei heima því þetta er í þriðja skiptið sem ég hitti ekki á þau þegar ég kem í bæinn. Um kvöldið var svo saumaklúbbur hjá Eddu Garðars svo ég hélt áfram að sukka í kaffi og kökum nema nú var sko komið að alvörutertunum og ekki af verri endanum.  Ég stakk mér svo aftur í Hafnarfjörðinn til að gista. Haukur var á næturvakt svo við hittumst bara um morguninn þegar ég var að búa mig til heimferðar og hann að fara að sofa fyrir næstu törn.  Þar með lauk borgarferðinni minni í þetta sinn.


Mér fannst þetta í alvöru líkast því þegar maður skreppur til útlanda. Veðrið var svo einstaklega gott. Það er ekki oft sem það er alveg logn, frost og sól í miðbæ Reykjavíkur. Oftast er þar rok og kuldi í norðanátt en ekki í þetta sinn. Kannski var ástæðan líka sú að ég hef ekki farið í bæinn til að rölta um og skreppa á kaffihús og í bíó í langan, langan tíma. Þetta var sem sagt alveg fyrirtaks helgi.


Svo komu eftirköstin. Þegar ég kom heim á þriðjudaginn þá var mér bara endalaust kalt. Ég var búin að fara í hverja peysuna yfir aðra og alltaf var mér kalt. Ég fann líka að ég var að kvefast og komin með hausverk svo ég pakkaði mér bara inn og drakk te af miklum móð. Núna tveimur sólarhringum síðar er ég enn innpökkuð að drekka te en finn samt að ég er aðeins að ná betri heilsu. Annaðhvort hef ég náð mér í einhverja pest, eða að loftið í borginni hefur verið svona mengað. Líklega er þetta nú einhver pest sem er að ganga. Guðbjörg var búin að vera veik og Karlotta kom til mín í morgun af því hún var með svo ljótan hósta og illt í eyranu svo Guðbjörg vildi síður setja hana í skólann. Svo við pössuðum hvor aðra í dag og líklega kemur hún aftur í fyrramálið. Það er hið besta mál. Ætli við hristum þetta ekki bara af okkur á morgun í sameiningu.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar