þakklæti

Mikið er ég nú búin að hafa það huggulegt og gott þessa jóladaga. Við vorum í mat hjá Sigurrós, Jóa og Rögnu Björk á aðfangadagskvöld og færðum okkur svo yfir til Guðbjargar og fjölskyldu seinna um kvöldið. Það er mikill munur að hafa svona stutt á milli okkar mæðgnanna og fyrirhafnarlítið að skreppa á milli. Við vorum svo öll hérna í Fensölunum á jóladag með okkar árlega jólahlaðborð.  Svo vorum við í útskriftarveislu hjá Borghildi í dag.

Það má því segja að þessi jól hafi aðallega farið í að borða góðan mat og hækka tölurnar á fjárans vigtinni  – samt er bara fyrri hálfleikur búinn og mikið eftir enn af veislum og fíneríi.

Svona er það nú, að á meðan einn kýlir vömbina og kvartar yfir ofáti, þá hefur annar ekkert. Það eru nefnilega svo margir sem hafa það ekki eins gott og maður sjálfur. Það fer ekki hjá því að þessi hugsun hellist yfir mig og ég fyllist samviskubiti þegar ég opna ísskápinn og sé að hann er fullur af hinu og þessu góðgæti og ég veit að ég er alls ekki svöng heldur langar mig bara í eitthvað.  Ég veit að það er ekki sjálfsagður hlutur að hafa það svona gott.  Þakklæti er mér því efst í huga.

Við fórum í bíltúr á annan í jólum og litum inn í Landakotskirkju en þangað hafði hvorugt okkar komið fyrr. Mikið afskaplega er sú kirkja falleg.

landakotskirkja1.jpg

Ég bið að heilsa ykkur þar til næst

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to þakklæti

  1. Katla says:

    Elsku Ragna.
    Ég ætlaði svo sannarlega að senda þér hlýjar kveðjur um hátíðarnar, en er búin að hafa það svo gott, að ég hef ekki nennt að setjast fyrir framan tölvuna. Þakklæti er einmitt það sem maður ætti að finna fyrir, þegar maður hefur notið samvista við sína nánustu í hamingju, friði og allsnægtum.
    Myndirnar þínar og Sigurrósar frá jólahátíðinni eru yndislegar, þú ert sannarlega lánsöm: )
    Bestu kv. frá Kötlu vinkonu þinni.

  2. Jólafriður og þakklæti er góð samsetning. Hjartans kveðjur úr Hornafirði.

  3. Rakel says:

    Já þessi kirkja er sannarlega falleg og sérstakt að vera þar og sjá allt unga fólkið sem kemur við til að biðja! Við eigum því ekki að venjast úr „okkar“ kirkjum þó margar séu þær fallegar!

    Gleðilegt ár!

  4. afi says:

    Falleg kirkja.
    Sú var tíðin að afi fór oft á páskum í þessa fallegu kirkju. Óska þess að komandi ár verði ykkur gjöfult og gott. Þakka liðin blogg ár.

Skildu eftir svar