Kuldaboli.

Kuldaboli hefur hvílíkt verið að hamast hér fyrir utan og ég verð að játa að ég með mitt slæma kvef þori bara ekki einu sinni út með ruslið. Nú bara vona ég að eitthvað fari að slakna á hvorutveggja. Að kuldboli hypji sig og að fúkkalyfið fari að vinna sitt verk.


Það varð ekkert af að við kæmumst á þorrablótið sem við ætluðum að vera á núna um helgina og Sigurrós fer ein í skírnarveisluna til Arnars Más og Ástu í dag. Hún verður að vera fulltrúi okkar allra þar því hún er sú eina sem getur farið.  Ég er nú orðin verulega svekkt yfir að komast aldrei þegar fólkið er að hittast. Hitti þau t.d. ekkert um jólin vegna ófærðar. Nú er Unnsteinn kominn til Nýja Sálands og mikið er gaman að lesa um ævintýri hans þar.


Haukur kom austur í gær til að stjana við sjúklinginn. Oddur fékk að koma til ömmu um hádegi í gær og vera fram eftir degi  “ af því Karlotta var búin að fara tvisvar ein til ömmu“ og þegar hann vissi að afi væri að koma þá var dagurinn fullkominn hjá honum.


Nú er best að sjóða meiri engiferrót og halda síðan áfram drykkjunni í dag 🙂


Mullholland Drive.


Við ösnuðumst til þess í gærkvöldi að horfa á seinni myndina hjá sjónvarpinu. Ég sá í dagskránni að það ætti að sýna Mullholland Drive. Nafnið kom mér eitthvað svo kunnuglega fyrir sjónir svo ég hélt endilega að þetta væri mynd sem við hefðum ætlað að sjá í bíó en ekki orðið af svo nú væri tækifærið. Byrjunin lofaði svo sem góðu en síðan fór að smá halla undan fæti og þegar við vorum búin að hanga yfir þessu til klukkan að ganga tvö í þeirri von að þeir sem gerðu myndina myndu ná áttum aftur og halda áfram með efni myndarinnar vorum við nánast orðin öskureið því það var ekki hægt að fá nokkurn botn í þetta rugl. Þegar maður horfir á svona myndir dettur manni helst í hug að annaðhvort hafi handrit myndarinnar týnst eða höfundurinn ekki vitað hvert framhaldið ætti að vera. Þetta var sem sagt okkar upplifun af Mullholland Drive. Einhver á sjálfsagt eftir að segja að myndin sé mjög listræn og fín en við erum þá bara svo vitlaus að hafa ekki séð það eða skilið.


Læt ég hér lokið kvikmyndagagnrýni minni.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar