Að loknum laufabrauðsbakstri og beðið eftir því sem er næst á dagskrá.

Það er svo gaman að fylgjast með því hvað það fjölgar sífellt jólaljósunum hérna í kringum okkur. Ég hélt kannski að maður ætti eftir að taka eftir því að það væri kreppa og fólk myndi halda að sér höndum í skreytingunum en svo virðist ekki vera. Ég skrapp líka aðeins í gær með Sigurrós í Kringluna og þar var langt frá því að vera nein deyfð yfir og allt fullt af fólki.

Það saxast nú óðum á það sem ég hef sem fasta liði að útbúa fyrir jól. Piparkökurnar og laufabrauðið, sem við bökum alltaf saman mæðgurnar, er tilbúið og komið á sinn stað og svo dunda ég mér bara við restina eftir því sem ég er í stuði til. Ef ég verð mjög löt þá gerir það heldur ekkert til því jólin hafa alltaf komið og verið yndisleg hvort sem kökusortir eru fleiri eða færri. Aðalatriðið er að maður forðist að stressa sig upp, því að það fylgir því nefnilega engin jólagleði.

Það gekk mjög vel að baka laufabrauðið og nú erum við Haukur svo heppin að vera að fara í matarboð. Mikið hlakka ég til því það er alltaf svo gaman að borða góðan mat með góðu fólki.

Þetta jólatré kom mér í gott skap um daginn
þegar ég leit það augum á Smáratorgi.
Með þessari mynd slæ ég botn í spjallið við dagbókina að þessu sinni.

smaratorg.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

9 Responses to Að loknum laufabrauðsbakstri og beðið eftir því sem er næst á dagskrá.

  1. Sigrún Sig says:

    Njóttu jólaljósanna, Ragna mín. Það fer nú eitthvað lítið fyrir jólaljósum hér í Köben. Það er einungis einn gluggi með jólaljós í blokkinni á móti minni:) Njóttu aðventunnar og samverunnar með fjölskyldunni. Aðventukveðja frá Köben

  2. Rakel says:

    Ég hef oft velt því fyrir mér hvað þurfi margra ljósa seríur til að tréð verði svona flott! 400 perur dygðu ekki nema upp á miðjan stofn! 😉
    Bara smá pæling í öllum seríuauglýsingunum sem dynja á okkur!

  3. þórunn says:

    Laufabrauð og ljós
    Það hefur örugglega verið notalegt hjá ykkur mæðgum við laufabrauðsbaksturinn og ekki verra að vera boðin í mat á eftir.
    Ég er alveg heilluð af þessu ljósatré, sérstakt að sjá bara hvítar perur.
    Bestu kveðjur frá okkur Palla
    Þórunn

  4. Ragna says:

    Mikið er gaman að fá þig hérna í heimsókn Sigrún mín. Vonandi kemur þú heim til Íslands um jólin og getur séð öll fallegu jólaljósin. Danir komast ekki í hálfkvist við okkur í þessum skreytingum – þrátt fyrir ástandið hérna núna þá virðist lítið sparað í jólaskreytingunum.

  5. Minn smekkur segir að þetta jólatré sé ekki ég. Tíska,tíska og flottheit. Bekkjatuskan sem ég sá í dag kemur mér líka í gott skap! Kærust kveðja í bæinn.

  6. Ragna says:

    Ég er nú sammála þér Guðlaug mín. Þetta er ekki minn smekkur ef ég ætti að velja jólatré til að hafa heima hjá mér, því þá koma bara þessi fallegu grænu til greina,. Mér fannst þetta bara svo skemmtilegt þarna á þessu stóra torgi og girðing í kring.

  7. Svanfríður says:

    Jólaljós eru svo falleg-kannski ekki að skapi allra hvernig þau eru útlýtandi eða sett upp en þau auka á birtuna og það er sko bara gott. 🙂 Þú Ragna,eykur á birtuna líka.

  8. Anna Bj. says:

    Jólaljósin.
    Þú ert heilmikill ljósmyndari Didda mín, þú hefur náð svo fallegu sjónarhorni á tréð. Þetta er ekki eins fallegt ,,life“. Ég lenti í basli í dag, ÞG dóttir mín hjálpaði mér í kjallaranum í dag og ég fann ljósaseríuna sem á vera á svölunum, það logaði bara á einni peru, svo ég lagði land undir fót og var sagt að allar rauðar ljósaperur væru uppseldar. Loks fann ég einn stað þar sem von er á fleirum á morgun!! Er orðin allt of sein með þetta. Góða nótt.

  9. Hulla says:

    Æ hvað þið eruð duglegar. Ég á frí á morgunn og ætla að nýta hann í að klára hreingerningu og byrja að baka 🙂
    Knús í bæinn

Skildu eftir svar