Er vorið að koma?

Svo maður haldi nú áfram með þetta sér íslenska fyrirbæri að tala um veðrið þá fannst mér, þegar ég sat böðuð í sól, í heita pottinum í sundlaugunum í dag að nú færi veturinn að fara halloka fyrir vorinu. Það voru fleiri sammála um hvað það var eitthvað vorlegt í dag. Einn spekingur sem var staddur í pottinum með okkur sundleikfimikonunum sagði þó að það ætti samkvæmt einhverjum garnaflækjuspám eftir að koma eitt hret síðan væri vorið á leiðinni.


Við Haukur erum búin að vera voða dugleg að fara út að ganga hvernig sem viðrar. Við gerðum með okkur samkomulag um að samþykkja ekki ef annað okkar kemur með þau rök að það sé ekki hægt að fara í göngutúr „…af því veðrið er svo leiðinlegt“. Við erum þessvegna búin að arka nokkrum sinnum um allan bæ í grenjandi rigningu og roki. Svakalega hressandi. Það verður svo spurning hversu vel ég stend mig þegar Haukur fer í bæinn í næstu vinnusyrpu því þá er enginn sem segir: “ Auðvitað förum við út“. Ég lofa hér og nú frammi fyrir netþjóð að ég ætla að standa mig og arka út í rigninguna og rokið þegar svo viðrar. Hinsvegar vona ég  bara að spá manansins í heita pottinum um að vorið sé á næsta leiti standist.


Við vorum í matarboði hjá Eddu og Jóni í kvöld. Borðuðum dýrindis svínasteik og drukkum rauðvín með.  Aldeilis notalegt fimmtudadgskvöld.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar