Búin að fara í prófið.

Nei, ég er ekki að taka neina háskólagráðu. Heldur fór ég í svokallaða forskoðun á Reykjalund.
…….

"Er komið að því að ég komist inn á Reykjalund" spurði ég spennt.
"Nei, Nei. Nú er ég bara að athuga hvort þú eigir erindi á Reykjalund." var svar lækinisins.

Nú var ég alveg viss um að ég stæðist ekki þetta próf og fengi bara þann úrskurð að það væri ekkert að mér nema móðursýki.  Eftir alls konar spurningar og umræður, þá var mér sagt að afklæðast og svo þurfti ég að spranga um þarna á nærklæðunum fyrir lækninn, sem fylgdist með af áhuga.  Ég hélt inni maganum og reyndi að afbera þetta með því að ímynda mér að ég væri orðin rúmum fjörutíu árum yngri og komin í Americas Next Top Model  –  Ég kom hins vegar til sjálfrar mín og var bara ekkert módelleg þegar ég átti að fara að setja mig í ýmsar stellingar og beygja og sveigja bæði bak og útlimi,  því þá var gamla spítukellingin aftur mætt og ég varð sem fyrr, alveg ósveigjanleg.

Eftir alls konar pikk og pot mátti ég klæða mig. Nú beið ég eftir því að heyra niðurstöðuna. 

"Þú átt fullt erindi á Reykjalund, en það verður ekki á næstunni því nú er ég að velja þá sem geta komist inn í haust. Ég kalla á þig líklega í september".

Mér voru svo lagðar lífsreglurnar um það hvað ég gæti gert sjálf á meðan ég biði.

Ég á að skipta um sjúkraþjálfunarstöð og fara þrisvar í viku til sjúkraþjálfara.

Reyna að fara í göngutúra og smá bæta við vegalengdina.

Ég fékk svona langt Aaaa ?  við Rope Yoganu,  og ég sem var að borga fyrir tveggja mánaða námskeið þrisvar í viku. þar var ég aðeins of fljót á mér, enda vissi ég ekki á mánudaginn, að ég myndi fara í viðtal á Reykjalund í dag. Ég átti satt að segja ekki von á að við mig yrði talað þar fyrr en einhverntíman næsta vetur í fyrsta lagi. En ég má ekki gera allt of mikið, svo nú verð ég að finna út hvernig ég hef þetta.

Ég spurði hvort ég ætti að láta vita síðsumars ef ég yrði orðin svo góð, að ég þyrfti kannski ekki á þessu að halda.  "Nei, þú kemur í haust, en þá vona ég að þú verðir komin í mun betra form en þú ert í núna. "

Nú þarf ég sem sé bara að bretta upp ermarnar og kannski skálmarnar líka,  og fara eftir ráðleggingunum sem ég fékk í dag.  Annað er að svíkja sjálfa mig og það má auðvitað ekki.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Búin að fara í prófið.

  1. afi says:

    Gott módel
    afi er hand viss um að þú hafir tekið þig vel út í módelstarfinu. enda komstu í úrslit og færð að fara á Reykjalund. Þar er víst ógnar langur biðlisti. Þolinmæðin þrautir vinnur allar. Gangi þér vel í þínum göngum og æfingum. Þangað til að þinn tími kemur.

  2. Ragna says:

    Já afi sæll – „minn tími mun koma“, eins og mæt kona sagði fyrir margt löngu. Það rættist hjá henni og mun líka rætast hjá mér.
    Ég slæ ekki slöku við á meðan ég bíð.

  3. þórunn says:

    Að standast prófið
    Þú kannt nú að koma orðum að því sem þú þarft að segja og gerir það af snilld. Ég sé þig í anda tipla þarna um gólfið. En það voru góðar fréttir að þú skulir komast að, þó seinna verði og fínst að fá tilsögn í hvað þú átt að gera til að þér líði betur. Áfram Ragna „súper módel“.
    Kær kveðja
    Þórunn

Skildu eftir svar