Smá pistill.

Hvað er hægt að segja annað en allt gott á svona fallegum degi eins og er í dag. Ég er orðin miklu betri af kvefinu og astmanum og komin með nýjan skjá við tölvuna mína. Sigurrós var að skipta um tölvu og gaf mömmu gamla skjáinn sinn. Hvílíkur munur :). Ég gerði mér bara ekki grein fyrir því hvað gamli skjárinn sem ég var með var lélegur. Nú er ég bara í sjöunda himni.


Það er annars ótrúlegt hvað það snjóaði mikið fyrir helgina. Ég veit ekki hvernig væri á pallinum hjá mér ef þessi snjór sem kom núna hefði bætzt ofan á snjófjallið sem fyrir var en sem betur fer tók Haukur sig til um daginn og mokaði öllu af pallinum. Ég þurfti samt að moka frá dyrunum í gær til þess að geta komist út um þvottahúsdyrnar til að gefa gæludýrunum mínum.  Já, Það er nú annars hvílíkt dekrað við smáfuglana hérna í Sóltúni 29. En því miður eru það eru fleiri en ég sem hafa mikinn áhuga á blessuðum fuglunum því það er kattarskömm sem sýnir þeim ekki minni áhuga en bara með öðrum formerkjum. Hauki datt þá það snjallræði í hug um daginn að kaupa rennu og festa ofaná grindurnar á pallinum. Nú koma þeir bara og fara í rennuna sína á matmálstímunum og kisi á mun minni möguleika á að komast óséður að þeim.


Guðbjörg þurfti að vera í Reykjavík á fimmtudag og föstudag vegna funda um eineltisverkefnið. Amma fékk þessvegna að hafa gullmolana sína í gæslu á meðan – hér hefði ég viljað setja flottan broskall 🙂


Ætli ég hafi þetta nokkuð meira í bili.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar