Ferðin okkar Hildar til Nürnberg.

Það var svo gaman að hitta hana Hildi í dag og taka upp þráðinn að nýju eftir að hafa ekki hittst síðan 1985 þegar við fórum sitt í hvora áttina til nýrra starfa.  Við höfðum sko um nóg að spjalla.

Auðvitað kom Völuskrín við sögu og við rifjuðum upp ferðina okkar til Nürnberg. Þetta var fyrsta leikfangasýningin sem ég fór sem framkvæmdastjóri Völuskríns og þar sem Hildur var búin að vinna hjá fyrirtækinu í nokkur ár en ég var nýkomin til starfa, þá fékk ég leyfi hjá Barnavinafélaginu Sumargjöf sem átti Völuskrín, til þess að hún kæmi með mér á þeirri forsendu að hún þekkti þessar vörur svo miklu betur en ég. Svo fannst mér líka að hún sem var búin að vinna svo lengi og var svo góður starfskraftur, fengi að fara í eina slíka ferð.
Þar sem þetta var stærsta leikfangasýningin í Evrópu og leikfangasalar komu hvaðanæva að til innkaupa á leikföngum þá var vitaskuld erfitt að fá gistingu á hótelunum .  Mér var bent á heimagistingu og það varð úr að ein slík varð fyrir valinu.

Gistingin var hjá þýsk/rúmenskri konu sem  bjó ein í lítilli íbúð í blokk og hún talaði enga ensku. Ég talaði ekki þýsku og Hildur litla. Svo urðum við nú verulega undrandi þegar við sáum aðstöðuna sem okkur var ætluð. Þegar konan bauð okkur inn í stofuna þá sáum við að það var búið að hólfa stofuna í tvö rými með hengi þvert yfir. Herbergið sem við höfðum tekið á leigu var sem sé hinu megin við hengið, en í fremri stofunni var borðstofa og þar hafði sú gamla sjónvarpið sitt.
Í rýminu sem okkur var ætlað, var eitt stórt hjónarúm og sjálfsagt voru náttborð en ég man að við urðum að hafa fötin okkar í ferðatöskunum þessa daga sem við þurftum að vera þarna.

Við höfðum keypt okkur Bailys líkjör eða eitthvað álíka í fríhöfn á leiðinni út og ákváðum að fá okkur sitthvert staupið af því þegar við vorum loks komnar þarna á áfangastað og búnar að sætta okkur við þessa furðulegu gistiaðstöðu. Við vorum staðráðnar í að láta þetta ekki eyðileggja fyrir okkur dvölina þarna. Þegar við litum í kringum okkur til þess að finna glös var auðvitað engu slíku til að dreifa. Við stóðum  með flöskuna í höndunum, hvísluðum og skríktum eins og skólastelpur sem voru að gera eitthvað sem þær máttu ekki. Sú gamla sat nefnilega í stólnum sínum hinu megin við tjaldið.  Þetta var í rauninni allt svo drepfyndið og ekki átti það eftir að batna. Okkur langaði ekkert til að drekka beint úr flöskunni og  fórum því framfyrir tjaldið með flöskuna í hendinni og notuðum handapatsaðferðina til þess að biðja um að fá lánuð glös.
Sú gamla spratt eins og elding upp úr stólnum þreif flöskuna og hrópaði, Danke, Danke og síðan setti hún flöskuna upp á skáp í stofunni hjá sér.  Við stóðum þarna eins og illa gerðir hlutir og kunnum ekki við að taka flöskuna af skápnum – sú gamla settist hinsvegar strax aftur við sjónvarpið og hélt áfram að horfa á vestra með John Wayne, sem auðvitað ræddi  málin á þýsku,  því enska heyrist ekki í þýsku sjónvarpi. 
Nú gátum við bara ekki meira, enda engu líkara en að við værum orðnar persónur í grínmynd. Við bökkuðum því innfyrir tjaldið og fengum hvílíkt hláturskast yfir þessu öllu saman, og það var svo erfitt að hætta að hlæja því við vissum af þeirri gömlu fyrir framan tjaldið og vorum að reyna að láta hana ekki heyra að við værum að missa okkur úr hlátri.

Við fengum líka hláturskast morguninn eftir þegar við vorum að fara að borða morgunverðinn því það var búið að leggja fyrir okkur á borð og á borðinu var smjörklípa á diski, ostur, marmelaði og einhver furðulegur bastkassi með loki yfir og þegar við voguðum okkur að taka lokið af kom í ljós tauservíetta og eitthvað rækilega vafið inn í hana. Þegar við höfðum flett þessu í sundur þá kom í ljós að þetta innihélt tvö rúnnstykki – eitt á mann.

Svo man ég eftir enn einni uppákomunni. það var þegar við ætluðumm síðasta kvöldið, að fara út að borða ásamt öðrum íslendingum sem voru á sýningunni. Við vorum búnar að dubba okkur upp frá toppi til táar en þegar við komum fram var sú gamla þar og benti strax á skóna okkar. Það  fór ekkert á milli mála að henni fannst fráleitt að við færum út á hælaskóm þegar það væri snjór á götunum.  Auðvitað var þetta alveg rétt en við ætluðum með leigubíl beint á staðinn og vorum ekki með kuldaskó með okkur því okkur hafði verið sagt, að það væri komið vor þarna á þessum tíma. Við sögðum í sífellu Nei,nei, OK OK  en hún ætlaði ekki að láta sig og var komin með eina fjallgönguklossa og var að leita að öðrum þegar við ákváðum að kalla bara bless og láta okkur hverfa því annars enduðum við með því að fara út að borða í sparifötum og gömlum fjallgönguskóm við. það áttii nú ekki við íslenskar glanspíur að fara þannig út á lífið.  En þetta varð til þess að við urðum bara að ösla snjóinn í hælaskónum því það var auðvitað ekkert búið að panta fyrir okkur leigubílinn þegar við stungum af. Við héldum að við fengjum bíl á leiðinni en það var nú ekki svo gott, svo við bara gengum og gengum.  þetta varð samt hið skemmtilegasta kvöld.

Það var gaman að rifja upp þessa skemmtilegu daga.  Það er svo margt sem maður hefur upplifað, sem er geymt en ekki gleymt og það rifjast ótrúlega fljótt upp þegar til á að taka. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

10 Responses to Ferðin okkar Hildar til Nürnberg.

  1. Katla says:

    En óvenjulegar aðstæður! Stundum er bara ekkert betra í stöðunni en að hlægja: D

  2. Haha, þetta var stórskemmtileg lesning! Kær kveðja í bæinn

  3. Stefa says:

    Þú segir alltaf svo skemmtilega frá Ragna mín – ég hló alveg innilega að þessari frásögn. Takk fyrir að deila þessu með okkur. *Knús* úr 104 Rvk ;o)

  4. Hildur says:

    Völuskrín
    Elsku Ragna, kærar þakkir fyrir síðast, mikið var þetta nú gaman hjá okkur, að rifja upp svona skemmtileg atvik, er enn að hlæja enda segir þú svo skemmtilega frá, vonandi hittumst við áður en langt um líður hressar og kátar, nágrannakveðja Hildur

  5. Ragna says:

    Já mér finnst svo gaman að rifja þetta upp og nú þarf ég bara að leita úti í skúr að myndunum sem ég tók hjá gömlu. Ég man ekkert í hvaða kassa það lenti í flutningunum.
    Þakka þér fyrir frumkvæðið Hildur mín nú förum við sko að hittast oftar.

  6. Rakel says:

    Ég lifði mig nú alveg inn í þessa sögu!!

  7. SVanfríður says:

    Þetta var frábær saga aflestrar og ég hló upphátt. hahaha að taka af ykkur flöskuna:) það fannst mér best!

  8. þórunn says:

    Góðar minningar
    Þetta hefur sannarlega verið skemmtileg og óvenjuleg ferð hjá ykkur. Það léttir lundina að rifja upp skemmtilega ævintýri og minna sig á að maður hafi upplifað margt skemmtilegt. Frábær frásögn hjá þér Ragna mín, hafðu það sem best,
    kveðja
    Þórunn

  9. Hildur says:

    Völuskrín
    Mundi nú ekkert eftir því að þú hefðir verið með myndavél, alveg yrði það nú frábært ef þú mundir finna einhvern tíma myndirnar, þá fengi maður örugglega annan hláturskasta-dag við að skoða þær. Kv

  10. afi says:

    Lítið ævintýr.
    Ævintýrin gerast enn og er það vel. Eftir verða góðar minningar sem ylja hjartarætur á köldum vetrarmorgnum.

Skildu eftir svar