Ég óska ykkur öllum gleði og friðar á komandi ári.

Nú er enn einu sinni komið að áramótum, en það einkennilega gerist að það er alltaf að verða styttra og styttra á milli áramóta. Hérna í gamla daga var endalaus bið eftir jólum og áramótum en síðastu áratugina flýgur tíminn svo hratt að manni finnst rétt búið að pakka jólaskrautinu niður þegar það er aftur kominn tími til að taka það upp. En þetta er nú bara gangur lífsins og eitt er víst, manni leiðist ekki á meðan tíminn líður svona hratt.

Um þessi áramót er uggur í okkar litlu þjóð eftir þær hremmingar sem hún hefur orðið fyrir.  Ég vil ekki gera lítið úr þeim vanda sem við erum í, en ástæða þess að ég óska ykkur sérstaklega Gleði og Friðar er sú, að ég vona að við komumst út úr þessum slæmu málum á friðsamlegan hátt.  Ég ítreka það sem ég hef áður minnst á,  að ég hef þá trú að hverskonar ofbeldi kalli bara á meira ofbeldi.

Í þessum töluðu orðum heyrði ég fréttir í útvarpinu og það voru ekki fallegar fréttir sem þar voru sagðar. Slasað fólk eftir að mótmælendur voru með aðgerðir gegn útsendingu Kryddsíldarinnar sem var að þessu sinni send út frá Hótel Borg.  Þar slasaðist m.a. lögregluþjónn þegar mótmælandi kastaði múrsteini í höfuð hans. Ljótt að heyra.  Eignaspjöllin læt ég liggja milli hluta því líf og limir fólks skipta auðvitað mestu máli. 

Það væri fróðlegt að vita hve margir íslendingar almennt eru fyrir mótmæli eins og þau sem  fram fóru við Hótel borg í dag.

Þessi pistill minn er orðinn allt annar en til stóð í upphafi. Ég ætlaði einungis að óska Gleði og Friðar á nýju ári og hvetja fólk til þess að missa ekki vonina og vera bjartsýnt.  Mér hefur fundist það góð regla að vera vongóð og bjartsýn en þegar ógæfa dynur yfir að takast þá á við hana á þeirri stundu. Það er nefnilega svo að stundum kvíðum við að ástæðulausu og málin leysast þrátt fyrir dökkt útlit.

Þessa mynd tók ég út um eldhúsgluggann minn eftir hádegi í dag. Mér fannst svo fallegt að sjá hvernig sólin kíkti upp yfir dökka hæðina og lýsti upp himininn. Mér finnst þessi mynd sem tekin er á síðasta degi ársins 2008 táknræn og ég vil geyma hana í huga mér nú um þessi áramót og einnig á nýja árinu og kalla hana fram þegar útlitið er dökkt. Það birtir nefnilega alltaf aftur eftir dimm él.

Verum vongóð og bjartsýn.
Gleðilegt ár.

gamlarssol.jpg
This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Ég óska ykkur öllum gleði og friðar á komandi ári.

  1. þórunn says:

    Gleði og friður
    Þetta er fallega orðað hjá þér Ragna mín, ég sendi ykkur samskonar kveðjur héðan úr kotinu. Þessi mynd er afar táknræn og sannarlega þess virði að skoða vel og muna.
    Þórunn

  2. Með frið í hjarta óska ég ykkur einnig gleðilegs árs. Kær kveðja

  3. Katla says:

    Myndin er yndislega falleg Ragna!
    Hafðu það gott í kvöld – gleðilegt ár: )

  4. Svanfríður says:

    Þetta var fallegur pistill og ég óska þér og þínum gleði og friðar á árinu og hver veit-kannski að við hittumst í ár?

  5. Ragna says:

    Mikið yrði ég nú ánægð með það Svanfríður mín að fá að hitta þig.

Skildu eftir svar