Gerum daginn í dag að góðum degi.

Þessa fyrirsögn setti ég á "Facebook" síðuna mína fyrir daginn í dag. Ég er þess nefnilega fullviss að ef maður gengur jákvæður inn í daginn þá verði hann góður.

Ég var svona á bakvakt fyrir barnabörnin í Ásakórnum því það var starfsdagur bæði í skólanum og leikskólanum. Karlotta hafði fengið að leyfa tveimur vinkonum gista. Stelpurnar voru ekki komnar fram þegar amma mætti á svæðið um tíu leytið,  en Oddur og Ragnar Fannberg voru að horfa á Íþróttaálfinn.  Þegar þátturinn var búinn voru stelpurnar ekki enn komnar fram en við heyrðum þær þó tísta inni í herbergi. Við vissum að þær spjöruðu sig og ákváðum að fara bara heim til afa og vera aðeins þar.

Mikið var ég fegin að mér hafði dottið í hug að færa okkur í Fensalina því rétt eftir hádegi hringdi dyrasíminn og ég var auðvitað alveg viss um að nú væri Guðbjörg komin að sækja strákana en svo var ekki.  Það gerðist nefnilega enn einu sinni að ég fékk heimsókn af netvinkonu sem hefur lengi komið í heimsókn á síðuna mína og við höfum aðeins skrifast á – en aldrei hittst. Nú stóð þessi elskulega kona í dyragættinni með fallegan rósavönd sem þakklæti fyrir pistlana mína á heimasíðunni. Eins og mér finnst sjálfri það lítilfjörlegt og lítt merkilegt sem ég set á síðuna mína.  Auðvitað dreif ég konuna inn og við drukkum saman kaffibolla í eldhúsinu hjá mér. Ég hef þá trú að við eigum eftir að drekka mun fleiri kaffibolla saman, enda búum við ekki fjarri hvor annarri.

Rétt fyrir kaffitímann hringdi Guðbjörg síðan og sagði að Karlotta og vinkonurnar hefðu bakað svo fína sjónvarpsköku og nú væri tilvalið að skila strákunum og fá kaffi og köku. Amma var nú ekki lengi að bíta á agnið.

Svo rétt fyrir sólarlagið þá skrapp ég í smá göngutúr um Kópavogsdalinn og tók nokkrar vetrarmyndir.

Hér eru myndirnar allar, en hérna fyrir neðan er smá sýnishorn sem vonandi lýsir því vel hvað friðsældin og fegurðin voru mikil. Í svona fegurð fyllist maður einhverri sérstakri tilfinningu og allt er svo óendanlega gott og fallegt.

Það sannaðist sem sé í dag að það er gott að byrja daginn á því að ákveða að hann verði góður og fallegur  – það var allavega reyndin hjá mér í dag.

Hér koma svo loks smá sýnishorn af deginum í dag. 

vetur1.jpg

Hvílíkur friður og fegurð 

vetur_2.jpg

 sólarlagið út um eldhúsgluggann 

vetur3.jpg

 Njótum helgarinnar.
Knúsum, verum góð hvert við annað
og hugsum um það hvers virði það er að vera til hvert fyrir annað.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Gerum daginn í dag að góðum degi.

  1. þórunn says:

    Þessi dagur hefur greinilega verið einn afþessum sérstöku dögum þegar það verður svo margt til að gleðja mann, líkama og sál. Myndirnar eru töfrandi. Ég óska ykkur góðrar helgar með kærri kveðju frá okkur Palla,
    Þórunn

  2. Ragna says:

    Já Þórunn mín, þetta var einmitt einn af þessum dögum og mér var einmitt hugsað til þín í dag því þú ert mín fyrsta netvinkona sem síðan verður svo góð vinkona mín.

  3. Sigurrós says:

    Stórkostlegar myndir hjá þér, mamma. Mér finnast myndirnar IMG9180 og IMG9189 standa upp úr, en samt eru þær allar svo magnaðar.

  4. Álfhildur says:

    þetta eru frábærar myndir, veðrið undanfarna daga hefur gefið tilefni til myndatöku kveðja

  5. Svanfríður says:

    Yndislegar myndir Ragna-takk fyrir þær. Vonandi hefur helgin verið þér ljúf mín kæra.

  6. Katla says:

    Myndirnar þínar eru töfrum líkast!
    Ég ætla að tileinka mér fyrirsögnina þína í dag, vona mér gangi það vel.
    Ég efa ekki að þú ert höfðingi heim að sækja með alla vinsemdina og jákvæðina þétt að baki þér: )

Skildu eftir svar