Nýjar fréttir.

Er ekki sagt að Guð hjálpi þeim sem hjálpa sér sjálfir. Ég trúi því að þetta sé bara alveg hárrétt, a.m.k. sannaðist þetta á mér í dag því þegar ég var nýkomin heim úr fyrsta Rope Yoga tímanum þá var hringt til mín frá Reykjalundi og mér sagt að koma þangað í forskoðun hjá lækni næsta miðvikudag. Ég varð nærri því mállaus því ég varð svo hissa. Ég átti sko ekki von á að heyra frá Reykjalundi fyrr en eftir marga mánuði því læknirinn minn sagði að það væri mjög löng bið eftir plássi þar, jafnvel heils árs bið. Nú á ég auðvitað eftir að sjá hvernig læknirinn metur mig og hvar ég lendi í röð þeirra sem líka koma í forskoðun.

Ég er hinsvegar alveg sannfærð um að það er satt, að Guð hjálpi þeim sem hjálpa sér sjálfir. Nú skammast ég út í sjálfa mig fyrir að hafa bara látið sjúkraþjálfunina duga en ekki verið duglegri að gera eitthvað meira  í málinu fyrr en núna. 

Ég var mjög ánægð með fyrsta Rope Yoga tímann og lýst svo vel á hugmyndafræðina að tengja saman líkama og sál. Þetta var auðvitað svolítið erfitt svona í fyrsta tímanum en ég ætla ekki að láta það stoppa mig í að halda áfram.  Það er heldur ekki verra að manni er kennt að anda og tengjast önduninni. Það er nefnilega nokkuð sem ég trassa að gera og anda yfirleitt svo grunnt að það er eiginlega mesta furða að maður yfirleitt tóri.

—————————————————

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Nýjar fréttir.

  1. þórunn says:

    Frábært
    Mikið var ánægjulegt að lesa þessa færslu, ég er sammála þér með að Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir, það er engin spurning.
    Spennandi þetta yoga, örugglega gott fyrir alla.
    Kveðja Þórunn

  2. Rut says:

    Já…….
    O..já…. Guð hjálpar….!

    Didda mín, ég vona að þú njótir vel æfinganna, þær eru mjög góðar og styrkja mann ótrúlega vel þó áreynslan sé ekki eins og í einhverju pallapúli. Þetta er
    frábært fyrir fólk eins og okkur sem þolir ekki hamaganginn í leikfimsalnum einhverra hluta vegna!!!
    kv. Rut

Skildu eftir svar