Áreitið mikið.

Það liggur við að maður taki sér frí frá fjölmiðlum því áreitið er orðið svo mikið og varla minnst á neitt sem ekki er neikvætt. Þó hlustaði ég aðeins á Rás 2 áður en ég fór framúr í morgun og þann tíma sem ég hlustaði var eingöngu verið að fjalla um jákvæða hluti, sprotafyrirtæki o.fl.  svo mér fannst nú þrátt fyrir allt, að það væri bjart framundan.  Síðan flutti ég mig aðeins yfir á útvarp Sögu og eftir að hafa hlustað á þá stöð í smátíma, þá lá við að mig langaði ekki einu sinni á fætur. Sú var tíðin þegar ég gat ekki sofið, að  ég skellti heyrnartólunum í eyrun og hlustaði á útvarpið og þá varð oft útvarp Saga fyrir valinu því þar var yfirleitt talmál og það er betra að ná að dorma aftur yfir tali en músik. Þetta var nú áður en öll þessi ósköp riðu yfir okkar litlu þjóð. Nú bregður hinsvegar svo við að það er varla hægt að opna fyrir útvarp Sögu því þar er veröldin ekki svart/hvít heldur bara svört og hvergi ljósglæta.

Auðvitað átta ég mig á því að ástandið er dökkt, en þurfum við ekki alltaf að sjá einhversstaðar ljósglætu til þess að geta lifað þetta af. Mér finnst því full ástæða til þess að benda líka á ljósið í stað þess að eingöngu sé klifað á því sem svartast er. 

Þetta hrun þjóðfélagsins er staðreynd, svo ömurlegt sem það nú er. En við getum ekki trekkt tímann til baka og breytt því sem gerst hefur, hversu reið sem við vitanlega erum. Við megum því ekki koma okkur í það sálarástand að hatast út í náungann og sjá bara allt svart. Það er ljós framundan og við þessi sterka og duglega þjóð megum aldrei missa sjónar á því.

Vitanlega eiga þeir sem komu okkur í þetta ástand að fá sín maklegu málagjöld og ég trúi því, (svo heimskulegt sem sumum finnst það) að svo verði.

Það er mikið um mótmæli núna og ekkert nema gott um þau að segja en ég sannfærist um það betur og betur að ég er friðarsinni, því ég þoli ekki þegar ofbeldi og læti fylgja mótmælum og sit því heima

Ég hef frá því að ég var barn forðast að vera þar sem eru átök og læti. Þetta er bara eitthvað úr uppeldinu. Ég lærði,  að það sem ekki væri hægt að leysa með orðum væri ekki hægt að leysa með átökum. Hvenær hafa líka átök gert neitt nema leiða til meiri átaka og tjóns.

Hins vegar er ekkert sem bannar mér að vera reið og ég er eins og aðrir öskureið yfir öllum þessum svikum og prettum sem við sauðsvartur almúginn höfum þurft að láta yfir okkur ganga.  Ég er bara svo skelfilega trúgjörn að ég vil trúa því að það sé verið að leita bestu mögulegu leiða til þess að vinna okkur út úr þessum vanda til hagsbóta fyrir okkur öll.
Sjálfsagt flokkast þessi trúgirni mín undir það að vera heimska, en þá verð ég bara að lifa við það að vera heimsk.

Góða helgi öll sem ratið hér í heimsókn
Munum að horfa á ljósið en ekki myrkrið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Áreitið mikið.

  1. Katla says:

    Ég verð að taka undir með þér Ragna, bæði með það að við verðum að halda í bjartsýnina, því við munum líta betri daga aftur, og ég er mótfallin ofbeldis- og haturfullum mótmælum. Ég sit þó ekki lengur heima heldur mæti á friðsamleg mótmæli á Austurvelli á laugardögum. Hver og einn verður þó að sjálfsögðu að ákveða fyrir sig hvað hann/hún vill gera. Og í lokin; þú ert ekki heimsk!
    Góða helgi Ragna mín: )

  2. Elsku Ragna, þá verð ég heimsk með þér. Ég geri ekki lítið úr fallinu, en múgæsing eru ekki mínar tvíbökur. Ég vakna alltaf við Gerði G. á föstudögum og finnst þá lífið ljúft. Góða helgi í bæinn þinn.

  3. Linda says:

    Það er alveg víst að við eigum eftir að sjá betri tíð með blóm í haga.. Lífið fer alltaf í hringi og það er ekkert öðruvísi nú..
    Ég myndi nú ekki kalla þig heimska elsku Ragna, því þú ert allt annað en það.. Bjartsýni er einmitt það sem þjóðin þarf akkúrat núna á þessum síðustu og verstu..

    Bestu kveðjur,
    Linda

  4. þórunn says:

    Sammála
    Ég er ykkur hjartanlega sammála, ég sé engan tilgang í líkamlegum átökum til að koma skoðunum sínum á framfæri. En það er til fólk sem vill hasar og verður svo að taka afleiðingum gerða sinna. Við skulum standa saman í því að horfa á ljósið framundan en forðast að festa augun á því neikvæða. Ég er viss um að það er betri kostur. Góða helgi ágætu konur. Þórunn

  5. Svanfríður says:

    Ekki ertu heimsk Ragna mín, frekar ertu á hinn veginn..að fólk skuli standa upp og mæta í friðsamleg mótmæli, því er ég sammála en ofbeldi og óeirðir skila engu. Bjartsýnin verður að vera því hvað annað gefur manni bros? Ég tek því undir bjartsýnina því ég reyni eins og ég get að vera bjartsýn. Hafðu það gott vinkona.

Skildu eftir svar